136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst forláts á því að hafa haft hv. þm. Pétur Blöndal fyrir rangri sök hvað varðar fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins. Ég var að blanda saman tveimur óskyldum málum. Ég biðst forláts á því.

En varðandi þetta atriði sem hv. þingmaður kemur hér með fram þá er alveg ljóst að það heyrði undir íslensk stjórnvöld að haga fjármálaeftirliti með þeim hætti að hægt væri að takmarka þær ábyrgðir sem á endanum féllu. Auðvitað höfum við vitað um það, hv. þingmaður, árum saman að útibú erlendis störfuðu á ábyrgð íslensks fjármálaeftirlits og á ábyrgð íslenska innstæðutryggingasjóðsins. Af hverju heldur hv. þingmaður að Fjármálaeftirlitið hafi byrjað að ganga eftir því við Landsbankann í febrúarmánuði að hann flytti þetta í dótturfélag erlendis? (Gripið fram í.) Það er til að koma þessum ábyrgðum burt af íslenska innstæðutryggingasjóðnum. Af hverju heldur hv. þingmaður að aðkoma Fjármálaeftirlitsins hafi einkennst síðan áfram af þessu allt þetta ár og síðan hafi menn og hæstv. viðskiptaráðherra farið með stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins til Bretlands í septemberbyrjun til þess einmitt að fá Breta til að vera ekki svona stífir og erfiðir á kröfum til að koma þessu Icesave-máli yfir í (Gripið fram í.) dótturfélag? Það er vegna þess að það vissu það allir sem vildu vita það — það er undarlegt að heyra hv. þingmann, formann efnahags- og skattanefndar halda því fram að það hafi komið honum algerlega á óvart að ábyrgðir gætu risið á innstæðutryggingasjóðinn á grundvelli starfsemi útibúa í öðrum löndum.

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að ekki er hægt að banna mönnum að opna útibú í öðrum löndum og það er vissulega ljóst að þetta regluverk er gallað og það er vissulega ljóst að það þarf að endurskoðast í framhaldinu. En um það þarf að nást samstaða á evrópskum vettvangi. Ef hv. þingmaður getur (Forseti hringir.) deilt þeirri skoðun með mér þá hlýtur hann líka að deila þeirri skoðun með mér að betra sé við sitjum við borðið í Evrópusambandinu og komum efnislega að ákvörðunum um endurskoðunina (Forseti hringir.) heldur en vera í óbreyttri stöðu utan Evrópusambandsins og þurfa að innleiða allt hvort sem okkur líkar betur eða verr og óháð því hvort það uppfyllir okkar hagsmuni eða ekki. (Gripið fram í.)