136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri í sjálfu sér ekki athugasemdir við það sem hv. þingmaður kom fram með og þau sjónarmiði sem þar var um að ræða. Það kann vel að vera og ég er ekki að mótmæla því að það sé höfð ákveðin stjórn á því með hvaða hætti fiskveiðar eru stundaðar í landinu og við erum sammála væntanlega um að hér skuli miðað að því að fiskveiðar séu sjálfbærar í landinu þannig að ekki sé tekið meira af stofninum þannig að við eyðum ekki eða göngum ekki of nærri þeirri auðlind sem við höfum. Spurningin er bara hins vegar hvernig þetta verður gert.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að verið sé að fara allt of varlega hvað þetta varðar af hálfu Hafrannsóknastofnunar og í raun þannig farið að að líkur séu til að með auknum þorskveiðum til dæmis mundi meiri afrakstur fást af fiskimiðunum, þ.e. að þarna sé um náttúrulegan dauða að ræða sem mundi draga úr ef fiskveiðar væru auknar þannig að að mínu viti mætti að skaðlausu gera það en samt sem áður yrði að gæta þess að hafa það í huga að ganga ekki of nærri fiskimiðunum.