136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Það fer fram skemmtileg keppni þessa dagana. Ég varaði við, ég benti á, ég sá þetta fyrir; einhvern veginn þannig hljóma upphrópanirnar í þeirri keppni þar sem hver maðurinn keppir við annan um að hafa séð það fyrir sem nú hefur skollið á Íslandi og í heiminum — en það sá enginn fyrir.

Víst höfum við öll sem fjöllum um þjóðmálaumræðu haft uppi varnaðarorð sem með einhverjum hætti kunna að eiga við í dag. Svo grafalvarleg er staðan, ekki bara hér heldur um heim allan, að enginn sá það fyrir. Um leið og við horfumst í augu við það að staðan er grafalvarleg verðum við samt að muna að ólíku er saman að jafna við þá erfiðleika sem íslensk þjóð hefur fyrr gengið í gegnum. Við erum auðug þjóð, við búum að miklum verðmætum og þeir erfiðleikar sem við þurfum nú að fást við eru auðvitað sem hjóm eitt hjá því sem fyrri kynslóðir á Íslandi hafa þurft að takast á við. Við getum bein í baki tekist á við þetta og eigum að vera bjartsýn í þeirri glímu.

Við eigum líka að muna að þessi viðfangsefni eru ekki bundin við Ísland og ekki daginn í dag. Viðfangsefni okkar eru viðfangsefni mannsins frá því að sögur hófust. Ætli Aristóteles hafi ekki verið fyrstur til þess að vara við þeim á prenti þegar hann greindi svo gáfulega breyskleika mannsins og benti svo skemmtilega á kosti peninganna en jafnframt þá galla þeirra að fé safnast upp og dautt fé ber vexti. Í þessum atriðum felast helstu viðfangsefni fjármálalífsins í heiminum í dag.

Fyrst minnst er á ritlistina getum við líka kveikt á BBC í útvarpinu og hlustað á upplestur úr The Great Gatsby sem lýsir óhófslífinu í Bandaríkjunum á þriðja áratug síðustu aldar sem lauk með heimskreppunni miklu og minnir auðvitað um margt á síðustu árin hér á Íslandi, þensluna og neyslufylliríið sem við höfum verið á. Við eigum að leita í þessa reynslu sögunnar og veraldarinnar að þeim lyklum að farsæld sem hún geymir, að gömlum og góðum dyggðum og málsháttum eins og „dramb er falli næst“ og „sígandi lukka er best“.

Hvað hefur gerst? Fyrst og fremst ákváðu Vesturlönd í hroka sínum fyrir 25 árum síðan, á tíma Thatcher og Reagans, að við Vesturlandabúar værum svo klár að við gætum leyft okkur að lifa um efni fram og gætum einhvern tímann í framtíðinni af gáfum okkar greitt þær skuldir sem við söfnuðum í dag. Þessi hroki gat náttúrlega ekki gengið endalaust. Skoði menn viðskiptahalla á Vesturlöndum síðustu 50 árin hófst hann fyrir 25 árum — á þessum tíma — og ég hygg að nú sé honum að ljúka. Einmitt nú þurfum við Vesturlandabúar að horfast í augu við að við getum ekki leyft okkur að lifa um efni fram og þessu hlaut að ljúka. Við þurfum að endurskoða lífshætti okkar með það að leiðarljósi að við þurfum að eiga fyrir því sem við gerum.

Hér á Íslandi, þegar rykið sest, sagan verður skrifuð og persónurnar sem við erum nú svo upptekin af hverfa í skuggann, munu menn benda á að árið 1994 hafi Íslendingar, eins og stundum áður í alþjóðasamskiptum, viljað fá allt fyrir ekkert. Við gerðum samning um að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, verða virkir þátttakendur á 400 milljóna manna markaði, en við vildum ekki taka þátt í Evrópusambandinu. Við ætluðum nefnilega að fá allt fyrir ekkert og töluðum þannig. Við ætluðum að maka krókinn á markaðnum og í viðskiptum þar en vildum ekki eiga aðild að myntinni, ekki eiga aðild að Evrópska seðlabankanum, ekki að skrifræðinu, þinginu eða framkvæmdarvaldinu yfir þessum markaði. Við héldum í barnaskap okkar að þannig gætum við fengið allt fyrir ekkert og komist undan þessu leiðinlega og kostnaðarsama, skrifræðinu í Brussel, öllum flóknu reglunum, stofnununum og öllu þessu þunglamalega sem litla eyþjóðin vildi vera laus við þegar við værum að græða á markaðnum og nýta sveigjanleika okkar, eins og við kölluðum það. Barnaskap vegna þess að staðreyndin er auðvitað sú að með reglulegu millibili bresta markaðir og þess vegna, og af því að kreppur koma líka með reglulegu millibili, hefur maður stofnanir yfir markaði. Maður hefur myntbandalög og skrifræði á markaði og yfir markaði sameiginlegan pólitískan vettvang og sameiginlegt pólitískt framkvæmdarvald. Mistök okkar voru þau að við gerðumst ekki aðilar að öllum þessum þáttum sem voru nauðsynlegir til þess að geta með farsælum hætti starfað á þessum markaði yfir lengri tíma.

Þegar stormurinn skall á 14 árum síðar og kreppan í heiminum byrjaði hrundum við eins og spilaborg vegna þess að við vorum laus undan skrifræðinu og hinu pólitíska samstarfi, höfðum ekki Evrópska seðlabankann og enga bandamenn til að vinna með í þeim erfiðleikum sem að markaðnum steðjuðu. Írar hafa bent á að ef þeir hefðu ekki verið svo heppnir að vera hluti af þessu samfélagi — hluti af þessum viðbrögðum — hefðu þeir verið einangraðir. Þá hefði farið nákvæmlega eins fyrir þeim og hinni eyjunni úti fyrir meginlandi Evrópu, Íslandi.

Af þessu þurfum við að læra. Við þurfum einfaldlega að læra að ef við ætlum að vera hluti af hinum evrópska 400 milljóna manna markaði þurfum við að vera hluti af samfélagsstofnunum þess. Enda er það í raun og veru ósiðleg hugmynd að vilja græða á markaði en vera ekki tilbúinn til þess að taka þátt í því félagslega samstarfi sem fram fer á og yfir þeim markaði. Ég held að við þurfum kannski ekki síst á næstu mánuðum og missirum að gæta að sóma okkar og reisn og leitast við að vera fullgildir og virkir þátttakendur en ekki reyna í sífellu að fá allt fyrir ekki neitt.

Hvers vegna vildu menn ekki gerast aðilar að skrifræðinu í Brussel? Það er dálítið hjákátlegt að hugsa til þess núna. Menn sögðu að þá værum við að afsala okkur sjálfstæði okkar. Eins og Svíþjóð, Danmörk eða önnur aðildarríki Evrópusambandsins séu ekki sjálfstæð ríki? Hvar standa einangrunarsinnarnir eftir að hafa haldið þessu fram hér árum saman? Jú, þeir liggja grátandi á tröppum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og biðja um neyðaraðstoð. Við gerum út sendinefndir austur til Moskvu til þess að biðja um lán, förum land úr landi til þess að leita eftir aðstoð, skömmtum gjaldeyri og höfum djúpstæðar og verulegar áhyggjur af framtíðinni. Hvar er nú sjálfstæðið? Ætli okkur væri ekki sæmra að vera sjálfstæðir, virkir þátttakendur í samstarfi fullvalda ríkja í Evrópu eins og í Evrópusambandinu en að vera í stöðu beiningamannsins eins og við hljótum að þurfa að horfast í augu við að við erum nú.

Jú, virðulegi forseti, ég held að sjálfstæðisrökin um að gerast ekki aðilar að Evrópusambandinu heyri sannarlega sögunni til því að einangrunarstefnan sem menn vildu fylgja gagnvart Evrópusambandinu hefur gert okkur algjörlega ósjálfstæð. Við erum einfaldlega hjálparþurfi og magnvana. Við sjáum núna þegar reynir á að við höfum ekki þau tæki sem þarf til þess að bregðast við áföllum í alþjóðlegum fjármálaviðskiptum og á fjölþjóðlegum markaði eins og hinu Evrópska efnahagssvæði. Ríkisstjórnin hefur ekki þann styrk sem hún þarf að hafa, Seðlabankinn er eins og áhugamaður á þessum harða leikvelli og þar reka hver mistökin önnur. Við leitum og leitum að bandamönnum en finnum fáa og við höfum enga varasjóði til að sækja í. Ef þetta verður ekki stjórnmálaflokkunum á Alþingi tilefni til þess að endurskoða afstöðu sína (Forseti hringir.) til Evrópusambandsins, eins og það hefur orðið þjóðinni tilefni til þess að endurskoða afstöðu sína, þá held ég að við (Forseti hringir.) í þessum sal þurfum að hugsa verulega okkar gang.