136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[13:06]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ef einhver er með gamlar lummur í málflutningi sínum eða frammíköllum hér held ég að það eigi við um hv. þingmann. Ég leyfði mér að rifja upp að við hefðum í upphafi ársins gert samkomulag við aðila vinnumarkaðarins en það er ekki að öllu leyti komið til framkvæmda. Mér þykir leitt ef hv. þingmaður telur að ekki megi rifja þá hluti upp.

Við erum hér að tala um mjög alvarlega hluti. Við göngum í gegnum mjög þungbæra erfiðleika sem eiga eftir að bitna á mörgum. Þá er lágmark að um slík mál sé fjallað á málefnalegan hátt á hinu háa Alþingi. Margir þingmenn hafa auðvitað gert það í dag. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur gert það að hluta til en því miður ekki að öllu leyti því að honum hættir til að missa stjórn á skapi sínu í ræðustólnum eins og við þekkjum. (ÖJ: Það er annað en forsætisráðherrann.)

Ég rakti í nokkrum atriðum aðgerðir sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir núna og snerta beint afkomu og hagsmuni heimilanna sem er umræðuefni þessarar umræðu: Heimildir Íbúðalánasjóðs til að auka svigrúm fyrir þá sem lenda í greiðsluerfiðleikum. Aukin þjónusta Ráðgjafarstofu heimilanna og tilmæli til ríkisbankanna um að frysta tímabundið afborganir og vexti af myntkörfulánum. Frumvarp um að fella tímabundið niður stimpilgjöld af skilmálabreytingum og skuldbreytingalánum. Frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðismál til að lengja skuldbreytingalán og gera fólki kleift að leigja og búa áfram í íbúðum sem það hefur misst. Breytingar á reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna, sem skipta þann hóp gríðarlega miklu máli. Aukið námsframboð í háskólum og framhaldsskólum og samstarf við þá aðila. Menntun og ráðgjöf til fólks á vinnumarkaði, sérstaklega þeirra sem hafa litla menntun að baki til að bregðast við breyttum aðstæðum. Samræmt þjónustunet til að auðvelda fólki aðgang að upplýsingum sem skipta máli við þessar aðstæður. Að lokum má nefna frumvarpið sem rætt verður á eftir um lækkað starfshlutfall og tekjutengdar atvinnuleysisbætur sem skerðast ekki vegna launagreiðslna þegar fólk er í hlutastarfi.

Það eru aðgerðirnar sem búið er að kynna og fleira er í bígerð. Þess vegna hef ég leyft mér að segja það, hæstv. forseti, sem hv. þingmaður tók illa upp, að við værum önnum kafin í ríkisstjórninni. Hann telur að við séum ekki að gera neitt og það litla sem við gerum sé rangt.

Hv. þingmaður talar mikið um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna þess að hann hefur frá fornu fari haft horn í síðu hans af ástæðum sem mér hafa ævinlega verið óskiljanlegar. Við stefnum í samstarf við þann sjóð sem er ekki hingað kominn til þess að leggja stein í götu Íslendinga eða hamla hagþróun og uppbyggingu heldur þvert á móti. Til þess að slík áætlun geti gengið upp þarf að vera samstarf milli aðila um þær aðgerðir sem grípa þarf til og ég fullyrði að langflest af því er þess eðlis að við mundum hafa gripið til þeirra hvort eð var, þ.e. hvort sem við værum í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða ekki.

Hitt er svo annað mál, herra forseti, að komið hafa upp önnur mál í þessu sambandi gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem við sættum okkur ekki við að verði blandað saman við afgreiðsluna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þá er verið að tala um uppgjör vegna hinna svokölluðu Icesave-reikninga og vil ég að eftirfarandi komi fram sem ég hef sagt við fjölmiðla að undanförnu og ítreka hér: Við munum ekki láta kúga okkur í því máli. Við viljum ekki láta þann svarta blett sem þessir Icesave-reikningar eru, verða okkur (Forseti hringir.) til trafala á þessum vettvangi.