136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[16:58]
Horfa

Kristrún Heimisdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst talsvert vel með umræðum og yfirlýsingum stjórnvalda um málið. Ég tel að aldrei hafi komið fram í þeim yfirlýsingum að menn ætli ekki að breyta neinu. Þvert á móti tel ég ljóst og liggja fyrir af svari ríkisstjórnarinnar til mannréttindanefndarinnar að menn ætli að setja af stað slíka vinnu.

Ég minni jafnframt á og vísaði í fyrri ræðu minni til sögu breytinga í mannréttindaátt á íslensku réttarkerfi sem átt hafa sér stað síðustu áratugi. Breytingarnar hafa aldrei orðið á einni nóttu. Málið er í ákveðnu ferli sem tekur kannski mánuði, jafnvel ár, en það er líka það sem skilar árangri.