136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[11:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson þegar hann segist staðhæfa að stjórnvöld hafi ekki sofið heldur staðið vaktina fyrir viðskiptalífið, hvort hann eigi í þeim orðum sínum við stjórnvöld eins og þau eru skilgreind í 2. gr. stjórnarskrár Íslands, með leyfi forseta:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Eru þetta stjórnvöldin sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vísar í og segir að hafi ekki sofið heldur staðið vaktina fyrir viðskiptalífið? Ef svo er með hvaða hætti telur hann að refsa beri slíkum stjórnvöldum ef brot þeirra eru eins og hann gefur til kynna?