136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

almenn hegningarlög.

33. mál
[11:21]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp hefur áður verið flutt hér eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Hann heldur því fram að steinar hafði verið lagðir í götu frumvarpsins. Við studdum hins vegar frumvarpið með ákveðnum breytingum vegna brýnnar nauðsynjar á vissum hlutum. Mér er það óskiljanlegt af hverju frumvarpið var ekki afgreitt í vor með þeim breytingartillögum sem við gerðum og ég hef ekki fengið skýringu á því.

Með þessu frumvarpi eru lagðar til ýmsar breytingar á almennum hegningarlögum. Það er lagt til að við lögin bætist nýr kafli um upptöku eigna, breytingar á ákvæðum laganna um hryðjuverk, refsiákvæði í skipulagðri brotastarfsemi, breytingar á ákvæðum laganna um peningaþvætti og breytingar á ákvæðum laganna um mansal. Að mati minni hlutans í allsherjarnefnd var talið að of skammt væri gengið varðandi hið síðastnefnda.

Auk þess eru í frumvarpinu ákvæði sem takmarka borgaraleg réttindi, mannréttindi einstaklinga, og slík ákvæði má um margt rekja til hörmulegrar hryðjuverkaárásar í New York 11. september 2001. Sumir halda því fram að tilgangur þeirra hryðjuverka hafi verið að ráðast á grunngildi vestrænnar menningar og annarra menningarheima og viðbrögð Bandaríkjanna og ýmissa Evrópuríkja bera þess merki og líkt og sjá má í ákvæðum frumvarpsins virðist þessum hryðjuverkamönnum hafa orðið nokkuð ágengt.

Það er grundvallarskoðun mín að við eigum ekki að takmarka mannréttindi okkar og önnur grunngildi nema þörfin fyrir slíkt sé brýn og skilgreind. Við eigum að viðhalda menningu okkar, mannréttindum og lýðræði og styrkja þau fremur en að guggna fyrir hryðjuverkum. Ég vil taka það sérstaklega hér fram að meint hryðjuverkaógn á Íslandi hefur ekki verið skilgreind og það liggur ekki fyrir skýrt ákveðið hættumat í þeim efnum. Að svo stöddu, með þann formála segi ég að það sé ótímabært að innleiða hert ákvæði — ég segi hert ákvæði — í hegningarlög um hryðjuverk, fjármögnun þeirra og hvatningu til svonefndra hryðjuverka sem frumvarpið skilgreinir ekki.

Við höfðum líka fram að færa athugasemdir við það að ýmis ákvæði frumvarpsins væru matskennd og óskilgreind og bentum m.a. á a-lið 3. gr. og 4. gr. frumvarpsins. Við töldum að þessi ákvæði fullnægðu ekki skilyrðum um skýrleika refsiheimilda.

Hér á landi eru hryðjuverk óþekkt, áhættan er hverfandi lítil og reyndar sýna tölur það afar glöggt, hæstv. dómsmálaráðherra, að Evrópubúum stafar fyrst og fremst hætta af viðvarandi kynbundnu ofbeldi, heimilisofbeldi, sem því miður vex miðað við tölulegar staðreyndir á krepputímum eins og við búum við í dag. Okkur stafar líka miklu meiri hætta af umferðinni, óheilbrigðum lífsháttum, mengun og eiginlega flestu öðru en hryðjuverkum hér á landi. Þá spyr maður sig: Á ekki að forgangsraða í þau verkefni þar sem hættan er mest?

Okkur Íslendingum stafar líka hætta á misbeitingu bresku ríkisstjórnarinnar á hliðstæðum ákvæðum laga sem frumvarpið mælir fyrir. Sorglegar aðgerðir og fordæmanlegar aðgerðir bresku ríkisstjórnarinnar gegn okkur byggja á löggjöf sem sett var gegn þessari meintu hryðjuverkaógn. Töluleg gögn um hættu og tjón af hryðjuverkum í Evrópu eru fátækleg og staðfesta ekki þá ógn sem frumvarpinu er ætlað að bregðast við, réttlæta það ekki að takmarka borgaraleg mannréttindi einstaklinga. Lýðræði og frelsi kosta fórnir sem við færum frekar en að farga þeim fyrir meintri hryðjuverkaógn byggðri á hinni hörmulegu árás sem ég minntist hér á áðan og á sér vart hliðstæðu í mannkynssögunni. Ég ítreka að meintri hryðjuverkaógn verður best svarað með því að styrkja lýðræði, mannréttindi og einstaklingsfrelsi borgaranna.

Ég vil taka það fram og benda sérstaklega á að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum ekki ein um þessar áhyggjur af mannréttindum. Í mars 2005 lýstu sérfræðingar mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem fylgist með framfylgd alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, áhyggjum sínum af skilgreiningu íslenskra hegningarlaga á hryðjuverkum sem finna má í 100 gr. a í almennum hegningarlögum. Mannréttindanefndin telur að í ákvæðinu sé að finna óljósa og víðtæka skilgreiningu á hryðjuverkum sem gæti náð til lögmæts athæfis í lýðræðisþjóðfélagi og stefnt því í hættu. Nefndin mæltist til þess að Ísland móti og taki upp nákvæmari skilgreiningu á hryðjuverkum. Undir þessi tilmæli tók Íslandsdeild Amnesty International og Mannréttindaskrifstofa Íslands í umsögnum sínum. Ég vil líka benda á það hér í framhjáhlaupi að það fer illa á því lagatæknilega að lögfesta alþjóðasamninga með tilvísun til þeirra án þess að taka þá heildstætt upp sem hluta af lögum.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum að með ákvæðum frumvarpsins um eignaupptöku þar sem sönnunarbyrði sé að hluta snúið við sé gengið býsna langt í skerðingu á mannréttindum en við viðurkennum jafnframt þá brýnu þörf, hæstv. dómsmálaráðherra, sem er fyrir hendi þegar fíkniefnabrot eru annars vegar og peningaþvætti og fyrir því er einnig dómur Mannréttindadómstóls Evrópu frá 5. júlí 2001. En í því samhengi viljum við vísa til umsagnar Persónuverndar, sem gerði athugasemd við 2. gr. frumvarpsins og taldi ekki unnt að fullyrða að það mundi samrýmast mannréttindasáttmála Evrópu að lögfesta ákvæðið í c-lið 2. gr. óbreytt.

Stofnunin hvatti til þess að við vinnslu frumvarpsins yrði eftirfarandi haft í huga: Í fyrsta lagi hvaða afbrot séu það alvarleg og það brýnir þjóðfélagshagsmunir að barist sé gegn að rétt sé að lögfesta slíkar heimildir. Í öðru lagi hvort raunveruleg þörf sé á að láta heimild til eignaupptöku ná til eigna maka og sambúðarmaka. Í þriðja lagi hvort ekki sé nauðsynlegt að mæla fyrir um það með skýrari hætti hvernig tryggt skuli að réttinda sakbornings og eftir atvikum annarra sé gætt við eignaupptökuna.

Ég vil líka vekja sérstaka athygli á því varðandi fíkniefnabölið að það mætti stórefla samstarf lögreglu, tollgæslu og skattyfirvalda, það þarf að stórefla hana til að unnt sé að uppræta fíkniefnabölið. Við teljum það vera ágalla á frumvarpinu að ekki séu lagðar til fullnægjandi lagabreytingar til að unnt sé að fullgilda Evrópuráðssamninginn um aðgerðir gegn mansali. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að efni hans kunni að kalla á aðrar lagabreytingar. Það hefði þurft að huga að því við samningu frumvarpsins og koma fram með þær breytingar.

Það er líka ágalli á frumvarpinu að þar er vændi ekki skilgreint. Það má tína fleira til, t.d. það sem kemur fram í umsögnum Mannréttindaskrifstofu Íslands og Amnesty International. Í áliti sínu lagði Íslandsdeild Amnesty International m.a. ríka áherslu á að Ísland fullgildi Palermó-samninginn í heild sinni og að íslensk stjórnvöld geri lagabreytingar sem fyrst til að uppfylla kröfur samningsins en þær lúta einkum að beinni aðstoð, vernd og stuðningi við þolendur mansals. Í því samhengi er brýnt að fest verði í lög ákvæði um vernd fórnarlamba, vitnavernd, fyrirbyggjandi aðgerðir og skaðabætur, og búið svo um hnútana að þolendur mansals geti óttalaust leitað stuðnings yfirvalda án þess að eiga á hættu að lenda í aðstæðum sem eru jafnslæmar eða verri en þær sem þeir eru í fyrir. Í sama streng tekur Mannréttindaskrifstofa Íslands.

Mannréttindaskrifstofan hvatti líka til þess að vændisákvæði almennu hegningarlaganna yrði útvíkkað í takt við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum og Evrópuráðsamningurinn um aðgerðir gegn mansali kveður á um. Í því felst að í ákvæðinu verði talað um kynferðisbrot og vændi sérstaklega auk annarrar kynferðislegrar misnotkunar. Allt eru þetta rökstuddar ábendingar til að gera frumvarpið betra.

Mannréttindaskrifstofan benti líka á um aðgerðir gegn mansali að það hefði verið unnin gríðarleg vinna í frjálsum félagasamtökum við mótun tillagna til að taka á vændi og mansali og það er nauðsynlegt að löggjafarvaldið nýti sér þá miklu þekkingu sem þar er að finna við lagasmíð þessa. Það þarf að tryggja aðstoð, vernd og stuðning við þolendur mansals og innleiða ákvæði um vitnavernd, fyrirbyggjandi aðgerðir og skaðabætur. Hin knappa innleiðing samkvæmt 7. gr. frumvarpsins fullnægir ekki þeim skuldbindingum sem við eigum að axla samkvæmt nefndum alþjóðasamningum. Og það hafa ekki komið fram skýringar, frú forseti, á af hverju þær eru ekki innleiddar að fullu með frumvarpinu.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð mun leggja til fulla innleiðingu og jafnframt brottfall ákveðinna greina í frumvarpinu, samanber nefndarálit okkar frá í vor, í því skyni að þetta frumvarp verði betra og virkara en það er í núverandi mynd. Við munum leggja til aðrar breytingar sem ég ætla ekki að gera að umtalsefni hér en við munum jafnframt leggja til breytingar sem varða nauðgunarákvæði hegningarlaganna, 194. gr., og það er vegna þess að ofbeldi gegn konum er viðvarandi og þeim stendur stöðug ógn af því og af heimilisofbeldi. Það er brýnna að taka á því en meintri hryðjuverkaógn. Við leggjum til að það segi beinlínis í 194. gr. að hver sem gerist sekur um nauðgun skuli sæta fangelsi ekki skemur en tvö ár en allt að 16 árum. Í gildandi lagaákvæði er lögð megináhersla á verknaðaraðferð, líkamlegt ofbeldi, líkamlega áverka og hótanir. Sú áhersla hefur endurspeglast í rannsóknum nauðgunarmála.

Hins vegar er það svo að aukin þekking á afleiðingum nauðgana hefur fært okkur vitneskju um að andlegir áverkar eru alvarlegustu afleiðingar nauðgana og það er nauðsynlegt að lögin endurspegli þekkingu á málum sem snerta kynbundið ofbeldi. Það verður að meta ofbeldið heildstætt en ekki út frá einberri verknaðaraðferð, rétt eins og gert er (Gripið fram í.) í ákvæðum hegningarlaga um manndráp og líkamsmeiðingar. Nauðgun er ekkert annað en líkamsmeiðing og dráp á sálarlífi kvenna. Í þessu samhengi skiptir ekki máli hvernig maður drepur eða meiðir mann heldur er horft til afleiðinganna, það er grundvallaratriði. Hið sama á að gilda um nauðgunarákvæði. Breytt orðalag nauðgunarákvæðisins samrýmist best ákvæðum stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífsins.

Síðari viðbótin sem við leggjum til varðar vændisgrein almennra hegningarlaga. Enn ítreka ég það að þarna er mest hætta búin kvenfólki, vændi, mansal og öll sú gróðrarstía ofbeldis og misbeitingar sem þar býr. Við leggjum til að gagnvart umræddum hryðjuverkum gegn konum, þ.e. nauðgunum, heimilisofbeldi, vændi og mansali, verði gripið af festu og hörku. Við munum leggja til að farin verði hin svonefnda sænska leið í þeim efnum.

Við munum líka leggja til breytingar við 7. gr. frumvarpsins, þ.e. að tekin verði upp í almenn hegningarlög skilgreining mansals, upp úr viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir til að sporna við skipulagðri fjölþjóðlegri glæpastarfsemi, ekki síst sölu kvenna og barna.

Frekari breytingar munum við enn fremur hugleiða varðandi fórnarlambavernd o.fl. sem ég ætla ekki að gera að umtalsefni hér og nú, en með þessum breytingum sem við leggjum til getum við stutt frumvarpið en ekki lagt stein í götu þess. Það er ábyrg afstaða að koma fram með rökstuddar breytingartillögur, það er hlutverk þingmanna. Það verður með öllum tiltækum ráðum að uppræta kynbundið ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Þar er ógnin og gegn þeim kynbundnu hryðjuverkum er brýnt að berjast af fullri hörku. Á því sviði, frú forseti, liggur fyrir skýr og skilgreind þörf. Hættan er augljós og ógnin viðvarandi ef ekkert er að gert.

Hið sama verður ekki sagt um þá meintu hryðjuverkaógn sem frumvarpinu er ætlað að taka á. Hún er ekki skilgreind og hættumat liggur ekki fyrir.