136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

aðgerðir í atvinnumálum.

[14:26]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Mér þykir leitt að hv. þingmaður gerir lítið úr olíudraumum Íslendinga. Þeir voru fyrst greindir í olíumálaráðuneytinu undir stjórn þáverandi olíumálaráðherra sem var þá hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir. Ég hef litið svo á að ég hafi runnið í hennar flóð eins og hún hefur verið óþreytandi á að minna mig á hér og kann ég henni bestu þakkir fyrir það eins og svo margt annað.

Það sem iðnaðarráðherra ætlar að gera til að draga úr atvinnuleysi sem því miður er spáð á næstunni er í fyrsta lagi þetta: Innan skamms vænti ég þess að gerður verði samningur um endurnýjum á ýmsum búnaði í álverinu í Straumsvík sem mun leiða til þess að fjölmargir verkfræðingar fá þar störf og sömuleiðis um það bil 300 iðnaðarmenn. Í öðru lagi vænti ég þess að ráðist verði í þær áætlanir sem fram undan eru varðandi stóriðju í Helguvík. Það er víst ekki samið um hversu stórt það verk verður en hins vegar liggur fyrir að þar munu einhvers staðar á bilinu 1.500–2.000 manns fá atvinnu á þeim tíma þar sem mestur skortur er á störfum.

Í þriðja lagi vænti ég þess að þegar þiðnar svolítið í jörðu varðandi lánafyrirgreiðslu til íslenskra orkufyrirtækja muni vera hægt að halda áfram orkuvinnslu á Norðurlandi og nýta þá orku til stóriðju, t.d. hátæknivæddrar mengunarlítillar stóriðju.

Í fjórða lagi hefur iðnaðarráðherra líka rutt brautina fyrir því að til verði fjölmörg störf sem tengjast sprotafyrirtækjum. Til dæmis er samningur við Atvinnuleysistryggingasjóð um að sprotafyrirtæki geti ráðið til sín starfsmenn úr hópi atvinnulausra með 90% styrk frá sjóðnum. Ég vona að þarna geti verið um nokkur hundruð störf að ræða og í seinna svari mínu mun ég síðan halda áfram þessari upptalningu til að gleðja hv. þingmann.