136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

viðræður forsætisráðherra við Gordon Brown í apríl.

[13:49]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Í fréttum Morgunblaðsins 1. nóvember var gerð grein fyrir því sem kom fram á vef dagblaðsins The Daily Telegraph , sem þykir hallt undir breska íhaldsflokkinn, og sem tekið var upp í fréttaskýringaþætti Channel 4 í Bretlandi þar sem segir frá því að forsætisráðherra Íslands, hæstv. Geir H. Haarde, hefði aðvarað Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, við því í apríl sl. að íslenska fjármálakerfið stæði frammi fyrir miklum erfiðleikum. Jafnframt var vísað til þess varðandi þennan fund hæstv. forsætisráðherra og forsætisráðherra Breta að Downingstræti 10 í apríl að þeir hafi þar rætt ýmis vandamál í íslenska bankakerfinu. Þar er fullyrt að Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, hafi þá ráðlagt forsætisráðherra Íslands að snúa sér beint til Alþjóðgjaldeyrissjóðsins varðandi aðstoð handa Íslendingum.

Vegna þessara frétta og þess sem þarna kemur fram vil ég í fyrsta lagi spyrja: Er þær staðhæfingar sem hafðar eru uppi í vefriti dagblaðsins The Daily Telegraph og sem komu fram í fréttaskýringaþætti á Channel 4 og hafa verið birtar í Morgunblaðinu , réttar? Það er fyrsta atriðið. Það skiptir gríðarlega miklu máli hvort þarna er farið rétt með sem haldið er fram, að hæstv. forsætisráðherra hafi varað Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, við aðstæðum á Íslandi og hann ráðlagt forsætisráðherra Íslands að leita þá þegar eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Í annan stað, ef þessi frétt á við rök að styðjast er eðlilegt að spurt sé: Á grundvelli hvaða upplýsinga varaði hæstv. forsætisráðherra breska forsætisráðherrann við varðandi fjármálakerfi Íslands?