136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[16:34]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er hægt að vorkenna hv. þm. Karli V. Matthíassyni þegar hann ber sig upp um þetta lélega stjórnarsamstarf og lélegan samstjórnarflokk. En í frumvarpinu er enginn greinarmunur gerður á þessum litla bát, sem hv. þingmaður vitnaði til og ætti erfitt með að ná í síðustu 100 tonnin af þorski, (Gripið fram í: Það voru bara 15.) 15 tonn af þorski, og þeim sem eru kannski með upp undir 1/3 eða um 20% af öllum aflaheimildum á viðkomandi fisktegundum. Það er enginn greinarmunur gerður á þeim í þessu frumvarpi.

Ég verð að ítreka spurningu mína til hv. þingmanns. Telur hann að sú leið sem þarna er farin sé liður í endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu í þá átt sem hann vill að það þróist? (GMJ: Þveröfuga átt.) Þetta er einmitt í þveröfuga átt eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson segir.

Ætlar varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og Samfylkingin að láta þetta yfir sig ganga og segja bara æ, æ, æ? Það stóð til að endurskoða kerfið og skipa nefnd. Kjörtímabilið er að verða hálfnað. Þetta er ekkert smámál og ekki er bara hægt að segja að flokkar hafi mismunandi skoðun á því. Þar er bara annar flokkurinn sem nær greinilega öllu sínu fram, hafi hinn flokkurinn einhverja raunverulega skoðun. Þetta er ekkert smámál, stjórn fiskveiði og meðferð á sjávarauðlindinni.

Þannig að ég ítreka spurningu mína til hv. þingmanns. Er það virkilega svo að Samfylkingin (Forseti hringir.) með hv. þm. Karli V. Matthíassyni ætli að samþykkja þetta frumvarp og telji þetta bara gott og (Forseti hringir.) nauðsynlegt fyrir stjórnarsamstarfið, það sé einu rökin?