136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka undirtektir hæstv. orkumálaráðherra. Það sem ég var að draga upp í þessu máli er hversu haldlítið það er þegar handhafar framkvæmdarvaldsins standa að gjörningum, þ.e. þegar um fjárskuldbindingar eða undirritun samninga er að ræða, og verja sig með því að segja að þeir séu gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis en svo kemur á daginn að í raun og veru er það formið eitt vegna þess að framkvæmd viðkomandi verkefnis er þegar hafin. Auðvitað má segja að prógrammið hafi farið strax í gang þegar Seðlabankinn var þvingaður til að hækka stýrivextina. Alþingi var ekki búið að koma að þessu máli þá og vissi eiginlega ekki neitt um það, það var allt í leyni, samanber getgáturnar um hver bæri ábyrgð á þeirri ákvörðun.

Síðan kemur það á daginn að búið er að taka fyrsta hluta lánsins sem er inni á bankabók í New York þannig að það er hægt að skila því ef svo bæri undir. Svo er þegar byrjað að fleyta krónunni. Í trausti hvers gera menn það? Þeirrar vissu umhverfisins að Ísland er komið með einhvern gjaldeyri á bak við sig og á hann tiltækan ef á þarf að halda. Framkvæmdin er því hafin og Alþingi er stillt hér upp við vegg gagnvart því að samþykkja umboð til ríkisstjórnarinnar fyrir verkefni sem framkvæmdarvaldið hefur þegar hafið framkvæmd á. Þetta er bara veruleiki og auðvitað á þetta ekki að vera svona.