136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

frumvarp um sérstakan saksóknara.

[13:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka það fram að mér finnst kærkomið að fá tækifæri til þess að fá að ræða þetta mál hér í sölum þingsins og biðst ekki undan því og álít ekki að hv. þm. Helgi Hjörvar sé með neinum hætti að hotta á mig eða aðra svo vísað sé til ummæla hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur áðan.

Ég held að þessi umræða sýni að efnislega séu menn mjög á sömu nótum í þinginu varðandi afgreiðslu þessa máls. Það er víðtækur stuðningur við það og stuðningur við að málið nái fram að ganga svo fljótt sem auðið er. Ég held að það sé kannski kjarninn í því sem hefur komið fram í umræðunni þó vissulega hafi menn farið vítt yfir sviðið.

Til þess að svara hv. þm. Helga Hjörvar og þeirri athugasemd sem kom fram í síðari ræðu hans varðandi fjármuni til rannsóknar af þessu tagi þá hygg ég að hann hafi metið það alveg rétt að af hálfu þeirra sem um þetta mál hafa fjallað, hvort sem það hefur verið á vettvangi stjórna flokkanna eða innan allsherjarnefndar, þá er staðan auðvitað sú að það gera sér allir grein fyrir því að rannsókn af þessu tagi sem verið er að fjalla um hérna mun kosta talsvert fé. Frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra fylgir fremur varfærin áætlun frá fjármálaráðuneytinu um ætlaðan kostnað til að byrja með. En ég held að það geri sér allir grein fyrir því að þar er um mjög varfærna áætlun að ræða og það er alveg ljóst að það er pólitískur stuðningur og vilji til þess að kosta því til sem þarf til þess að þessi rannsókn geti farið vel fram (Forseti hringir.) og að fjárskortur eigi með engum hætti að há rannsóknaraðilum í þeirra störfum.