136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[15:07]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Þetta frumvarp gengur út á að reyna að tryggja íslenskum fiskvinnslum betri aðgang að þeim mikla fiski sem fluttur er út. Að því leyti er þetta jákvætt frumvarp en það er þó að mínu mati að mörgu leyti mjög gallað þar sem óljóst er hvaða árangur verður af því. Hvað þetta mun þýða og hvernig þetta mun ganga fyrir sig?

Í fyrsta lagi hef ég miklar áhyggjur af undanþágum sem ráðherra hefur, jafnvel að veita mönnum undanþágur frá því að fara með fiskinn á tilboðsmarkað. Í öðru lagi er verið að reyna að treina gildistímann. Eins og allir vita er gengið lágt hjá okkur í dag og ótrúlega gott verð fæst fyrir fisk erlendis. Það munar um hvern mánuð sem útgerðarmenn hafa þennan möguleika á að flytja út fisk. Á sama tíma er mjög hátt verð fyrir unninn fisk þannig að það kemur í sama stað niður, við fáum jafnvel enn meiri verðmæti fyrir unninn fisk.

Auðvitað er einstaka útgerðar- og sjómanna sem fá hlut sinn út úr þessu freistað. Það er nú reyndar ekki svo með alla íslenska sjómenn að þeir fái hlut út úr hæsta fiskverði, bróðurparturinn af íslenskri sjómannastétt fær hlut sinn eftir svokölluðu verðlagsstofufiskverði. Þar er verið að tala um kannski þrisvar eða fjórum sinnum lægra verð en fæst á fiskmörkuðum erlendis.

Lágmarksverðið er stóra málið í þessu og ég get tekið undir orð hv. þm. Atla Gíslasonar um það. Ég hyggst koma með breytingartillögu fyrir 3. umr. og óska eftir því að þetta frumvarp fari aftur inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og tala nú fyrir áliti minni hluta um gámaútflutning á óunnum fiski.

Eðlilegt væri að lögin tækju gildi eigi síðar en 1. janúar. Tekin yrðu saman sérstök yfirlit frá Fiskistofu fyrir miðjan febrúar 2009 um hvernig til hefði tekist með það markmið að koma fiski, sem fyrirhugað var að selja á fiskmarkað erlendis, til sölu á innanlandsmarkaði. Tilgangur laganna væri einmitt sá að auka framboð á ferskfiski til innlendrar fiskvinnslu. Um þennan tilgang erum við öll sammála.

Til viðbótar segi ég: Til þess að ná því markmiði að gera innlenda fiskkaupendur jafnsetta þeim sem bjóða í fisk á erlendum ferskfiskmörkuðum væri eðlilegt að setja stýrireglu. Hún ætti að byggja á því að reynist ásett lágmarksverð eiganda fiskaflans þ.e. útgerðar, sem ávallt hefur verið eitthvað hærra en söluverð fisksins erlendis á erlendum ferskfiskmarkaði, verði yfir eins mánaðar tímabil óeðlilegt verði viðkomandi útgerð óheimilt að skrá lágmarksverð næstu tvo mánuði á eftir á sinn ferskfisk sem flytja á úr landi. Eigandi fisksins, þ.e. útgerðin, verður þar með að una því næstu tvo mánuði að sætta sig við hæstu verð sem berast í aflann eins og aðrir seljendur ferskfisks á ferskfiskmörkuðum. Undanþáguheimild ráðherra frá þessum skyldum ætti því að fella út úr frumvarpinu.

Lögunum er ætlað að auka atvinnumöguleika fiskvinnslufyrirtækja og fiskvinnslufólks. Ekki mun af veita eins og nú árar. Þau 56 þús. tonn af fiski sem flutt voru út óunnin á síðasta ári gætu aukið mikið atvinnu í fiskvinnslu og verðmæti útflutnings úr sjávarfangi ef þau væru unnin hér á landi.

Ferskfiskverð erlendis getur stundum gefið hærra verð. Fyrirkomulag lágmarksverðs sem tekur mið af hæsta verði erlendis ætti að tryggja að þeir markaðir sem gefa best verð séu nýttir, enda verðið stundum afar hátt t.d. um jól, áramót og páska. Sé sett of hátt lágmarksverð getur það orðið til þess að innlend tilboð nái ekki lágmarksverði útgerðar og fiskur fari þar með úr landi.

Þetta er inntakið í þeirri breytingartillögu sem ég hyggst leggja fyrir landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd hvað varðar þetta frumvarp fyrir 3. umr.

Það er neyðarástand á Íslandi og við þurfum, hæstv. forseti, að gera ýmsar breytingar frá því sem hefur verið varðandi kvóta og fiskveiðar sem og nýtingu og vinnslu á fiski. Ég er efins um að fyrir einu og hálfu ári síðan hefði ég lagt til að svona frumvarp yrði samþykkt vegna þess að í einstaka tilfellum má segja að það sé hægt að fá fisk með haus og sporði á hærra verði en fullunnar afurðir hér heima, eins og var æðioft á árum áður t.d. í ufsa og sérstaklega karfa. En nú er tíðin önnur. Við stöndum frammi fyrir því að í þessu neyðarástandi sem við búum við þurfum við að gera sem best, skapa sem mesta atvinnu og gefa sem flestum tækifæri til þess að koma að þessum málum.

Það þarf að skipta kökunni með öðrum hætti en hefur verið gert. Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til frumvarp um að innkalla allar veiðiheimildir, allar kvótabundnar tegundir, inn til ríkisins og láta síðan auðlindasjóð leigja út veiðiheimildirnar og skapa þannig tekjur fyrir þjóðarbúið. Við munum tala fyrir þessu frumvarpi við fyrsta tækifæri, við höfum ekki enn fengið tækifæri til þess, og það mun skýra betur hvað við viljum í þessum málum.

Við þurfum líka að bæta við kvóta í flestum tegundum. Núna horfum við upp á að sníkjudýr sem hefur verið að angra síldarstofninn okkar er kominn í ýsu. Ég hefði haldið að við þyrftum að bæta verulega við síldarkvótann hreinlega til að reyna að nýta þessi 30–40% sem eru að drepast í hafinu — þau er hægt að nýta í bræðslu — og minnka líkur á því að aðrar tegundir eins og ýsa, koli og jafnvel þorskur og ufsi smitist líkt og virðist vera að gerast með ýsuna.

Við þurfum líka að byrja hvalveiðar hér, stunda þær af miklum krafti og hafa af því gjaldeyristekjur og atvinnu. Það er talað um að það þurfi 200 manns til að vinna hvalafurðir til sjós og lands og þær muni gefa okkur verulegar gjaldeyristekjur.

Þegar menn tala um fiskverð á Íslandi — þ.e. fisk sem er fluttur út, 56 þús. tonn af óunnum fiski voru á síðasta ári flutt út á ferskfiskmarkaðina í Grimsby, Hull og Bremerhaven aðallega, þótt eitthvað af ferskum fiski hafi farið beint til Frakklands og jafnvel Belgíu — þá skiptir þetta verulega miklu máli. Við erum að tala um það sem jafngildir vinnu í að minnsta kosti fimm frystihúsum eins og því sem Grandi er með við Reykjavíkurhöfn, frystihús sem vinnur 10–12 þús. tonn á ári. Þetta skiptir verulegu máli þegar töluvert á annað hundruð manns vinnur í hverju frystihúsi. Af því að ég segi „það er neyðarástand“ þá þurfum við að vinna og haga okkur öðruvísi en við höfum gert á nánast öllum sviðum í íslenskum sjávarútvegi.

Við þurfum að bæta við í flestum tegundum og nýta betur allar veiðiheimildir sem við höfum. Við þurfum að skikka þá sem eru á frystiskipum til að koma með allt sem þeir veiða í land, hausa, beingarða og annað, því úr þessu öllu er hægt að gera mikil verðmæti. Auðvitað bitnar þetta þó á sjómönnunum og sumum öðrum en við verðum að horfa á þetta heildstætt og hugsa um allt og alla í þessu. Það er ekki nóg að hugsa um hvernig einstakir aðilar fara út úr þessu.

Númer eitt, tvö og þrjú þurfum við að stokka upp þetta fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum haft. Það er búið að sanna sig og er raunverulega upphafið á þeim hörmungum sem við erum lent í núna, útrásarhörmungum okkar, þ.e. þegar menn byrjuðu að selja og leigja kvóta og fara með hann inn á verðbréfamarkaði, kaupa hlutabréf bæði innan lands og erlendis og fara út í þá vitleysu alla sem er búin að setja þjóðfélagið á hausinn. Ef nefna á eitthvað eitt atriði sem er orsök fyrir því hvernig komið er fyrir okkar þjóð í dag er það að kvótinn var afhentur fáum útvöldum, þeim leyft að leigja hann, selja og veðsetja. Það er síðan búið að rústa sjávarbyggðum víða um landið og gera marga atvinnulausa. Það má ekki gleyma því, þótt við séum í krepputali þessa dagana og kreppuástandi hér og nú, að það er búin að vera mikil kreppa víða hringinn í kringum landið síðustu 10–15 árin. Hún hefur bara verið í einstaka sveitarfélögum um tíma. Sum sveitarfélög og sumt fólk er ekki búið að ná sér út úr þeirri kreppu sem leidd var yfir það með því að veiðiheimildir voru teknar af sjávarbyggðunum.

Enn og aftur vil ég taka fram að ég legg til að þetta frumvarp fari aftur í nefnd fyrir 3. umr. og ég mun koma með breytingartillögu sem mun auka líkur á því að útgerðarmenn misnoti ekki það að setja allt of hátt lágmarksverð sem enginn Íslendingur getur boðið í eða jafnað og sitji svo jafnvel uppi með að fá lægra verð en það lágmarksverð sem þeir setja. Fyrir almenning sem ekki áttar sig á málinu þá gildir þetta lágmarksverð fyrir íslenska fiskverkendur, íslenska fiskkaupendur sem vilja kaupa fiskinn en það er ekki hlustað á neitt lágmarksverð á mörkuðum úti í Grimsby og Hull. Þar er markaðslögmálið látið ráða ferð en ekki lágmarksverð.

Að lokum vil ég segja að allur fiskur á Íslandi ætti auðvitað að fara á fiskmarkað. Ég hef áður haldið ræðu hér í þinginu um hvaða ávinningur væri að því. Í fyrsta lagi væru tekjur útgerða meiri sem og tekjur sjómanna, útsvarstekjur sveitarfélaga og tekjur hafnarsjóða. Sveitarfélögin nytu auðvitað góðs af útsvarstekjunum og ríkið af skatttekjunum. Það er ótrúlegt fyrirkomulag, þegar við erum komin inn í 21. öldina, að við skulum búa við þetta kerfi, að einhverjir geti fengið miklu stærri bita af kökunni en þeim nokkurn tímann ber eins og þessir fáu útvöldu sem hafa fengið auðlindina afhenta.

Ég trúi ekki að þegar við förum að takast á við að byggja upp nýtt Ísland verði þetta ekki hluti af því sem við munum taka í gegn. Síðast en ekki síst út af því að núverandi fiskveiðistjórnarlög sem við vinnum eftir mismuna fólki hrikalega. Mannréttindi fólks eru brotin í tíma og ótíma. Þess vegna segi ég hiklaust að þetta er ein af grunnforsendum þess að við byggjum upp nýtt Ísland: að fiskveiðiheimildir verði innkallaðar til þjóðarinnar, þjóðin leigi þær út þeim sem treysta sér til að bjóða í þær og alvöruauðlindagjald verði tekið af þessu.

Okkur veitir ekkert af peningunum til þess að byggja upp okkar samfélag og halda því í lagi. Öryrkjar, aldraðir og heilbrigðisþjónustan þurfa á auknu fjármagni að halda og það getur komið í gegnum þetta kerfi sem við boðum. Við munum gera það í sérstöku frumvarpi sem við fáum væntanlega að tala fyrir mjög fljótlega.

Að lokum vil ég segja að fiskvinnsla án útgerðar sem þarf að kaupa allt sitt hráefni á hæsta verði hverju sinni þarf að tipla á tánum við að finna markaði í dag og leitar stanslaust að hæsta verði til þess að lifa af. Hún þarf að kaupa allt sitt á fiskmörkuðum á hæsta verði og selja út á hæsta verði. Mestur virðisaukinn í íslenskum sjávarútvegi í dag er af þessum fyrirtækjum og verður væntanlega áfram.

Sum stórfyrirtæki, sem hafa fengið kvótann gefins og geta veðsett hann, selt og leigt, undirbjóða þessi fiskvinnslufyrirtæki án útgerðar á erlendum mörkuðum víða. Þess vegna segi ég enn og aftur að við þurfum að stokka alla þessa hluti upp, þessi atriði sem ég hef lagt hér fram varðandi þetta frumvarp. Þó að ég hafi kannski aðeins farið út fyrir frumvarpið sjálft er þetta allt partur af sjávarútvegsumræðu sem við þurfum að huga betur að nú en kannski nokkru sinni áður vegna þess að nú er virkilega þörf á að nýta allt sem mögulegt er úr hafinu.