136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

almenn hegningarlög.

33. mál
[11:14]
Horfa

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga er m.a. varða upptöku eigna, hryðjuverk, mansal og peningaþvætti. Er um að ræða endurskoðun umræddra ákvæða vegna alþjóðlegra skuldbindinga, annars vegna fullgildingar samnings um alþjóðlega brotastarfsemi og hins vegar vegna tilmæla frá alþjóðlegum nefndum sem Ísland á aðild að.

Helstu efnisákvæði frumvarpsins eru í fyrsta lagi þau að lagt er til að lögfestur verði nýr kafli um upptöku eigna, samanber 2. gr. frumvarpsins. Um er að ræða heildstæðar breytingar sem taka að verulegu leyti mið af gildandi ákvæðum í dönsku og norsku hegningarlögunum. Lagt er til að lögfest verði ákvæði samanber c-lið 2. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir því að unnt verði að gera upptæk verðmæti án þess að sýnt sé fram á að þau megi rekja til tiltekins refsiverðs brots hafi viðkomandi gerst sekur um brot sem er til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og geti brotið varðað a.m.k. 6 ára fangelsi. Að þessum skilyrðum uppfylltum megi gera upptæk verðmæti sem tilheyra viðkomandi nema hann sýni fram á að þeirra hafi verið aflað með lögmætum hætti. Við þessar aðstæður og að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum megi jafnframt gera upptæk verðmæti sem tilheyra maka eða sambúðarmaka viðkomandi og verðmæti sem runnið hafa til lögaðila sem viðkomandi hefur einn eða með sínum nánustu ráðandi stöðu í sé ekki sýnt fram á að þeirra hafi verið aflað með lögmætum hætti. Er því gert ráð fyrir fráviki frá meginreglunni um sönnunarbyrði ákæruvaldsins við þessar aðstæður.

Dæmi um slík tilvik sem falla undir þessa grein er þegar maður hefur gerst uppvís að meiri háttar fíkniefnainnflutningi. Við rannsókn málsins verður lögregla þess áskynja að brotamaður á verulegar eignir. Í slíkum tilvikum gæti brotamaður þurft að sýna fram á að eignirnar hafi ekki verið fengnar með ólöglegum ágóða. Mikilvægt er að árétta að endanlegt mat á þessu er í höndum dómstóla og ættu því hagsmunir sakbornings að vera nægjanlega tryggðir. Í IV. kafla frumvarpsins og í sérstökum athugasemdum við c-lið 2. gr. er fjallað ítarlega um þessa tillögu.

Í öðru lagi er lagt til að gerðar verði ákveðnar breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga um hryðjuverk, samanber 3.–5. gr. frumvarpsins. Verknaðarlýsing hryðjuverka í 1. mgr. 100. gr. a er gerð skýrari og jafnframt er gert ljóst að hvers konar fjármögnun hryðjuverka eða annað liðsinni við slíka brotastarfsemi telst refsiverð. Þá er lögfest sérstakt ákvæði sem bannar opinbera hvatningu til hryðjuverka.

Þá er í þriðja lagi lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði um skipulagða brotastarfsemi, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Í V. kafla greinargerðarinnar með frumvarpinu er ítarlega fjallað um þær réttarpólitísku röksemdir sem liggja til grundvallar þessari tillögu og því nánar lýst í sérstökum athugasemdum við greinina.

Í fjórða lagi er lagt til að gerðar verði ýmsar breytingar á 227. gr. a almennra hegningarlaga um mansal, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Skilgreining á mansalsbroti er gerð skýrari og í samræmi við Evrópuráðssamning um aðgerðir gegn mansali og bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um fjölþjóðlega skipulagða brotastarfsemi, svokallaða Palermó-bókun. Þá bætist við ný málsgrein sem lýsir refsinæmi athafna sem tengjast ferða- og persónuskilríkjum.

Loks er í fimmta lagi lagt til að gerðar verði verulegar breytingar á 264. gr. almennra hegningarlaga um peningaþvætti, sbr. 8. gr. frumvarpsins. Er m.a. lagt til að almenn verknaðarlýsing peningaþvættis verði gerð skýrari og gildissvið hennar rýmkað. Þá er refsihámark fyrir peningaþvættisbrot hækkað úr fjórum árum í sex. Það skal tekið fram að ekki er hróflað við reglu 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga þar sem kveðið er á um að refsing geti orðið allt að tólf árum ef um ræðir ávinning af fíkniefnabroti.

Virðulegi forseti. Ég fer hér yfir greinar frumvarpsins með þessum hætti til þess að árétta mikilvægi frumvarpsins en ég veit að málið var tekið til gaumgæfilegrar athugunar í hv. allsherjarnefnd á síðasta þingi og nefndin afgreiddi það samhljóða frá sér en því miður tókst ekki að fá það samþykkt á síðasta þingi. Ég tel mjög mikilvægt að þetta frumvarp verði að lögum og raunar er mér óskiljanlegt að menn leggi stein í götu frumvarpsins með því að flytja við það breytingartillögur sem eru allt annars eðlis en um er að ræða í frumvarpinu sjálfu. Raunar dreg ég í efa að staðið hafi verið þinglega að þeim málum án þess að ég ætli að fara að rekja það sérstaklega hér. Hér er um að ræða mjög mikilvægt mál þegar litið er til þeirrar þróunar sem því miður hefur orðið í afbrotastarfsemi hér á landi og mikilvægt að veita þær heimildir til upptöku eigna m.a. sem frumvarpið gerir ráð fyrir og raunar óskiljanlegt fyrir mig að menn skuli ekki hafa skilning á því að þetta frumvarp fái hér skjóta meðferð í þinginu og nái fram að ganga.

Ég veit að þeir sem berjast hér gegn fíkniefnabrotum og skipulagðri glæpastarfsemi bundu miklar vonir við að þetta frumvarp næði fram á síðasta þingi og ég segi, virðulegi forseti, að þeirra ábyrgð er mikil sem lögðu stein í götu þess eftir að allsherjarnefnd hafði afgreitt málið frá sér samhljóða, að koma í veg fyrir að frumvarpið yrði samþykkt og gert að lögum hér á síðasta þingi. Það er einkennilegt að heyra þá sem þannig beittu sér, virðulegi forseti, tala síðan um að það þurfi að gera hér ráðstafanir til þess að efla löggæslu og auka hana og stuðla að því að lögreglumenn geti sinnt störfum sínum á markvissari hátt en áður. Þetta frumvarp stuðlar einmitt að því að gera lögreglunni kleift að vinna sín störf með markvissari hætti og ná betri árangri í störfum sínum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.