136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:26]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Trúverðugleiki er lykilatriði í efnahagsmálum. Trúverðugleiki innan lands, trúverðugleiki út á við. Ég hef verið að skoða viðbrögðin við ákvörðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í gærkvöldi í útlöndum gagnvart því að veita þetta lán. Þau eru mjög jákvæð. Þau sýna að þrátt fyrir þau vandamál sem við höfum lent í, Íslendingar, þá njótum við trausts og það eykur trúverðugleika okkar, bæði ríkisins og Seðlabankans, að hafa gengið til þessa samstarfs. Ég held að þingmenn á Alþingi, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, eigi ekki að reyna að grafa undan þeim trúverðugleika sem nú er verið að byggja upp.