136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[16:33]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

(VS: Hann er búinn að halda margar ræður í dag.) Frú forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kvartar undan því að ég hafi haldið of margar ræður í dag. Það er hugsanlegt að þegar líður á ræðu mína kunni ég jafnvel að varpa til hv. þingmanns orðum ef hún nennir að hlusta á mig.

Frú forseti. Ég er algjörlega andsnúinn þessari tillögu, ég tel ekkert tilefni (Gripið fram í.) til þess á þessari stundu að leggja fram vantraust á ríkisstjórnina. Fyrst held ég að hv. stjórnarandstaða ætti að vega og meta þau verk sem ríkisstjórnin vinnur á meðan á þessum björgunarleiðangri stendur.

Ég vil samt sem áður segja að ég tel margt skiljanlegt við það að stjórnarandstaðan skuli flytja tillögu um vantraust. Hún verður auðvitað, a.m.k. partar af henni, að fá sinn part af fjölmiðlaljómanum, eins og einhver orðaði það hér í dag. Ég hef fullkominn skilning á því að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi lært svolítið af markaðshagfræðinni og vilji haga sér eins og spekúlantar á hlutabréfamarkaðnum — þeir eru búnir að tala upp sín bréf og vilja nú innleysa hagnað sinn. Það er ósköp skiljanlegt og þess vegna hafa þeir talað af þrótti og sannfæringu í dag og margt gott hefur verið um þeirra mál.

Ég á hins vegar miklu erfiðara með að skilja að Framsóknarflokkurinn vilji kosningar, ekki bara vegna þess að sá flokkur er í því hlutskipti sem hann hefur haldið fram að ríkisstjórnin væri í. Hann er rúinn fylgi, sá ágæti flokkur, og ég sé ekki að hann eigi sér viðreisnar von, sem ríkisstjórnin á hins vegar. Mér finnst sérstaklega undarlegt að undir leiðsögn nýs formanns skuli skyndilega vera búið að snúa við blaðinu. Fyrri formaður var þó nægilegu skyni gæddur til þess að segja það hreint út fyrir örfáum dögum, að mér liggur við að segja, að hann teldi að núverandi ríkisstjórn ætti að fá tóm til að vinna úr þeim verkum sem blasa við þjóðinni og svo skyldu menn dæma hana. Það var skynsamlega mælt.

Að öðru leyti hafa þessar umræður verið vasklegar og þróttmiklar. Ég get trúað þingheimi fyrir því að þegar ég var ungur og róttækur stúdentaleiðtogi hafði ég mikinn þokka á löngu genginni byltingarhetju, Leon Trotskí. Mig langaði alltaf til að sjá Leon Trotskí sem auðvitað dó og varð allur löngu á undan mér. En mér fannst í dag sem ég hefði séð hann. Ég fylltist aftur ungæði og krafti bernskunnar þegar ég sá hv. þm. Ögmund Jónasson tala eins og Leon Trotskí endurborinn. Ég var að mörgu leyti ánægður með málefnalega takta í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. En í þessar tvær góðu ræður forustuflokks stjórnarandstöðunnar, sem nú virðist algjörlega hafa brutt undir sig Framsóknarflokkinn, vantaði eitt, það vantaði tillögur. Þeir þingmenn og sú stjórnarandstaða sem leggur til vantraust á ríkisstjórn hlýtur að geta lagt fram plan sem er betra en sú áætlun sem ríkisstjórn fylgir. En það blasir við í umræðunni í dag að stjórnarandstaðan hefur engar tillögur, hún hefur engar áætlanir, engin áform. Í máli hennar hér í dag hefur ekkert jákvætt verið.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sproksetti mig meira að segja fyrir að hafa farið jákvæðum orðum um nýja atvinnugrein sem við erum að hefja hér og hún átti auðvitað fyrir löngu að vera búin að hrinda af stokkum.

(Forseti (RR): Ég vil biðja hæstv. iðnaðarráðherra um að stilla mál sitt. Ég vil biðja hv. áheyrendur um að taka þetta niður þegar í stað. Annars á forseti ekki annan kost en að láta víkja ykkur úr salnum.)

Þið truflið mig ekkert, elskurnar mínar. Má ég halda áfram?

(Forseti (RR): Nei.)

[Háreysti á þingpöllum.] Ja, ég er undir valdsetningu forseta.

(Forseti (RR): Hv. áheyrendur. Þess er krafist að áheyrendur sýni þinginu tilhlýðilega virðingu og hafi hljóð á pöllunum. Ég bið hv. áheyrendur um að taka niður þetta mótmælaskjal eða þetta plagg sitt þegar í stað.)

Jæja, frú forseti, má ég halda áfram ræðu minni? Ég get vel gert það undir …

(Forseti (RR): Forseti æskir þess að hæstv. iðnaðarráðherra geri það ekki.)

Ég geri þá hlé.