136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:23]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka upp þetta mikla mál. Það hefði verið ágætt að hafa talsvert lengri tíma til þess að svara því að málið er býsna flókið og það er talsvert mikill misskilningur í umræðunni um eðli þess.

Ég ætla að byrja umræðuna á því að vitna hérna í fína grein sem er í Morgunblaðinu í dag eftir Grétu Mjöll Bjarnadóttur. Hún heitir „Smjörklípan um peningamarkaðssjóðina.“ Gréta segir, með leyfi forseta:

„Staðreyndir eftir því sem næst verður komist eru eftirfarandi:

Innstæðueigendur peningamarkaðssjóða áttu í þeim u.þ.b. 250 milljarða þegar þeim var lokað. Að meðaltali voru innstæðueigendum greidd 80% af inneign sinni þegar sjóðunum var slitið. Í heild gerir það 200 milljarða og þaðan hygg ég að hin ódauðlega tala eigi uppruna sinn. Eignir sjóðanna voru sem hér segir (í grófum dráttum og í heild): 40% innlán þ.e. ca. 90–100 milljarðar. Stutt skuldabréf fyrirtækja með lánshæfismat og mögulega stutt skráð skuldabréf stöndugra fyrirtækja ca. 30%. Flest þessara fyrirtækja eru enn á lífi og greiða af sínum skuldum. Samtals gera þessir liðir um 70% af heildareign …“

Þannig rekur hún hvernig sjóðirnir eru samsettir og það er kjarni málsins, þ.e. að sjóðirnir eru þannig til komnir og þess vegna slitu bankarnir með þeim hætti.

Fjármálaeftirlitið birti tilmæli á sínum tíma um slit peningamarkaðssjóða þar sem mælst var til að lausu fé og skuldabréfum yrði breytt í innlán en aðrar eignir greiddar út sem innlán eftir því sem kröfur yrðu innheimtar. Málefni sjóðanna eru vandmeðfarin. Miklir hagsmunir margra einstaklinga, fyrirtækja og samtaka liggja þarna undir og hafa auk þess margar hliðar sem er nauðsynlegt að skoða í þessu samhengi. Sjóðirnir eru sparnaðarform sem almennt var talið og kynnt sem öruggt sparnaðarform. Í hugum margra var þessi sparnaðarleið jafnvel talin jafnörugg og almenn innlán. Sannleikurinn er þó sá að sjóðirnir eru verðbréfasjóðir þó að fjárfestingarstefna þeirra eigi að vera íhaldssöm og tryggja örugga og stöðuga ávöxtun.

Í ljós hefur komið að sjóðirnir voru varðir fyrir alvarlegu greiðslufalli bankanna og stórfyrirtækja sem selt höfðu sjóðunum bréf. Engu að síður var stór hluti verðbréfasjóðanna mikils virði og því hefur þeim tekist að greiða stóran hluta þess fjár sem fjárfestar og heimili settu þar inn. Í langflestum tilfellum hafa eigendur sjóðanna flýtt fyrir útgreiðslu úr þeim með því að kaupa úr þeim verðbréf. Samt sem áður sitja margir eigendur hlutdeildarskírteina eftir með tap og bera því jafnvel við að þeim hafi verið veittar rangar upplýsingar um eðli sparnaðarins þegar þeir fóru inn í hann.

Hafi einhverjum verið seld hlutdeildarskírteini sjóðanna með fullvissu um að þau séu jafntrygg sparnaði eða almennu innláni er klárlega um að ræða óréttmæta viðskiptahætti. Rétt er að benda þeim sem svo er ástatt um að leita til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Annar flötur þessa sama máls og tilefni þessarar umræðu er staða fjármálafyrirtækja sem sökum smæðar hafa ekki haft burði til að kaupa verðbréf af sjóðum sínum líkt og stærri fjármálastofnanirnar gerðu eftir fall bankanna. Í raun virðist aðeins eitt fyrirtæki, Íslensk verðbréf á Akureyri, sem þannig er ástatt um í dag og sparisjóðirnir hafa allir gert upp sína sjóði, sumir miklu hærra en ríkisbankarnir þó að ríkisaðkoma að því hafi engin verið. (BJJ: Og verður engin?) Nei, hún verður engin. Hefði verið eðlilegra að ríkisbankarnir þrír hefðu gætt jafnræðis og keypt eignir úr öllum peningamarkaðssjóðum innlendra fjármálastofnana? Ríkisbankar eru fyrirtæki sem starfa á markaði og hljóta því að hafa sjálfsvald um hverja þeir eiga viðskipti við. Hið sama á auðvitað við um önnur fjármálafyrirtæki eins og sparisjóðina sem hafa farið sömu leið og bankarnir.

Hversu háu hlutfalli af eigin fé bankanna þriggja var varið til kaupa á peningamarkaðssjóðunum? Kaupin voru fjármögnuð með innlánum í bönkunum sjálfum — og það er lykilatriði — sem er skuldaliður á reikningum þeirra en ekki þáttur í eigin fé. Þar sem eignir koma á móti auknum skuldum eru áhrifin á eiginfjárhlutfall líka óveruleg og kalla því ekki á sérstakt eiginfjárframlag. Þar sem bankarnir keyptu nær eingöngu eignir í sínum sjóðum er ekki ljóst að reglur um sjálfstæði hafi verið virtar, segir þingmaðurinn. Ekki er hægt að fullyrða neitt um slíkt, rekstrarfélög sjóðanna eru sjálfstæð félög þó að þau séu í eigu bankanna. Mér er kunnugt um að í öllum tilfellum hafi utanaðkomandi aðili verið fenginn til að meta verðbréf sjóðanna áður en uppgjörið fór fram. Það dregur a.m.k. úr þeim viðhorfum að tengsl hafi verið á milli aðila sem valdið hafi því að verð hafi orðið of hátt. Bankarnir gera að sjálfsögðu grein fyrir því.

Voru kaup á bréfum peningamarkaðssjóðanna tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins? Þau eru eftirlitsskyld og því var það gert.

Var haft samráð við minni fyrirtækin? Eins og fram hefur komið hafði aðstoðarmaður minn samband við rekstrarfélög stóru bankanna þegar ljóst var að þau hefðu ákveðið að leysa sjóðina upp í reiðufé og hvatti þau til að gæta jafnræðis og tryggja að allar viðskiptaákvarðanir stæðust skoðun. Þingmaðurinn kallaði fram í og spurði hvort ríkið kæmi að uppgjöri á sjóðum sparisjóðanna. Ég svaraði því nei, af því að þeir hafa þegar gert þá sjóði upp.

Hvað varðar þau fyrirtæki sem standa eftir. Að einhverju leyti gæti lausnin falist í því að stóru bankarnir tækju þátt í fjármögnun á kaupum rekstraraðila annarra sjóða úr verðbréfum úr sínum sjóðum og slíkt ætti að ganga langt í því að bæta þann aðstöðumun sem er á milli stærri og smærri fjármálafyrirtækja við að veita viðskiptavinum sínum. Það er allt til þess vinnandi að leita leiða í þessu máli (Forseti hringir.) þó að það sé mjög flókið fyrir ríkið að koma að því.