136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

norrænn markaður fyrir heilbrigðisþjónustu.

[10:44]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður virðist hafa sérstaka ánægju af því að snúa út úr alveg eins og þingmaðurinn sem tók til máls út af þessu á þingi Norðurlandaráðs gerði. Það er ekki niðurlægjandi fyrir forsætisráðherra Íslands eða hvaða stjórnmálamann sem er að sæta gagnrýni frá þingmönnum í Norðurlandaráði sem sitja yst á vinstri vængnum og eru á móti öllum breytingum og framförum til að nýta betur það fjármagn sem lagt er í þá viðamiklu velferðarþjónustu sem tengist heilbrigðismálum.

Við ræddum þessi mál mjög ítarlega á síðasta þingi. Við fórum í gegnum lög um sjúkratryggingar og við vitum alveg hver afstaða hv. þingmanns og hennar flokks er í því máli. En á norrænum markaði í heilbrigðisþjónustu er t.d. verið að tala um samnorrænan lyfjamarkað. Eru menn á móti því? Eru menn á móti því að spara peninga í almannaþjónustunni með því að nýta betur þá kosti sem t.d. sameiginleg innkaup, sameiginleg þjónusta á þessu sviði getur náð fram? Hvað á það eiginlega að þýða að vera að gera stórmál úr því sem er sjálfsagður hlutur, að reyna að fara sem best með almannafé á þessu sviði sem er auðvitað markmiðið með þessu?

Þetta er formennskuáætlun Íslands. Það þarf ekki að leita samþykkis annarra ríkisstjórna fyrir henni og hefur aldrei tíðkast á þessum vettvangi. Spurning þingmannsins á Norðurlandaráðsþinginu var út í hött hvað það varðar hvort ég hefði lagt þetta fyrir aðrar ríkisstjórnir og leitað samþykkis þeirra. Við höfum áhuga á því að vinna saman með Norðurlöndunum að því að finna leiðir til að nota almannafé sem best á þessu sviði. Er þingmaðurinn á móti því? Þýðir það að almenningur á Íslandi fái verri þjónustu en ella? Þýðir það að komin séu einhver ljót og vond markaðs- eða svokölluð græðgisöfl að setja klærnar í sjúklinga á Íslandi? Auðvitað ekki. Það dettur engum lifandi manni í hug. Ég held að þingmaðurinn ætti að lesa betur ræðu mína á þessu þingi og þá áherslu sem ég lagði á velferðarþjónustuna, velferðarkerfið og það sem Norðurlöndin eiga sameiginlegt í þessu máli en vera ekki með útúrsnúninga af þessu tagi (ÖJ: Við höfum heyrt þig tala í Valhöll.) (ÓN: Ert þú oft þar?)

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gefa hljóð.)