136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

skipun sérstaks saksóknara og álag á dómstóla.

[10:53]
Horfa

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að auðvitað þarf að huga að fjármálum dómstólanna og vafalaust verður það gert við afgreiðslu fjárlaga sem nú fer fram í næstu viku en eins og við vitum er áherslan í því efni á þann veg að spara frekar en auka útgjöld en dómstólarnir hafa þar sérstöðu innan stjórnkerfis okkar sem ber að virða.

Ég vil líka minna á það þegar við erum að ræða um dómstólana þá liggur fyrir hugmynd, fullmótuð hugmynd um að hér verði komið á laggirnar nýju dómstigi, dómstigi sem yrði kennt við landsyfirrétt og það er líka hægt að taka þær tillögur og leggja þær fyrir þingið og koma á slíku dómstigi sem mundi auðvelda meðferð sakamála sérstaklega.