136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[17:15]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í dag höfum við rætt það alvarlega efnahagslega vandamál sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir í kjölfar alþjóðlegrar efnahagskreppu og umsóknar Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lánveitingu. Umræðan hefur verið góð. Atburðarásin einkenndist af miklum hraða fyrstu dagana eftir að neyðarlögin voru sett, þann 6. október. Nú stendur þjóðin frammi fyrir erfiðum tímum og gríðarlega miklum breytingum á samfélaginu. Stór hópur bankastarfsmanna hefur misst atvinnuna og við horfum fram á enn frekari uppsagnir í öðrum starfsgreinum. Þessa dagana fá starfsmenn í byggingariðnaði, verktakaiðnaði og ýmsum þjónustugreinum uppsagnarbréf. Erfitt verður fyrir þjóðina að vinna sig út úr vandanum á farsælan hátt en það mun okkur takast með samstilltu átaki.

Vegna þrenginganna fram undan mun reyna mikið á sveitarfélögin í landinu. Með auknu atvinnuleysi munu tekjur þeirra dragast verulega saman á sama tíma og líklegt er að þörfin fyrir aukna velferðarþjónustu sveitarfélaganna aukist. Nú þegar hefur verið undirrituð yfirlýsing stjórnar Sambands sveitarfélaga og ráðherra sveitarstjórnarmála þar sem sveitarfélögin eru hvött til að endurskoða fjárhagsáætlanir sínar í því skyni að forgangsraða upp á nýtt, hagræða í rekstri og fresta þeim framkvæmdum sem mögulegt er. Sveitarfélög eru oft stærsti vinnuveitandinn á svæði sínu og um leið stórir framkvæmdaaðilar og verkkaupar og verða að vera það áfram, þótt augljóslega hægi töluvert á framkvæmdum á þeirra vegum. Jafnframt eru sveitarfélög hvött til að gera aðgerðaáætlanir þar sem forgangsröðun verkefna miðar að því að treysta stoðir grunnþjónustu. Mörg sveitarfélög hafa lagt mikla vinnu í aðgerðaáætlanir og gert þær aðgengilegar fyrir íbúa á heimasíðum sínum.

Sveitarfélög í landinu eru mörg hver veikburða þegar kemur að auknum útgjöldum. Mörg þeirra voru skuldsett fyrir hrun fjármálakerfisins og í efnahagsóvissunni sem ríkir dragast framkvæmdir saman og fjölskyldur í húsbyggingarhugleiðingum halda að sér höndum og skila jafnvel úthlutuðum lóðum. Allt þetta bætist ofan á annan vanda sveitarfélaganna, en í mörgum þeirra hefur verið lagt í verulegan kostnað við skipulag nýrra íbúðahverfa og gatnagerð. Sveitarfélögin munu taka á sig auknar byrðar og taka þátt í að verja störf auk þess sem félagsþjónusta sveitarfélaganna mun grípa inn í og aðstoða fjölskyldur sem þess þurfa.

Því er mikilvægt við þessar aðstæður að ríkið komi til móts við sveitarfélögin og endurskoðað verði í fjárlagavinnunni sem nú er í gangi að ríkið komi með aukaframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. En samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem hefur verið kynnt er ekki gert ráð fyrir þessu aukaframlagi. Sveitarstjórnarmenn um allt land kalla mjög skýrt eftir því að ríkið greiði áfram það aukaframlag sem það greiddi í sjóðinn 2006–2008 vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í samfélaginu í dag.

Þótt ég tali fyrir aukinni aðstoð ríkissjóðs við sveitarfélögin er mér ljóst að gæta þarf fyllsta aðhalds í ríkisfjármálum og að niðurskurðar er þörf, en það verður verkefni fjárlaganefndar á næstu vikum. Í dag hafa margar ágætar tillögur um niðurskurð í ríkisfjármálum komið fram í ræðum hv. þingmanna og ber að skoða þær.

Virðulegi forseti. Unga fólkið í landinu stendur frammi fyrir miklum erfiðleikum, sennilega í fyrsta sinn á lífsleiðinni. Kynslóð sem hefur verið alin upp við stöðugleika í efnahagsmálum. Þetta unga fólk horfir nú fram á hugsanlegt atvinnuleysi og gjörbreyttan veruleika auk þess sem skuldir leggjast þungt á þennan aldurshóp. Við eigum mikið af vel menntuðu ungu fólki og margt af því hefur á undanförnum árum unnið í alþjóðlegu umhverfi. Þetta fólk stendur nú margt uppi án atvinnu og vonast eftir nýjum tækifærum hér á landi. Það þarf að bregðast skjótt við og hefja nýja sókn í atvinnulífinu m.a. til að halda í þetta unga fólk og þann auð sem í því býr.

Með einhverjum ráðum þarf að koma í veg fyrir að við missum efnilegasta fólk okkar úr landi. Við erum fámenn þjóð og þurfum á öllum kröftum að halda í uppbyggingunni sem fram undan er. Íslensk þjóð býr við mjög gott menntakerfi, sem hefur verið í stöðugri uppbyggingu á síðustu árum. Sú uppbygging mun verða okkur til góðs, nú þegar búast má við að ásókn í menntun verði meiri en áður í ljósi efnahagskreppunnar og aukins atvinnuleysis.

Þegar 700 manns misstu atvinnuna á varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll fyrir tveimur árum vegna brotthvarfs bandaríska varnarliðsins hófst umbreyting úr varnarstöð í vísindasamfélag. Þar er skólasamfélag þróað í góðu samstarfi við háskóla, ríki og nokkur fyrirtæki á svæðinu. Húsnæði er til staðar, bæði til vinnu og gistingar. Þar er þegar til vísir að hugmyndasamfélagi eða hugmyndahúsi sem kallað er Eldey. Hugmyndina er hægt að stækka, styrkja og stórefla. Að slíkri frumkvöðlastarfsemi er nú nauðsynlegt að hlúa að og efla því í nýsköpun felast tækifæri til framtíðar.

Virðulegi forseti. Fólkið í landinu kallar eftir svörum um það hvernig framtíðin verði hér á landi nú þegar almenningur áttar sig á raunveruleikanum sem blasir við okkur og afleiðingum alþjóðakreppunnar í kringum okkur. Fólk kallar eftir því við stjórnvöld hvað fram undan er og spyr hversu lengi varir muni vara og hvenær vænta megi stöðugleika á ný. Slík viðbrögð eru eðlileg. Samt má ekki draga upp þá mynd af samfélagi okkar að við séum að hverfa aftur til fortíðar. Öll þekking sem hefur safnast á undanförnum árum mun nýtast okkur áfram í framtíðinni.

Þjóðir heims eiga vonandi aldrei eftir að standa aftur frammi fyrir slíkum erfiðleikum í efnahagsmálum eins og við gerum nú. Þess vegna er mikilvægt að við skoðum mjög vandlega allt þetta mál og lærum af mistökunum sem hugsanlega hafa verið gerð, eins og fram hefur komið hjá hæstv. forsætisráðherra að gert verði. Auk þess hefur hæstv. dómsmálaráðherra sagt að unnið sé að löggjöf um stofnun sérstaks embættis sem ætlað er að sjá um rannsóknir og eftir atvikum saksókn vegna þeirra réttarbrota sem kunna að koma í ljós í tengslum við atburði sem orðið hafa í starfsemi fjármálastofnana.

Í ljósi stöðunnar sem skapaðist í efnahagsmálum hérlendis var nauðsynlegt að leita eftir aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og í framhaldi ræða við Norðurlöndin. Færeyingar sýna okkur mikinn höfðingsskap og vináttu með því að rétta fram hjálparhönd og það ber að þakka. En mörg brýn verkefni bíða okkar við endurreisn hagkerfisins. Til að við náum sem fyrst tökum á ástandinu, sem ríkir hér á landi í efnahagsmálum, þurfum við að ganga saman í eina átt og skapa grundvöll til þess að atvinnulíf okkar fari að starfa eðlilega að nýju. Við þurfum að ná okkur sem fyrst upp úr þessum öldudal og læra af reynslunni. Þannig mun okkur farnast vel í framtíðinni.