136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[16:20]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Aðalatriði málsins og aðalatriðin í ræðu minni voru þau að við þær aðstæður sem nú eru í íslensku samfélagi verðum við að leyfa okkur að hugsa upp á nýtt í öllu tilliti. Í stuttri ræðu hér áðan gerði ég fyrst og fremst heimilin í landinu, fjölskyldurnar, að umtalsefni en að sjálfsögðu skipta fyrirtækin ekki síður máli. Fyrirtækin skipta jafnvel meira máli ef út í það er farið því að það eru jú þau sem sjá fjölskyldunum fyrir atvinnu.

Hv. þingmaður talaði um jafnræði í sambandi við þá hugmynd að færa niður lán og að sjálfsögðu á það við um alla, líka þá sem standa í skilum. Þetta er ákvörðun sem samfélag okkar þarf að taka. Slíkar ákvarðanir eru þekktar erlendis þar sem menn hafa lent í sams konar hremmingum.

Varðandi sjávarútegsmálin og stefnuna þar get ég endurtekið það sem ég sagði hér áðan: Við verðum að leyfa okkur að hugsa upp á nýtt gömlu aðferðirnar og gömlu vinnubrögðin sem við höfum notað allt of lengi í sjávarútveginum og í öðrum málum á undanförnum áratug. Við verðum að stokka spilin upp á nýtt og gefa upp á nýtt og sjávarútvegsmálin eru ekki undanskilin.