136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[19:00]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta en verð að segja að ég sakna þess verulega að formaður viðskiptanefndar, varaformaður og hv. þm. Birgir Ármannsson skuli ekki hafa komið hér upp í faglega umræðu og skoðanaskipti, sérstaklega út frá ábendingum sem ég kom fram með varðandi þær breytingartillögur sem gerðar hafa verið á frumvarpinu í dag.

Ljóst er með b-lið breytingartillögu á 2. gr. að búið er að loka fyrir dómstólaleiðina. Undir gjaldþrotaskiptum er lokað fyrir dómstólaleiðina en hægt að lýsa kröfum og skjóta ágreiningi innan skiptaréttar eða í búskiptum til Héraðsdóms Reykjavíkur, fá þar úrlausn og kæra slíka úrlausn til Hæstaréttar sem kveður síðan upp endanlegan dóm.

Hér er búið að girða fyrir það og er það brot á 78. gr. stjórnarskrárinnar. Ég hefði viljað heyra einhver andsvör við þessum áhyggjum en mér ber sem þingmanni og okkur öllum að standa vörð um stjórnarskrána.

Hvað varðar bréf til formanns allsherjarnefndar get ég ekkert um það sagt, ég rengi ekki orð hans, þau hafa ekki komist til skila eða eitthvað. Við finnum væntanlega út úr því, ég og hv. þm. Birgir Ármannsson, og ég er viss um að við þurfum ekki að útkljá neina deilu varðandi það. Hins vegar saknaði ég svara frá hv. varaformanni viðskiptanefndar við ítrekuðum póstum mínum í gær um að Markús Sigurbjörnsson formaður réttarfarsnefndar kæmi fyrir nefndina og ég frétti það í gegnum krókaleiðir.

Ég vil ræða áhyggjur mínar af hugsanlegum slysum og af því að lagagrundvöllurinn sé ekki nægilega tryggur. Ég ætla ekki meiri hluta viðskiptanefndar að vilja ekki standa vörð um þjóðarhag, það hef ég aldrei sagt, en mjög sterk teikn eru á lofti um að það kunni að vatna undan þeim góða ásetningi vegna þess að ekki er hugað að nógu traustum og víðtækum lagabreytingum í sambandi við frumvarpið.

Það er fleira vont í þessu bankamáli sem ég vil gera örstutt að umtalsefni. Í hádegisfréttum í dag kom fram að skilanefndir bankanna væru í lagalegu tómarúmi. Ég hef af því þungar áhyggjur, það var rökstutt í fréttunum. Við heyrðum það líka í allsherjarnefnd þegar umboðsmaður Alþingis svaraði spurningum og fór yfir ársskýrslu sína fyrir árið 2007, að hann hefði áhyggjur af þeim heimildum, eða réttara sagt heimildarleysi, sem liggja að baki hlutafélagavæðingu ríkisbankanna. Lagaheimild skortir fyrir því. Sú ákvörðun er tekin af stjórnvaldi, það er ekki gott. Þar er því líka afar ótraustur grunnur. Sex vikur, eða rúmlega það, eru liðnar frá því að neyðarlögin voru sett og viðskiptanefnd eða skilanefndir bankanna, Fjármálaeftirlitið og viðskiptaráðuneytið hefðu fyrir löngu átt að bera frumvarpið fram.

Ég hef sem sagt nálgast málið út frá þeim brýnu þjóðhagslegu hagsmunum sem ég tel frumvarpið ekki verja, það er kjarni máls míns. Annar kjarni eða afleiddur þáttur er sá að hér er ekki farið að vilja hinna bresku kröfuhafa þó að því hafi margítrekað verið lýst yfir. Þeir leggja ríka áherslu á að Landsbanki Íslands eða viðskipti Landsbanka Íslands verði „orderly run down“, það verði viðskipti í gangi. Viðskipti banka í greiðslustöðvun, í frystikistu greiðslustöðvunar verða ekki „orderly run down“. Þeir segja líka að gera verði bankanum kleift að stunda viðskipti. Í því felst sala og kaup eigna, ráðstöfun eigna, greiðsla skulda og annað slíkt sem greiðslustöðvun heimilar ekki, þannig að þótt hv. meiri hluti viðskiptanefndar hafi haft þann skýra vilja að fara að vilja erlendra kröfuhafa — ég hélt nú kannski að við ættum að styrkja innlendan vilja og fara að honum — þá tekst það ekki.

Að lokum vil ég segja, frú forseti, að ég vona einlæglega að við lærum eitthvað af „finnsku leiðinni“. Þar einbeitti ríkisstjórnin sér að því í tvö ár frá því að kreppan hófst að bjarga bönkunum en gleymdi fólkinu í landinu og heimilunum með skelfilegum afleiðingum sem enn vara í Finnlandi. Ég skora því á hv. þingheim og hæstv. ríkisstjórn að hugsa jafnmikið og auðvitað miklu meira um einstaklingana, um heimilin í landinu og það skelfilega atvinnuleysi sem blasir við. Við höfum mörg tækifæri til að bregðast við atvinnuleysi, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem þau blasa hvarvetna við, og ég vona að ríkisstjórnin snúi sér að því verkefni en hugsi ekki eingöngu um bankana.