136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[16:22]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig í ræðu minni áðan hafa skýrt af hverju við grípum til þess ráðs að framlengja þetta ákvæði sem við getum svo enn framlengt til 2014 ef ástæða er til. Ef ég man það rétt, sem ég skal skoða nánar, er hægt að framlengja þetta lengur ef mjög sérstakar aðstæður eru á vinnumarkaði. Ég þarf bara að skoða það. Það er svolítið síðan ég skoðaði þessi ákvæði.

Við getum bara ekki valið úr eitt og hafnað öðru. Þetta er með þeim hætti að við höfum tekið upp þennan EES-samning og búið við hann í langan tíma. Ég hygg að flestir hafi góða reynslu af honum og hafi ekki viljað snúa til baka með það. Við sem heild og þjóðarbúið höfum haft af honum ávinning.

Ég hygg að aðstæður séu þannig núna á vinnumarkaðnum þar sem við sjáum fram á verulegt atvinnuleysi eins langt og við getum spáð, kannski um 8%, að full ástæða sé til þess að takmarka áfram frjálsa för þessara þjóða til landsins. Eins og sagði áðan hafa flestar Evrópuþjóðirnar tekið upp þetta ákvæði og nýtt sér það, þessa framlengingu. Það er ekki vafi í mínum huga að við erum að gera rétt með því að framlengja þetta ákvæði nú.