136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

verðbréfaviðskipti.

53. mál
[12:48]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál kemur að sjálfsögðu inn til hv. viðskiptanefndar, sem ég sit í, til frekari skoðunar. En mér er enn óljóst hver staða minnihlutaeigenda er varðandi að þeir haldi sínum bréfum. Ég man eftir þingmáli sem flutt var líklega í fyrra eða hittiðfyrra — mig minnir að það hafi verið hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, sem var 1. flutningsmaður að því — um hvernig hægt væri að standa vörð um og tryggja stöðu minni hluthafa í fyrirtækjum.

Það var vilji til þess en ég get ekki séð að hann birtist í þessum lögum hér. Við höfum orðið vör við hina taumlausu græðgisvæðingu á undanförnum árum. Sá sem kemst yfir meiri hluta hefur haft rétt til þess að kúga minni hlutann og beita hann alls konar yfirgangi, yfirtökum og afarkostum hvað það varðar. Ég tel mjög mikilvægt að þau atriði séu skoðuð mjög vandlega þegar við förum yfir frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti sem hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir einmitt til þess að tryggja aukið og bætt siðferði innan þessa geira og að tryggja rétt þeirra aðila sem eiga minni hlutann þar.

Við höfum séð hvernig þetta hefur gerst. Almenningur hefur lagt í almenningshlutafélag og allt í einu hefur einhver hefur komist yfir ráðandi hlut í félaginu, beitir yfirtöku og almenningur hefur ekki átt neinar varnir gagnvart þeirri græðgi sem endurspeglast þar. Ég legg áherslu á að við í (Forseti hringir.) viðskiptanefnd munum skoða þetta mál vandlega, frú forseti.