136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[17:57]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Margir biðu í ofvæni eftir því að sjá auglýsingu sem boðuð var frá ríkisstjórninni um aðgerðir í þágu heimilanna og birtist nú fyrir og um helgina í tólf liðum. Það er rétt sem hv. þm. Ólöf Nordal sagði hér áðan að þar er talað um að fella niður tekjur eins og til að mynda af stimpilgjaldi. Tekjur sem ríkissjóður hefði ekki fengið ef ekki hefði komið til hruns efnahagslífsins og þess vegna hefur ekki verið reiknað með þeim í fjárlögum eða drögum að fjárlögum næsta árs, þ.e. að engin útgjöld eru af hálfu ríkissjóðs í því.

Þannig er, herra forseti, að þegar maður skoðar auglýsinguna er í rauninni bara um einn stóran útgjaldalið að ræða, það er síðasti þátturinn, endurgreidd gjöld af útfluttum bílum, sem mér er sagt að gæti kostað á bilinu 2–3 milljarða. Greiðslubyrðin sem við tölum um að létta af mun ekki kosta ríkissjóð mikið. Aukinn sveigjanleiki gagnvart fólki í greiðsluvanda mun kosta 21,5 millj. kr. Annað á þessu blaði mun ekki kosta ríkissjóð krónu. Ég vil vita hvort það er rétt tilfinning sem ég og fleiri sem líta á þessa auglýsingu höfum að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að létta á vanda heimilanna megi í rauninni ekki kosta neitt.