136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér fjárlagagerð fyrir komandi fjárhagsár, 2009, og komið hefur fram í umræðunni að fjárlagagerðin á sér stað undir mjög erfiðum kringumstæðum þar sem fjármálalífið er í mikilli óvissu þessa dagana. Gagnstætt því sem kom fram í upphafi, að ástæða sé þá til að fresta umræðunni, held ég að það sé einmitt mikilvægt að fjárlögin séu lögð fram. Með þeim er lagður grunnur að því hvað fram undan er, að hverju er stefnt og reynt að móta þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur í málefnum samfélagsins á næsta ári. Raunar eru lögð fram jafnhliða rammafjárlög um hvernig eigi að standa að málum næstu árin.

Komið hefur fram í kynningu á fjárlagafrumvarpinu að það er sveiflujafnandi, þ.e. það er sett upp þannig að reiknað er með halla næstu þrjú árin. Þar er reiknað með að við nýtum okkur þann tekjuafgang sem verið hefur á undanförnum árum og nýtum hann til þess að sigla í gegnum þann ólgusjó sem nú er. Við skulum þó gera okkur grein fyrir þeim óvissuþætti að við vitum ekki hvað það mun kosta að reyna að ná jafnvægi og ná niður verðbólgu í því ástandi sem er í dag. Við skulum ekki reyna að leyna því en ég held að við eigum að geta náð samstöðu um það sem skiptir meginmáli, þ.e. hvaða hagsmuni við ætlum að reyna að verja í því ástandi sem dynur nú yfir. Þar eru auðvitað hagsmunir almennings, trygging þess að fólkið hafi nægjanlega aðkomu í þessum ólgusjó, það er það sem verður verkefni númer eitt, tvö og þrjú.

Það verður einnig verkefni okkar að verja velferðarkerfið því að nú þurfum við meira á því að halda en nokkru sinni fyrr. Við þurfum að sjá fara í gegn lög eins og um greiðsluaðlögun þar sem við reynum að hindra að fólk lendi í gjaldþrotum vegna offjárfestinga á síðustu missirum og vegna gengishruns sem við búum við þessa dagana. Allt eru þetta verkefni sem skipta gríðarlega miklu máli og hljóta að koma til tals í umfjöllun um frumvarpið og í fjárlaganefnd. Það verður líka verkefni okkar að reyna að ná samstöðu um að stemma stigu við almennum hækkunum, hindra að við fáum gamalt og þekkt ástand sem eru víxlverkanir launa og verðlags.

Ríkisstjórnin sem nú stjórnar landinu, stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, lagði af stað með það verkefni að styrkja velferðarkerfið og viðhalda öflugu efnahagslífi. Það er ærið verkefni og við sjáum að það gengur á ýmsu hjá okkur en við getum þó fullyrt að nú þegar hefur náðst umtalsverður árangur í velferðarmálum. Það er sá árangur sem við þurfum að tryggja með fjárlögum og það kemur fram í þeim tölum sem hér eru birtar. Í fjárlögunum velur ríkisstjórnin að draga ekki saman vegna þess að við búum við almennan samdrátt í þjóðfélaginu og nú er rétti tíminn til að viðhalda framkvæmdum og gæta þess að ríkið skeri ekki niður á sama tíma.

Þrátt fyrir lækkun á tekjum er um að ræða raunhækkun á útgjöldum, í almennum rekstri um 4,2% en í tilfærslum, þ.e. til velferðarkerfisins, er hækkunin 7,1%. Það er líka umtalsverð hækkun á viðhaldsframkvæmdum til að reyna að stemma stigu við atvinnuleysi umfram það sem óhjákvæmilegt getur orðið.

Ef við lítum yfir fjárlögin sjáum við að þær áherslur sem lagðar hafa verið á undanförnum mánuðum á þessu rúma fyrsta ári ríkisstjórnarinnar bera fjárlögin þess merki að þar er málum ágætlega fylgt eftir, í fyrsta lagi varðandi málefni barna og fjölskyldna. Tekist hefur að vinna að málum eins og styttingu biðlista m.a. á barna- og unglingageðdeild. Búið er að laga barnabætur að hluta og breyta fæðingarorlofslögum þannig að tekjuviðmið er hagstæðara. Búið er að breyta lögum um langveik börn og þurfum við jafnvel að taka þar betur á vegna þess að komið hafa fram ýmsir gallar á þeim lögum þótt stórbætt séu. Allt eru þetta verkefni sem bera vott um að við ætlum að fylgja því eftir sem við lögðum af stað með.

Sama gildir um aldraða og öryrkja, þar er rúmlega 7 milljarða hækkun á árinu 2009 og samkvæmt rammaáætlun verður það um 8,7 milljarðar að meðaltali á ári þannig að hér er verið að leggja verulega mikið meira til velferðarkerfisins. Verið er að auka hjúkrunarrými um 400, fækka þvinguðum sambýlum með sérstökum aðgerðum. Dregið er úr tekjutengingum og tryggðar lágmarksbætur, festar við töluna 150 þúsund kr. Þessar bætur eru síðan verðtryggðar, þ.e. leiðrétting kemur um áramót þannig að verðbólgan mun ekki skerða bæturnar á því ári þótt hún geti haft slæm áhrif á margt annað. Við höfum séð hækkanir á bótum öryrkja og aldraðra þó að ávallt megi gera betur. Nú fer fram endurskoðun á almannatryggingakerfinu og þó að menn hafi náð að afnema makatengingu og skattar á séreignarsparnað verði lagðir af um áramót er, eins og ég segi, ýmislegt óunnið.

Verið er að vinna að endurskoðun starfsendurhæfingar og ganga í samstarf milli ríkis og stéttarfélaga. Það er vinna sem maður bindur miklar vonir við og unnið hefur verið verulegt átak í búsetumálum geðfatlaðra. Einnig þarf að vinna í búsetumálum annarra fatlaðra. Það verður eitt af þeim málum sem við sjáum á málefnalistum og verður verkefni vetrarins, að vinna að endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra, um barnavernd o.fl. sem tengist þessum málaflokki.

Tíminn er ekki langur en hægt væri að halda áfram. Við getum tekið menntamálin og rannsóknirnar. Þar eru framlög til kennslu og rannsókna verulega aukin og hækkanir til framhaldsskóla þó að þær tölur eigi eftir að hækka enn meira með nýjum lögum til þess að uppfylla skilyrðin sem þar eru sett.

Fleira má nefna. Í gangi er ýmis vinna í sambandi við atvinnumálin, bæði í gegnum vaxtarsamningana og einnig í gegnum sérstaka samninga sem gerðir voru bæði við Norðurland vestra og Norðurland eystra og auðvitað verðum við að fylgja því eftir að fjármagn fylgi. Ég verð að viðurkenna að ekki hefur unnist tími til að skoða hvort allt er komið sem gefin voru fyrirheit um en auðvitað skiptir það miklu máli og við verðum að standa þá vakt. Sama gildir um mótvægisaðgerðir til minni sjávarplássa eða þeirra sem tapað hafa kvóta. Við þurfum sem sagt að fylgja því eftir að þær mótvægisaðgerðir nái tilgangi sínum.

Skoða þarf stöðu sveitarfélaganna. Það er erfitt því að sveitarfélögin standa svo gríðarlega misvel — eða misilla — og verður það verkefni í fjárlagagerðinni að fara yfir með hvaða hætti á að nota Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til jöfnunar og hvernig tryggja á að sveitarfélög lendi ekki í verulegum vandræðum vegna samdráttar eða ástandsins á fjármálamörkuðum.

Nú eru ráðherra og ráðuneytin búin að skila inn fjárlagatillögum samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar í meginatriðum en mikil vinna er fram undan í fjárlaganefnd. Aðalverkefnið verður þar, eins og áður sagði, að gæta hagsmuna almennings og bótaþega, tryggja að velferðarkerfið standi vel undir þeim væntingum sem gerðar eru. Við þurfum að beita okkur fyrir því að ekki verði gengið hart fram gagnvart einstaklingum sem lenda í vandræðum í framhaldi af því fjárfestingafylliríi sem hér var.

Það þarf að gæta þess sérstaklega að landsbyggðin verði ekki út undan. Tilhneigingin hefur verið sú að hún sitji svolítið eftir þegar menn reyna að hagræða en það er ekki gert í þessum fjárlögum, þ.e. reynt er að halda halda áfram framkvæmdum. Þar eru framkvæmdir í samgöngum mjög mikilvægar og einnig framkvæmdir í fjarskiptum. Við verðum að treysta á og fylgja því eftir að það nái til landsbyggðarinnar. Ákveðin svæði voru algjörlega utan þjónustusvæðis, eins og ég kalla það, þegar hagvöxturinn var hvað mestur, þ.e. Norðurland vestra og Vestfirðir. Það verður alveg sérstakt verkefni að gæta þess að það bitni ekki á þessum svæðum ef menn fara að krukka í fjárveitingar.

Það má einnig sjá í þessum fjárlögum að skoða þarf einstakar stofnanir. Ég hef orðað það þannig að það vanti viðurkenningu fjárveitingavaldsins og ráðuneytanna á raunfjárþörf einstakra stofnana. Það verður verkefni okkar í fjárlaganefnd að reyna að rétta það við. Þar má nefna t.d. stofnun eins og Háskólann á Hólum sem hefur í rauninni aldrei fengið fjárveitingar miðað við það verkefni sem honum hefur verið falið, þ.e. að vera háskóli. Við getum tekið einstakar heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarstofnanir sem þarf að skoða sérstaklega og sama gildir um einstaka framhaldsskóla.

Fjárlögin eru að mínu mati í réttum farvegi, megináherslur og stefna eru mjög rétt. Það er engin ástæða til annars en horfa fram á veginn og líta þannig á að við komumst út úr þessum erfiðleikum og getum farið að takast á við að þróa samfélagið áfram í jákvæða átt. Það verður verkefni okkar í fjárlaganefndinni og í framhaldi af því er það verkefni Alþingis að ljúka og afgreiða fjárlög sem duga okkur vel til næstu ára.