136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[18:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi atriðin tvö sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi vil ég fyrst bæta því við umfjöllunina um frestdaginn að nefndin ræddi þetta nokkuð í morgun, hvenær eðlilegt væri að láta frestdag gilda. Í umræðunni kom upp sjónarmið um að ef við ákvæðum í dag að miða frestdag aftur í tímann við skipunardag skilanefndanna væri um afturvirkni að ræða og hættu á lagalegu tómarúmi. Breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar er ætlað að eyða óvissu sem af því hefði getað skapast.

Um það hvort við séum að fara út á hæpna braut vegna þess að tímabundið sé ekki heimilt að höfða mál á greiðslustöðvunartímabilinu tel ég að það séum við ekki að gera. Ég held að nauðsynlegt sé að hindra málaferli af því tagi sem gætu komið upp meðan á greiðslustöðvunartímabilinu stendur en hins vegar eru menn ekki varanlega sviptir réttinum til að fara með mál sín fyrir dómstóla komi upp ágreiningur út af þessu og ég held að með þessu móti sé þess gætt að sá tilgangur greiðslustöðvunarinnar náist, að hún virki, eins og hv. þm. Atli Gíslason lýsti áðan, sem nokkurs konar frystikista en varanlega er enginn réttur tekinn af nokkrum manni.

Varðandi tímann sem ætlaður er til greiðslustöðvunar þá er vissulega rétt að hann er býsna langur miðað við breytingartillögurnar sem meiri hluti viðskiptanefndar hefur lagt til. Ljóst er að aðstæður bankanna þriggja eru ólíkar og hjá sumum þeirra getur greiðslustöðvunartímabilið verið mun skemmra (Forseti hringir.) ef ekki þykir lengur ástæða til að nýta heimildirnar sem felast í greiðslustöðvun heldur ljúka málinu annaðhvort með nauðasamningum eða setja fyrirtækið í gjaldþrotaskipti. Því eru 24 mánuðir alger hámarkstími (Forseti hringir.) en ekki endilega sá tími sem menn ætla sér til að ljúka verkinu.