136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka enn og aftur að á fundum viðskiptanefndar komu fram skýringar á því að víkja með jafnafdrifaríkum hætti frá ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga, að það væru hagsmunir hinna erlendu kröfuhafa.

Ég spurði hvort einhver gögn væru á bak við það. Eru einhver skjalfest gögn? Er einhver greinargerð eða álit? Er einhver rökstuðningur? Nei. Svo kemur aftur þessi þversögn. Þegar erlendir lánardrottnar biðja um þekkt ferli, af hverju er þá búið til afbrigðilegt ferli sem hvergi þekkist í Evrópu? Af hverju eiga þingmenn að samþykkja frumvarp sem byggir á meintum fullyrðingum eða meintum skoðunum erlendra kröfuhafa án þess að þeir hafi nokkru sinni komið til viðskiptanefndar? Án þess að þeir hafi nokkurn tímann lagt fram eitt einasta skjal eða blað um vilja sinn. Er furða þótt ég dragi þær ályktanir sem ég gerði í ræðu minni?

Það er líka þekkt að við nauðasamninga eru hagsmunir minni kröfuhafa verr varðir. Þetta nauðasamningakerfi er lokað og ekki eins gegnsætt. Gjaldþrotaskiptaferlið er gegnsætt. Það er lýðræðislegt og opið. Það tryggir rétt allra og getur staðið í mörg ár. Það er hægt að reka þrotabúið áfram. Fyrir því er dæmi um tryggingafélag sem varð gjaldþrota fyrir allmörgum árum síðan og var í rekstri í ein átta, níu ár á eftir. Þannig að þetta frávik er mér óskiljanlegt.