136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

háhraðanetþjónusta.

164. mál
[14:54]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegur forseti. Bara til að hafa allt á hreinu, þá þvælist ekkert fyrir þessum ráðherra hvað varðar þetta mikilvæga verkefni annað en að lægsta tilboðið var mjög gott og ekki þarf að gera lítið úr því þó að kostnaðaráætlunin hafi verið há. Það er fyrirtækjanna hvernig þau ætla að byggja upp landskerfi sitt og hvað þau vilja gera utan þess með styrk frá Fjarskiptasjóði, það er þeirra mál. Mjög miklu munaði á þessu tilboði og því sem kom næst og þess vegna er mjög mikið keppikefli að tilboðið haldi og við komum verkinu í gang á þessari tölu.

Við skulum ekki efast neitt um, eins og ég sagði áðan, að eitthvað drasl sé í tilboðinu. Ekki er gengið neitt á gæði, tilboðið er mjög gott. En þeir sem gera tilboðin ráða því hvernig þeir reikna þau út, við efumst ekki um það. Það er fyrst og fremst þessi brestur í þjóðfélaginu sem gerðist og gerir að verkum að þetta hefur þurft að framlengja af ýmsum ástæðum. Ég gat um nokkur möguleg atriði áðan, eins og hátt gengi, bankaviðskipti gengu brösuglega á milli landa og fyrirtæki úti vantreystu íslenskum fyrirtækjum, án þess að ég fullyrði að það hafi verið þannig.

Þetta er aðalatriðið, virðulegi forseti, og tilboðin voru opnuð 4. september. Þetta tilboð vakir og vonandi tekst að halda lífi í því. Ég hef ekki áhyggjur af tilboðinu eða tækninni sem boðin er, það er allt saman flott og fínt, gott fyrirtæki sem býður þetta, það er eingöngu ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar, en ég er sammála því að margir bíða eftir þessari nettengingu og vonandi kemst hún sem fyrst í gang.