136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[15:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld að þessu leyti á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um bakgrunn þess þingmáls sem hér er flutt. Um er að ræða einn anga bankahrunsins er snertir umtalsverðar fjárhæðir á innlánsreikningum í útibúum íslenskra banka í Evrópu. Þessar fjárhæðir voru að stærstum hluta til á innlánsreikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, svokölluðum Icesave-reikningum. Starfsemi bankans í viðkomandi löndum var rekin í formi útibúa en ekki dótturfélaga og því gilda lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, um þessa starfsemi en þau lög eru byggð á tilskipun ESB 94/19 um innstæðutryggingar. Það felur í sér að innstæður eru tryggðar af íslenska tryggingasjóðnum.

Í samræmi við ákvæði 3. gr. laga nr. 98/1999 nær greiðsluskylda sjóðsins, og þar með talin ábyrgð hans á greiðslufalli, til útibúa íslenskra banka á Evrópska efnahagssvæðinu. Á þessari forsendu sneru stjórnvöld í viðkomandi ríkjum sér að íslenskum stjórnvöldum í því skyni að kanna með hvaða hætti þau hygðust tryggja að sjóðurinn stæði við þær skuldbindingar sem í tilskipuninni felast. Íslensk stjórnvöld voru ekki tilbúin til að fallast á að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur til innlánseigenda ef þær færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innlána gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn. Höfum við og haldið því fram að vafi léki á lagalegum skuldbindingum Íslands að þessu leyti undir þeim kringumstæðum sem nú ríkja. Þessari lagatúlkun hefur verið hafnað af þeim ríkjum sem hlut eiga að máli svo og af ESB.

Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól. Þessu hafa aðildarríki ESB alfarið hafnað þar sem þau telja að slíkt mundi sá efasemdum meðal innstæðueigenda með ófyrirséðum afleiðingum fyrir evrópsk fjármálakerfi.

Eftir tvíhliða viðræður við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi og síðar fyrir milligöngu Frakklands, sem gegnir formennsku í Evrópusambandinu, var ljóst að Ísland stóð einangrað meðal aðildarríkja EES um þá túlkun sína sem hér hefur verið reifuð. Ljóst var að þessi afstaða var orðin hindrun í vegi nauðsynlegrar fyrirgreiðslu á alþjóðlegum vettvangi fyrir íslenskt efnahagslíf, þar með talið fyrirgreiðslu frá Norðurlöndunum. Í þessu ljósi telja íslensk stjórnvöld rétt að fara leið pólitískra samninga um málið á grundvelli þeirra viðmiða sem náðust fyrir tilstilli Frakklands.

Næsta skref í málinu er að ganga til viðræðna við þau ríki sem hér um ræðir en gert er ráð fyrir því að þau muni aðstoða sjóðinn við að standa undir þessu verkefni í formi lánveitinga til sjóðsins með ábyrgð íslenska ríkisins. Þær viðræður sem fram undan eru munu skera úr um nánari útfærslu þessara lánveitinga auk þess sem hin endanlega niðurstaða mun ráðast af því að hve miklu leyti andvirði eigna viðkomandi banka mun renna til sjóðsins við uppgjör á búum þeirra. Ríkisstjórnin telur rétt í ljósi eðlis þessa máls og umfangs að leggja það fyrir Alþingi til meðferðar í formi þeirrar þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir, en síðan þegar niðurstaða fæst úr samningaviðræðunum mun málið að sjálfsögðu berast aftur til Alþingis með viðeigandi hætti.

Ég legg til, virðulegur forseti, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. utanríkismálanefndar.