136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[19:14]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er sagt að sannleikurinn sé sagna bestur. Ég trúi því. Það gildir líka um almenning. Það á að segja almenningi nákvæmlega dag frá degi hvað er að gerast í þeim veigamiklu þjóðarhagsmunum og því stríði sem við erum í. Þjóðin á ekki að frétta af þeim málum bakdyramegin í gegnum fyrirsagnir Morgunblaðsins eða í fréttum sjónvarps þar sem segir: Svo virðist vera að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setji okkur stólinn fyrir dyrnar.

Fréttir leka í blöð og fjölmiðla og fólk er fullt óvissu og ótta. Vanþekking skapar ótta og óvissu.

Tvö frumvörp hafa verið flutt sem snúa að fólki í landinu en ekki hafa fengist svör við því enn þá, hv. þm. Birgir Ármannsson, hvað á að gera í atvinnumálum þjóðarinnar. Atvinnuleysi er mesta böl sem kemur yfir nokkra þjóð og það er sem betur fer svo að yngri kynslóðir í landinu þekkja ekki til þess.

Hafi þetta áhrif á samningsferilinn verður svo að vera. Það er allt í lagi að standa að samningaviðræðum með reisn og opnum hug og láta almenning vita nákvæmlega hvað er að gerast.