136. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[22:37]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Grein hefur verið gerð fyrir þeim fyrirvara sem við, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, settum við málið og ég hef ekki miklu við það að bæta. Ég tek undir þá gagnrýni að farið sé með mikilsvert mál í gegnum þinglega meðferð á afbrigðum á óeðlilega skömmum tíma og í þessu máli má segja að lengra sé gengið en oft áður því að þegar þingfundur hófst í dag lá þetta þingmál ekki einu sinni fyrir og ekki var búið að útbýta því þannig að menn vissu ekki af tilvist þess aðrir en þeir sem höfðu fengið að vita um það eftir öðrum leiðum. Þó að málin séu ágæt, eins og í þessu tilviki, er málsmeðferðin ekki til fyrirmyndar og einn þeirra sem hefur verið ólatur við að gagnrýna slíka málsmeðferð á umliðnum árum er einmitt hæstv. félagsmálaráðherra, eins og hér var minnt á. Við eigum mikið safn af gömlum ræðum hæstv. félagsmálaráðherra þar sem þáverandi þingmaðurinn gagnrýndi í kjarnyrtu máli málsmeðferð þáverandi ríkisstjórnar á ýmsum málum sem þingmaðurinn lét sig varða.

Ég vona að þessari óvenjulegu málsmeðferð á þingi linni nú og menn fari að taka sér og gefa þinginu þann rúma tíma sem þarf til að tryggja vandaða lagasetningu. Ég vona líka að hæstv. félagsmálaráðherra beiti sér fyrir þessu því honum hefur verið það umhugað — kannski umfram marga aðra þingmenn á liðnum árum — að svo sé. Fleira ætla ég ekki að segja um gagnrýni á málsmeðferð að þessu sinni. Ég held að engum tilgangi þjóni að tala meira um það í þessum sal. Við þingmenn eigum að kappkosta að bæta starfshætti Alþingis og sjá til þess að meðferð mála í þinginu sé með þeim hætti að mikill sómi sé að og við séum eins vissir um og hægt er að við afgreiðum málin frá okkur þannig að góð mál séu gerð betri og lagasetningin standist tímans tönn, a.m.k. næstu daga eftir að hún er sett.

Málið sem hér um ræðir hefur sína kosti, eins og komið hefur fram í máli þeirra sem töluðu á undan mér. Það getur gagnast sumum lántakendum og er nýtt úrræði eða endurvakið gamalt framsóknarúrræði sem bætist við flóruna sem fyrir er og getur verið gagn að því. Engin ástæða er til að leggja stein í götu þess að þessi leið sé opnuð á nýjan leik og að þingið leggi nokkuð á sig til að það geti orðið fyrr en seinna. Menn verða þó að átta sig á umfangi vandans. Tilgangurinn er að standa vörð um stöðu heimilanna, en breytingarnar sem verða á tekjum heimilanna og almennum útgjöldum þeirra munu leiða til þess að minna verður til ráðstöfunar til að standa undir afborgunum skulda en áður hefur verið. Tilgangurinn er að sjá til þess að á tímabilinu sem fram undan er — eitt, tvö eða þrjú ár — geti heimilin komist í gegnum skuldbindingar sínar án þess að það leiði til erfiðari stöðu eins og nauðungarsölu eða jafnvel gjaldþrots. Þetta er liður í því og við samþykkjum það og teljum ágætt að því marki en menn verða að hafa í huga að umfang málsins er ekki talið vera meira en 10–13 milljarðar kr. og getur greiðslubyrði heimilanna lækkað sem því nemur á einu ári. (Gripið fram í.) Frestað, lækkað og frestað en þýðir auðvitað að greiðslubyrðin hækkar svo eftir einhver ár þannig að þegar upp er staðið er ekkert slegið af.

Umfang vandans er miklu meira. Við vitum ekki hversu miklu meira, en svartsýnustu spár eru að kaupmáttur ráðstöfunartekna falli um allt að 25%. Með hæfilegri nálgun á stærðir getur það þýtt að þetta séu tölur allt að 150 milljörðum kr. Við skulum vona að það sé minna en ef það er í efri mörkum þess sem spáð hefur verið, þá mætir aðgerðin aðeins um einum tíunda af áætluðum vanda heimilanna og þá spyr maður: Hvar eru ráðin til að mæta því? Hvar eru ráðin sem eiga að vera heimilunum bjargráð til að komast í gegnum erfiðleika næstu ára? Þau hafa ekki komið fram, virðulegi forseti, og talað er óljóst um það sem kann að koma. Væntanlegt frumvarp um greiðsluaðlögun getur og mun örugglega hafa áhrif á að dreifa hluta af greiðslubyrði næsta árs yfir lengra tímabil en svo er ekki margt fleira sem við vitum um. Aðeins hefur heyrst talað um að heimilað verði að séreignarlífeyrissparnaður verði tekinn út og greiddur, notaður til að greiða skuldir. Ég hef að vísu efasemdir um þá leið en fer ekki frekar út í það hér. Segjum að það verði gert, þá eru það tvö úrræði til viðbótar og hvað duga þau langt til að mæta vanda sem getur verið allt upp í 150 milljarðar kr.? Ég held að töluvert gat verði þegar búið verður að skoða þær leiðir eða sýna þær sem eru í skoðun hjá hæstv. ríkisstjórn. En við skulum bíða og sjá þar til frumvörpin koma fram eða málin og hvað þau duga langt upp í vandann. En niðurstaðan er sú að það sem ríkisstjórnin hefur sýnt er um og innan við einn tíundi af vandanum, ef við miðum við hámarkið um 25% lækkun ráðstöfunartekna, sem er örugglega svartsýnasta spáin og vonandi ekki sú rétta. Þá verða menn að átta sig á því að ríkisstjórnin kastar fram máli til að friða sjálfa sig og kjósendur til að almenningur sjái að verið sé að gera eitthvað og haldi að verið sé að gera margt. En lítið er gert og ríkisstjórnin er ekki komin nægilega langt enn þá, þrátt fyrir allar vikurnar sem unnið hefur verið hörðum höndum að því að finna lausnir.

Maður hlýtur að spyrja hæstv. ríkisstjórn og hæstv. félagsmálaráðherra: Hvenær koma alvöruúrræðin, virðulegi forseti? Hvenær koma aðgerðirnar sem raunverulega skipta máli? Hvenær kemur lausn á stærsta hluta þess sem þarf að leysa? Við þurfum svör við því. Ekki er nóg að halda blaðamannafund á föstudegi og segja: Hér koma aðgerðirnar, og kaupa síðan heilsíðublaðaauglýsingar í öllum dagblöðum landsins til að auglýsa hvað ríkisstjórnin er að gera ef það er svo ekki nema brotabrot af því sem þarf. Fólk hefur enn ekki fengið almennileg svör, virðulegi forseti, við því hvað ríkisstjórnin ætlar að bjóða til að mæta erfiðleikunum sem fram undan eru hjá heimilum landsmanna. Það stendur upp á ríkisstjórnina að koma með svörin. Hvar eru alvöruúrræðin, virðulegi forseti? Það sem er í þessu frumvarpi er bara smotterí, virðulegi forseti. Þó að það sé góðra gjalda vert er það bara smotterí miðað við vandann sem við sjáum fram undan. Við hljótum að kalla eftir því að ríkisstjórnin segi þjóðinni og þinginu hvað hún ætli að gera. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera, virðulegi forseti? Menn geta ýmislegt gert, sé ég, en það er ekki lausn á greiðsluvanda heimilanna að vísa bara í þetta eina frumvarp um að fresta greiðslum um tíma, tiltölulega litlum hluta af þeim vanda sem fólk stendur frammi fyrir. Ef við skoðum frumvarpið, sjáum við að það tekur aðeins á verðtryggðum fasteignaveðlánum. Það tekur ekki á öðrum veðlánum, t.d. gengistryggðum lánum. Ríkisstjórnin skilar auðu í þeim málum. Auðu um alla milljarðana sem heimili landsins skulda í gengistryggðum lánum. Ekkert í frumvarpinu lýtur að þeim skuldum, ekki neitt, engin úrræði. Bara misvísandi, veikburða tilmæli hjá einstaka ráðherra til lánastofnana um að þær frysti eða fresti eða geri eitthvað. Úrræði og svör vantar, virðulegi forseti. Frumvarpið tekur heldur ekki á öðrum skuldum en fasteignaveðskuldum. Landsmenn skulda fullt umfram það sem eignir eru veðsettar fyrir og ríkisstjórnin býður ekki upp á neitt hvað þær skuldir varðar.

Virðulegi forseti. Hvað ætlar ríkisstjórnin að leggja til svo hægt sé að lina vanda skuldsettra heimila þegar kemur að óverðtryggðum skuldum og skuldum án veðsetningar? Eiga heimili landsins að bera þær skuldir óbreyttar? Á greiðslubyrðin á þeim að vera óbreytt á næsta ári, tveimur árum eða þremur árum. Hvenær koma tillögur frá ríkisstjórninni um það? Hvers vegna hefur ríkisstjórnin ekki getað komið fram með tillögur um það eins og um verðtryggð fasteignalán? Er það vegna þess að ríkisstjórnin nær ekki samkomulagi? Er það vegna þess að hinn stóri meiri hluti getur ekki náð samkomulagi um þessi mikilsverðu hagsmunamál almennings? Hver er ástæðan, virðulegi forseti? Ég fer fram á að hæstv. ráðherra leiti að svörunum í skjóðu sinni á meðan hún flettir þessum blöðum. Hver er ástæðan fyrir því að við fáum engin svör varðandi tillögur ríkisstjórnarinnar um þessar miklu skuldir sem frumvarpið nær ekki til? Við hljótum að kalla eftir því, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin fari að sýna einhverjar alvörutillögur, einhver alvöruúrræði. Þó að þetta sé góðra gjalda vert þá er það tiltölulega lítið mál og segir lítið við vandanum sem fram undan er og það held ég að hljóti að verða meginniðurstaðan af umræðunni um þetta mál og vonandi afgreiðslu þess í kvöld að þrátt fyrir afgreiðslu frumvarpsins er vandi heimilanna að mestu leyti óleystur af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.