136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

Icesave-reikningar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

[15:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði áðan voru það svo mikil tíðindi sem forseti flutti okkur þingmönnum af forsetastól að annað sem maður vildi segja hér verður svolítið hjóm í þeim samanburði þótt mikilvægt sé engu að síður.

Það sem ég ætlaði að gefa yfirlýsingu um hér, virðulegur forseti, var um þau þáttaskil sem orðið hafa í deilunni um hina svokölluðu Icesave-reikninga en sú deila er einhver erfiðasta milliríkjadeila sem við höfum átt í nú lengi. Þessi deila hefur hindrað Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í því að taka til afgreiðslu beiðni okkar um aðstoð sjóðsins sem hefur legið þar í nokkrar vikur. Ástæðan sem hefur hindrað sjóðinn er ekki síst sú að deilan hefur hindrað það að við gætum innleyst þau lánsloforð sem hafa legið fyrir af hálfu ýmissa Evrópuríkja til Íslands. Þau hafa sett það sem skilyrði, hvort sem það hafa verið Norðurlöndin eða önnur Evrópuríki, að við leiddum til lykta deiluna um Icesave-reikningana áður en þau mundu ábyrgjast þau lánsloforð sem þau höfðu gefið okkur.

Það sem felst í þessu samkomulagi — við getum kallað það samkomulag — um Icesave-reikningana er að samþykkt eru ákveðin viðmið sem við munum nota núna í samningaviðræðum við þá deiluaðila sem að þessu máli koma, Bretar, Hollendingar og að einhverju leyti Þjóðverjar, með milligöngu Evrópusambandsins. Við samþykkjum tiltekin viðmið í þeim viðræðum. Fyrsta viðmiðið er að við viðurkennum ákveðna lagaskyldu til að greiða lágmarksábyrgð á hvern tryggðan innstæðueiganda í útibúum íslenskra banka í Evrópu samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar og að hún gildi þá á Íslandi með sama hætti og í öðrum aðildarríkjum.

Í öðru lagi kveður yfirlýsingin á um það að þessi ríki muni veita Íslandi ákveðna fjárhagsaðstoð og þau taka sérstakt tillit til Íslands vegna hinna erfiðu og fordæmalausu aðstæðna, eins og segir í yfirlýsingunni, sem við glímum við hér á landi.

Í þriðja lagi segir í yfirlýsingunni að Evrópusambandið muni koma að málum. Í yfirlýsingunni er talað um að samningaviðræður um þessi mál, um fjárhagsaðstoðina, muni fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti, að Evrópusambandið muni sem sagt beita sér að einhverju leyti í þeim viðræðum.

Þau þáttaskil sem hér hafa orðið í þessari deilu hafa ekki síst fengist vegna þess að franska formennskan í Evrópusambandinu tók að sér ákveðið málamiðlunarhlutverk sem reyndist mjög mikilvægt í þessum deilum. Við getum sagt að í þessari deilu hafi tíminn að einhverju leyti unnið með okkur vegna þess að hugmyndir Breta í upphafi deilunnar um það hverjar skuldbindingar okkar væru voru auðvitað svo miklu umfangsmeiri en niðurstaðan hefur nú orðið í deilunni.

Við stöndum einfaldlega andspænis því að tími lagaþrætna í þessari deilu er liðinn. Það hefur allt verið reynt til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri hvað það varðaði að þessi tiltekna tilskipun Evrópusambandsins ætti við þegar einstakir bankar, einstakar fjármálastofnanir, færu á hliðina en ekki þegar heilt fjármálakerfi færi á hliðina eins og er okkar veruleiki. Vandinn sem við glímum við er sá að önnur ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eru okkur ekki sammála um þetta. Þau eru ósammála okkar túlkun sem og þær stofnanir Evrópusambandsins sem aðild eiga að málinu. Við höfum rætt það og það hefur verið lagt til að þetta færi annaðhvort fyrir dómstól eða einhvern úrskurðaraðila en það væri mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, að finna dómstól eða úrskurðaraðila sem báðir aðilar gætu sætt sig við.

Okkar mat er einfaldlega að það að halda áfram þessum langvinnu lagaþrætum mundi leiða til mikils taps, ekki síst fyrir okkur Íslendinga þar sem eignir hefðu brunnið upp á meðan, eignir sem búið er að frysta í Bretlandi. Í versta falli hefði þessi deila getað leitt til þess að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði væri í uppnámi. Við töldum sem sagt ekki á það hættandi að setja samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði í uppnám vegna þessarar lagaþrætu eða gera það að verkum að við einangruðumst á hinum (Forseti hringir.) alþjóðlega vettvangi. Þess vegna er þessi niðurstaða fengin sem við teljum að sé ásættanleg fyrir okkur við þær aðstæður sem nú eru uppi.