136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

lán Landsbankans til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

[10:41]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að eftir þeim heimildum sem ég hef frá bankaráði Landsbankans hefur ekki króna verið lánuð þaðan til kaupa á neinum fjölmiðlum (GÁ: ... fyrirtækin voru seld.) og engin fyrirtæki hafa verið seld eftir því sem kemur fram í þeim upplýsingum sem ég hef, engin fyrirtæki hafa verið seld þar. (Gripið fram í.) Nei, nei, eins og við sáum í blöðunum í morgun eru þessi mál ekki frágengin og Landsbankinn hefur ekki lánað krónu þar.

Hvað varðar Kaupþingsmálið og afskriftir á því kom það fram í yfirlýsingum bæði frá gamla Kaupþingi og nýja Kaupþingi að þetta væri gjörningur sem var gerður með bókun í stjórn gamla Kaupþings í lok september. Nýja Kaupþingsstjórnin hefur farið fram á að honum verði rift. Nú er málið rannsakað af Fjármálaeftirliti og menn í efnahagsbrotadeild og annars staðar hafa tjáð sig um það. Það er mjög alvarlegt mál og menn hafa bent á að ef það stenst gæti það verið skattskylt upp á 14–18 milljarða. Þetta er hins vegar mjög líklega riftanlegur gjörningur og óeðlileg eftirgjöf. Rannsókn málsins er í eðlilegum farvegi. Það er ekki okkar að dæma menn og stofnanir úr ræðustóli Alþingis. Það eru galdrabrennur. (Forseti hringir.) Við látum rannsaka málið og síðan kemur í ljós hvernig í því liggur.