136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[19:41]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veitti ræðu hv. þm. Karls V. Matthíassonar athygli. Hann fór nokkrum orðum um mikilvægustu atvinnugrein okkar til áratuga, sjávarútveginn, og lýsti áhuga sínum á því að við sinntum fiskeldi betur m.a. þorskeldi. Ég er þingmaðurinn sem fór með hv. þm. Karli V. Matthíassyni til Vestfjarða og við kynntum okkur þorskeldi þar. Það var mjög áhugavert og ég er sannfærður um að við eigum að halda því áfram. Eldi og kynbætur eru langtímaverkefni og það þurfum við að hafa í huga.

Í dag hafa margar ræður verið haldnar og menn talað um aðild að Evrópusambandinu og verið bæði með og á móti. Sumir hafa viljað kanna möguleikana. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann hvert álit hans er á hugsanlegri Evrópusambandsaðild, með tilliti til sjávarútvegsins, atvinnugreinar sem honum er mjög hugleikið um.