136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef setið og fylgst með þessari umræðu og velti aðeins fyrir mér aðstandendum þessa frumvarps. Hér í salnum er að vísu hv. þm. Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, og er það vel. Sömuleiðis kom til leiks hæstv. umhverfisráðherra skömmu eftir að hæstv. félagsmálaráðherra gekk á braut en aðra ráðherra eða ábyrgðarmenn þessa frumvarps hef ég ekki séð plaga mikið setu á bekkjum. Það hefði verið fróðlegt að eiga orðastað við t.d. formenn stjórnarflokkanna og/eða eftir atvikum hæstv. fjármálaráðherra, m.a. af því að ég er svolítið að velta því fyrir mér hvernig sé með þetta frumvarp, eða hálfdrætting að fjárlagafrumvarpi, sem hér er komið á okkar borð og eins með þessa ríkisstjórn. Ég velti því fyrir mér hvers konar ríkisstjórn er í landinu nú um þessar mundir, hvort þetta sé einhver biðstjórn fram að landsfundi Sjálfstæðisflokksins í lok janúar.

Framsögumenn meiri hlutans hafa að vísu haft allmikla fyrirvara á máli sínu, eins og síðasti hv. ræðumaður sem tók held ég milli 10 og 20 sinnum fram að mjög mikið af þessu þyrfti að endurskoða í fyrsta lagi fyrir 3. umr. og síðan aftur strax á nýju ári. Það er vel. Menn eru þá ekki að þykjast með að hér er lagt fram plagg sem ábyggilega á eftir að teljast einstakt í þingsögunni eða svo til, af því að það er að stofninum til nýtt fjárlagafrumvarp þótt vanti um það bil helminginn á það og í því séu stór göt. Þá veltir maður því fyrir sér, herra forseti, hvort ekki sé nánast verið að fara á svig við þingsköpin sem gera ráð fyrir að fjárlagafrumvarp fari í gegnum þrjár umræður. Fyrsta frumvarpið sem birtist í haust er ónýtt, það er búið að henda því enda minnist enginn maður á það.

Þetta frumvarp er frá ríkisstjórninni og framsögumenn meiri hluta fjárlaganefndar taka skýrt fram að í raun og veru eru þeir pósthólf fyrir niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar inn í þingið. Þeir fengu tillögurnar sl. fimmtudag. Þá stefnir sennilega í að fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2009 fari í gegnum eina og hálfa umræðu í staðinn fyrir þrjár. Þessa hálfu umræðu sem verður núna þar sem öllum óvissuatriðum er vísað inn í 3. umræðu og síðan þá þriðju, því það er tæplega hægt að telja með 1. umræðuna um gerónýtt plagg frá því í haust sem allir eru búnir að gleyma. Er ekki dálítið óvandað að ríkisstjórnin skyldi þá ekki vinna nýtt frumvarp og leggja fram nýtt frumvarp með nýju númeri sem gæti farið í gegnum þrjár umræður og fengið eðlilega skoðun?

Mér finnst reyndar að meiri hluti fjárlaganefndar eigi hrós skilið fyrir að vera ekki að þykjast í þessum efnum, reyna ekki að láta líta svo út sem þeir hafi sett þetta í sjálfstæða skoðun. Ég varð að vísu dálítið spenntur þegar ég sá nefndarálitið. Það er nokkuð þykkt en þegar ég fletti því yfir á annað blað sá ég að það endar þar. Nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar er tæplega ein blaðsíða. Restin er einhver fylgigögn, álit fagnefndanna og síðan heilmikil sundurliðun eða útskýring á niðurskurðartillögum sem komu frá ríkisstjórninni sl. fimmtudag. Svona er málið vaxið í grófum dráttum, ekki satt?

Þá leyfi ég mér að segja: Þetta er varla marktæk umræða. Auðvitað getur Alþingi látið sig hafa þetta ef því býður svo við að horfa en mér finnst ekki mikill svipur á þessu. Menn geta heldur ekki skýlt sér á bak við efnahagsáföll eða breyttar forsendur hvað varðar að reyna ekki eftir sem áður að vanda vinnubrögð. Einhverjir mundu segja hið gagnstæða. Þá er nauðsyn sem aldrei fyrr að skoða eins vel og við mögulega getum hvernig er hægt á sem sársaukaminnstan hátt að takast á við þetta, forgangsraða og verja það mikilvægasta. Er það gert á örfáum sólarhringum í hálfgerðri málamyndaumræðu? Ég efast um það. Ég er farinn að hallast að þeirri skoðun, eftir að hafa skoðað það sem fyrir liggur af gögnum og hlustað hér á umræður, að það sé hið mesta óráð að setja þetta ekki í miklu vandaðri vinnu. Ekki víst að árið mundi duga til, þ.e. þá ætti að afgreiða fjárheimildir um áramótin og halda áfram skoðun fjárlagafrumvarpsins á nýju ári þannig að við gætum kannski um 20. janúar verið komin með nokkurn veginn fullburðuga vinnu í þessum efnum. Verður óvissan þó örugglega næg samt þótt menn reyndu að fara í þetta einhvern veginn svona.

Ekki bætir úr skák ef ríkisstjórnin situr sem einhvers konar bráðabirgðastjórn þar til ljóst verður hvort hún lifir af landsfund Sjálfstæðisflokksins. Þau óvæntu tíðindi hafa nú gerst að formaður stjórnarflokks, formaður Samfylkingarinnar, hefur stillt samstarfsflokknum upp við vegg og sagt að ef hann geri ekki svo vel og leggist á hliðina eða kviðinn í Evrópumálunum sé stjórnin búin og þá eigi að kjósa. Þá á allt í einu að nota lýðræðið. Það hlýtur að teljast dálítil óvissa um hvort Sjálfstæðisflokkurinn lýtur þessum afarkostum eða hvort vænta má þess að stjórnarslit verði í lok næsta mánaðar.

Það er reyndar mjög athyglisvert að Samfylkingin setur þetta fyrir sig sem stjórnarslitaefni. Einhverjum hefði dottið í hug að jafnaðarmannaflokkur, sem svo kallar sig, hefði frekar uppi stjórnarslitahótanir vegna þess sem hér er á dagskrá þegar skera á niður velferðarútgjöld og þjarma að samneyslunni í landinu þannig að önnur dæmi slíks eru engin á seinni árum, hygg ég. Nei, Samfylkingin hótar ekki að ef ekki verði reynt að standa betur vörð um velferðarsamfélagið megi stjórnin missa sig. Það er ekki af hræðslu við að almenningur í landinu missi húsin sín þúsundum saman á næstu mánuðum sem Samfylkingin hótar stjórnarslitum. Það er ekki af ótta við að hér verði mikið atvinnuleysi, m.a. vegna þess að menn dýpki kreppuna með vanhugsuðum ráðum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem Samfylkingin hótar stjórnarslitum. Nei. Ef ekki er hægt að leggja drög að því að við komumst inn í Evrópusambandið eftir nokkur ár, þá gæti farið að hrikta í að mati Samfylkingarinnar, það er forgangsverkefni í íslenskum stjórnmálum að mati þess flokks. Þetta er umhugsunarefni, virðulegi forseti.

Lítill endir ætlar að verða á hremmingum okkar og margra fleiri sem leiðir af þessu hruni nýfrjálshyggjukapítalismans. Fréttirnar í gær og í dag voru ískyggilegar, t.d. frá evrópskum bönkum um nýjasta hneykslið, nýjasta áfallið, þar sem bankar og fjármálastofnanir, ekki síst í Evrópu, standa frammi fyrir að tapa stórfé á svikamyllu yfirmanns eins stærsta verðbréfamarkaðar í heiminum. Madoff mun hann heita, þessi höfðingi á Nasdaq sem setti þar upp svikamyllu og þar af leiðandi á evrópskt fjármálakerfi í vændum milljarðatuga bandaríkjadala tap. Meira að segja tölurnar sem að Íslendingum snúa um þessar mundir verða næstum því litlar séu þær settar í samhengi við tap stærstu spænsku, frönsku, skosku og þýsku bankanna. Með öðrum orðum, þetta er býsna rotið kerfi sem leikur heimsbyggðina grátt, þetta móverk sem menn mærðu hér og göptu upp á. Það hét að vera framsýnn, trúa á framtíðina og vera ekki íhaldssamur eða afturhaldssamur að falla fram og lúta þessu. (Gripið fram í.) Já og allt það. Svona er þetta nú samt og maður spyr sig: Ætla þessi ósköp engan endi að taka, hvort sem er heima fyrir eða erlendis?

Okkar málum er þannig komið og ríkisstjórn landsins spilaði þannig okkar spilum að menn skriðu á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Röksemdirnar voru að ekkert annað væri hægt. Það voru ekki færð mikil rök fyrir því að þetta prógramm væri í sjálfu sér svo álitlegt eða þetta væri efnilegur leiðangur sem Ísland færi í með því að gefast upp í Icesave-deilunni til að koma lánsumsókninni fyrir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Nei, það var ekkert annað hægt. Það hefur alltaf slegið mig illa, burt séð frá viðhorfum mínum til innihalds mála, þegar menn grípa til nauðhyggjuröksemda og telja sig þar með ekki þurfa frekari vitna við, þetta sé bara svona og það verði bara að gera þetta svona. Þess vegna fór maður að spyrja sig strax í októbermánuði og nóvembermánuði: Verðum við ekki að reyna að átta okkur á því hvað þetta þýðir í heild sinni og hvort það borgi sig að leggja af stað með Ísland í þennan leiðangur? Eigum við ekki fyrst að átta okkur á því hvort horfurnar séu yfir höfuð þannig að einhver leið sé fær út úr þessu og í gegnum þetta, ef við ætlum að treysta á þessa áætlun og samstarfsaðila við að koma okkur út úr erfiðleikunum?

Ég varaði við því strax frá fyrsta degi þegar umsóknin var send inn að menn gætu verið að gangast inn á hluti sem ættu ekki endilega eftir að reynast gæfulegir. Þá óttaðist ég auðvitað mest það sem síðar kom á daginn að menn mundu gefast upp í deilunum um ólánsreikningana miklu á meginlandi Evrópu. Það varð þvert á allar yfirlýsingar og heitstrengingar um annað. Ég óttaðist líka mjög mikið það sem aðrar þjóðir sem hafa lent á klafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa lært, að það kynni að verða okkur býsna erfitt að ætla að fylgja því prógrammi og þeirri hugmyndafræði burt séð frá öllu öðru. Hvað ætli komi hér á daginn? Að þetta hálfa frumvarp er ekki frá meiri hluta fjárlaganefndar og ekki frá ríkisstjórninni heldur er það í grunninn og botninn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er þannig. Þaðan eru skilmálarnir ættaðir á hverra forsendum niðurskurðurinn er framkvæmdur þótt menn reyni að þvo það af sér. Datt mönnum kannski sjálfum í hug það sem starfsmannaskýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er ein til heimilda um, nákvæmlega hvernig þetta er útfært?

Hin nýja biblía Íslands er ekki fjárlagafrumvarpið, ekki einhver spá frá fjármálaráðuneytinu eða efnahagstíðindi frá Seðlabankanum. Nei, það er starfsmannaskýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hana þurfa þeir að lesa sem ætla að tjá sig um ríkisfjármál og efnahagshorfur á Íslandi í dag. Þar er boðskapinn að finna. Í hana er vitnað þegar spurt er í þingnefndum eða annars staðar: Hvar er reynt að hafa heildaryfirsýn? Hverjir hafa skoðað þetta? Hvar eru útreikningarnir? Hvar er matið á greiðslugetu þjóðarbúsins? Fátt verður um svör og að lokum er ekkert annað hægt en að vísa í starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Svona hefur þetta verið undanfarna sólarhringa þar sem ég hef verið á fundum í utanríkismálanefnd, viðskiptanefnd og víðar.

Ég tel mig hafa rakið til enda að nákvæmlega þannig er þetta. Íslenska stjórnkerfið virðist ekki burðugra en svo að það hefur gefist upp og ekkert sjálfstætt íslenskt mat hefur farið fram á því hverjar horfurnar eru fyrir okkur í framtíðinni. Ef mér yfirsést eitthvað yrði ég þakklátur fyrir að vera bent á það. Það er alla vega ekki í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar upp á tæpa eina blaðsíðu. Svo mikið er víst.

Það er mjög fróðlegt, virðulegi forseti, að fara betur yfir þessa starfsmannaskýrslu og ég ætla að eyða svolitlum tíma í það. Því miður er hún á ensku og hefur ekki verið íslenskuð að því ég best veit, sjálfsagt hefur ekki verið gerð tilraun til þess. Þess vegna er umhendis að vitna í hana og mér leiðist alltaf að lesa upp erlend mál. Ef við byrjum á samantektinni fremst í skýrslunni er þar á bæ ekkert skafið utan af því hvað sé í vændum fyrir íslenskt hagkerfi, í því sem heitir „executive summary“. Þar er talað um djúpa efnahagslægð, „deep recession“, að heildarskuldir muni vaxa hratt, „sharp rise in physical debt“, eigum við ekki að segja að heildarskuldir munu aukast hratt. Það er talað um dramatíska aukningu í opinberum skuldum. Hvernig mundum við þýða það? Stórfelld, hrikaleg aukning opinberra skulda. Þetta endurspegli hinn mikla kostnað við að endurskipuleggja bankakerfið og fjármálakerfið. Það er komið inn á að greiðslumiðlunarkerfið milli Íslands og annarra landa, þ.e. gjaldeyrismarkaðurinn og greiðslumiðlunin, hafi því sem næst hrunið, „virtual collapse“, og það skapi mikla og bráða hættu fyrir efnahagslífið haft í huga hversu háð Ísland er innflutningi og útflutningi. Síðan er farið yfir aðgerðaáætlunina, upp á hvað hún hljóði. Þá er sagt að fyrri hluti lánsins sem kominn er upp á 560 millj. SDR, honum eigi að fylgja átta inngreiðslur upp á 105 millj. hver, en það sé háð ársfjórðungslegum endurskoðunarskilmálum. Það er skilyrt fé sem í vændum er. Fróðlegt væri að heyra fjárlaganefndarmenn fara yfir þetta. Hafa þeir kafað ofan í þessi ársfjórðungslegu skilyrði og þökin sem þarna á að setja? (Gripið fram í.) Er búið að greina það í fjárlaganefnd?

Mér segir svo hugur miðað við þau gögn sem ég hef barið út í gegnum veru mína í utanríkismálanefnd að lítið muni fara fyrir sjálfstæðinu þegar þeir mæta á ársfjórðungsfresti og fylgjast með því að menn hafi skorið niður eins og til stóð áður en næsta innborgun verði send. Með öðrum orðum, þetta er skilyrt fé, skilyrt því að menn makki rétt í samræmi við skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Síðan er þessu skipt upp eins og menn þekkja á árið sem í hönd fer, árið 2009, og gert mikið úr því að þar ætli menn að nota sveiflujöfnunargetu ríkissjóðs að verulegu leyti en þó er nokkuð undandregið í því þegar betur er að gáð. En hins vegar er sagt að hinir ströngu skilmálar komi að fullu inn strax á árinu 2010 þannig að svo erfið sem mönnum kunna að þykja þessi fjárlög og niðurskurðurinn hér, hvað er þá í vændum 2010? Vilja talsmenn ríkisstjórnarflokkanna ekki segja okkur eitthvað um það miðað við það sem hér gefur að lesa í biblíunni sjálfri, starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?

Ég staldra næst við á bls. 9 í skýrslunni. Þar er sérstakur reitur, nr. 3, sem ber hið sérstaka heiti: — einhverjum finnst þetta kannski gamansemi — „The Perfect Storm“. Hvað er verið að fjalla um þar, virðulegi forseti, í hinu fullkomna óveðri efnahagsmála sem er að skella á Íslandi? Það er verið að fjalla um hin fimmþættu áföll sem Íslendingar eigi í vændum, íslensk heimili, íslenskur almenningur.

Hver eru hin fimmþættu áföll? Það er í fyrsta lagi gengisáfallið, þ.e. áfallið sem skellur á íslenskum heimilum og íslenskum fyrirtækjum vegna gengishrunsins. Það er í öðru lagi verðbólguáfallið, þ.e. áfallið sem íslensk heimili og íslensk fyrirtæki verða fyrir vegna verðbólgunnar sem er um 20% um þessar mundir. Það er í þriðja lagi eignahrunið, „asset shock“ og það skýrist m.a. af því að 80% af íslenska verðbréfamarkaðnum er horfið. Hann er orðinn að ekki neinu. Hann er reyndar orðinn enn minni núna, kannski kominn niður í 10% af því sem hann var og það er vegna þess að það er reiknað með því að verðmæti íbúðarhúsnæðis lækki a.m.k. um fjórðung. Það er þriðja áfallið, eignahrunið.

Fjórða áfallið er „income and employment shock“, þ.e. tekju- og atvinnuhrunið. Í fimmta lagi, sem lítið hefur verið talað um, er viðskiptabankaþjónustuáfallið, þ.e. sú staðreynd að viðskiptabankaþjónusta er tæpast til staðar á Íslandi í dag nema rétt til að skutla launagreiðslunum í gegnum reikning og til manna aftur. Það er nánast engin fyrirgreiðsla í því formi að menn geti fengið rekstrarfé eða úrlausn mála af því tagi og auðvitað snýr þetta sérstaklega að atvinnulífinu og fyrirtækjunum.

Sem sagt, „hið fullkomna óveður í íslenska efnahagslífinu“, sem hinir gamansömu starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem samið hafa hina nýju biblíu íslenskra fjármála, ríkisfjármála og efnahagsmála og kalla því nafni, það er listað svona. Þarna eru yfirlit yfir skuldir bæði íslenskra fyrirtækja og íslenskra heimila og þar stendur það náttúrlega upp úr að Ísland er að þessu leyti langskuldugasta hagkerfi OECD, í árslok 2007 með 308% af þjóðartekjum í skuldir fyrirtækja og 103% af þjóðartekjum í skuldir heimila sem í lok þess árs eða miðað við ráðstöfunartekjur ársins á undan, þ.e. 2006, voru 225% af ráðstöfunartekjum. Þetta eru máttarstoðirnar sem nú eru komnar inn í þetta umhverfi sem við erum að ræða. Það eru þessi skuldugu heimili og þetta skulduga atvinnulíf. Það er vert fyrir menn að hafa það í huga.

En víkjum aftur að forsendum fjárlagafrumvarps starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hér er ranglega ýmist feðrað eða mæðrað ríkisstjórninni eða meiri hluta fjárlaganefndar sem hvorugt er rétt. Það er sagt að í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2009 eigi að nota sjálfvirka sveiflujöfnun ríkisfjármála til fulls á árinu 2009. Þá mætti ætla að það þýddi að menn ætluðu ekki að gera sér sérstaka rellu út af því hvort hallinn á fjárlögum yrði einhverjum milljörðum meiri eða minni ef innstæður væru fyrir þeirri fullyrðingu en það eru ekki innstæður fyrir henni. Þegar betur er að gáð kemur annað hugtak til sögunnar, það er svokallaður hagsveifluleiðréttur frumjöfnuður og hann á að taka niður frá þeim slaka sem hugsaður var miðað við hagsveifluna í fjárlagafrumvarpi haustsins úr 2,7% af landsframleiðslu niður í 0,25%. Þar skýrist niðurskurðurinn. Það er ekkert um hann í sameiginlegri viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þetta er ekki stafað út þar, í hinni sameiginlegu yfirlýsingu sem fylgdi með þingsályktunartillögunni um lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þeir rituðu undir höfðingjarnir Davíð Oddsson og Árni Mathiesen, hæstv. fjármálaráðherra. Nei, hvar skyldi þetta vera að finna? Þetta er að finna í starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þar kemur það fram. Þar skal taka þessa framvirku sveiflujöfnun, slakann sem menn í öðru orðinu þóttust ætla að leyfa á ríkisfjármálum á þessu ári og taka síðan niður árið 2010 en þar skal taka hann svona niður og af því skýrist auðvitað niðurskurðurinn samkvæmt beinum fyrirmælum úr starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hér eru á ferðinni fjárlög sem eru algerlega samkvæmt forskrift úr skýrslu starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ef orðalag hinnar sameiginlegu viljayfirlýsingar ríkisstjórnarinnar væri notað þá hefði mátt ætla að í þessum efnum hefðu menn haft fullt sjálfdæmi um að hafa slakann í hinum opinbera búskap á árinu 2009 eins og mönnum þætti best henta miðað við samfélagið og undirstöðurnar en svo er ekki þegar betur er að gáð.

Þá skulum við aðeins velta fyrir okkur aftur hvað verði á í vændum á árinu 2010. Eigum við þá ekki bara að horfast í augu við veruleikann allan? Því árið 2010 mun renna upp. Hér sagði að vísu varaformaður fjárlaganefndar að það ætti að skera meira niður. Kannski er hann að vísa til þeirrar framtíðar að það sé enn verra í vændum. Það er þá heiðarlegt að viðurkenna það og ég hallast að því að svo sé og í raun og veru því það er engin leið að lesa í gegnum þetta öðruvísi en komast að nákvæmlega þeirri niðurstöðu.

Ég staldra örlítið við kaflann í kjaramálum sem er á bls. 14 í starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er sjálfsagt öllum ljóst að því hefur verið lofað eða gefið sterklega í skyn við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að það liggi í raun og veru fyrir vilyrði fyrir því að semja um stórfellda kjaraskerðingu á næsta ári umfram þá sem orðin er. Þar er talað um að fyrirliggjandi vísbendingar séu þær að aðilar vinnumarkaðarins „social partners“, munu semja um kjör í landinu með hliðsjón af þessu prógrammi. Hvaðan eru þessar fullyrðingar ættaðar? Er það með umboði frá forustumönnum launamanna í landinu að þetta ratar inn í skýrslu starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, orðalag af þessu tagi? Stóð kannski til að sauma þetta saman fyrir áramót eins og einhverjum datt í hug þannig að pakkinn væri allur klár og kjaraskerðingin komin líka upp á borðið?

Að síðustu og þó ekki síst, virðulegi forseti, reynir maður auðvitað að velta því fyrir sér, hverjar eru líkurnar á því að Ísland ráði við greiðslubyrði af öllum þessum erlendu skuldum sem á að hlaða á landið. Ég hef marglýst eftir því að reynt væri að setja það skema upp, vaxtabyrðina og síðan afborganirnar þegar þær fóru að falla til miðað við þær forsendur sem menn geta gefið sér í dag. Að sjálfsögðu er margt á reiki í þeim efnum og lánskjör og annað liggur ekki endilega fyrir og menn geta þá gert sér bestu dæmi og lakari dæmi og reynt að skoða þetta eitthvað en það er í raun og veru ævintýralegt að enginn aðili innan stjórnkerfisins, ekki fjármálaráðuneytið, ekki Seðlabankinn, ekki forsætisráðuneytið sem fer með efnahagsmál, ekki Þjóðhagsstofnun af því að það er búið að leggja hana niður, skuli hafa reynt að stilla þessu upp. Ætli sá innlendi aðili, kannski fyrir utan ræðumann sem helst hefur reynt að eiga við þetta, sé þá ekki Morgunblaðið sem í tvígang eða þrígang reyndi að setja þetta upp í töflur og vaxtareikna o.s.frv.?

Þegar maður les skýrslu starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sér maður á löngu færi að þar á bæ eru menn sér meðvitaðir um að það má ekkert út af bera til þess að Ísland ráði við greiðslubyrðina af þessu. Þeir segja t.d. að greiðslubyrðin verði svo þung og vegna þess hversu gengismálin verða afdrifarík í þessu, að ef gengi krónunnar veiktist um 30% í viðbót séu skuldirnar augljóslega orðnar það sem kallað er „unsustainable“, þá ræður þjóðarbúið ekki við þetta. Hvað þýðir það á mannamáli? Þá förum við á hausinn, komumst í greiðsluþrot. Ég hvet menn til að lesa viðauka III á bls. 55, þar sem talað er um þetta sem mér finnst vont orðalag og sérstaklega þegar menn þýða það yfir á íslensku sem sjálfbærni skulda. Við skulum kalla þetta bara greiðslugetu, hver er greiðslugeta þjóðarbúsins gagnvart annars vegar erlendum skuldum og hins vegar heildarskuldum, eins og hér er sett upp?

Hér er að finna athyglisvert orðalag þegar fjallað er um vöxt bankakerfisins og vikið að því hversu gríðarlegar erlendar skuldir þjóðarbúsins jukust fram að þessu hruni og til og með ársloka 2007, þegar þær höfðu náð í 551% af þjóðartekjum. Það var ekki talað hátt um það á árinu 2007, sérstaklega ekki fyrir kosningar, ef ég man rétt. Eitthvað var einn og einn maður að benda á að það væri kannski dálítið hættulegt hvernig skuldirnar hefðu hlaðist upp en þetta var kraftaverk og undur hve allt var í góðu ástandi á Íslandi þá, góðærið, munið þið það ekki? Það var ekki fyrr en undir haustið 2007 að einn og einn maður fór að draga aðeins úr góðærishjalinu. En í skýrslunni segir, með leyfi forseta: „The external debt of the banking sector had risen at an astronomical pace.“ Ég hef ekki oft áður séð það í erlendum skýrslum um efnahagsmál að menn tali um stjarnfræðilega aukningu erlendra skulda en auðvitað var þetta það. Auðvitað var þetta stjarnfræðileg geðveiki sem hér var í gangi og það mátti hver einasti hugsandi maður sem lagði sig eftir því þótt ekki væri nema dagpart að skoða helstu kennitölur og helstu mæla, sjá að þetta var að fara í skelfilegar ógöngur, hvað kom á daginn. Og þarna í viðaukum og ítargögnum í hinni nýju biblíu okkar, ekki í trúarlegum skilningi að sjálfsögðu, er að finna ýmsar mjög hrollvekjandi upplýsingar satt best að segja. Um þetta ætti auðvitað að fjalla nú í fjárlagaumræðunni. Um þetta ættu að vera töflur. Um þetta ættu að vera einhverjar áætlanir, einhverjar tilraunir af okkar hálfu til að átta okkur á þessu en það er það ekki. Þessi umræða er því niðurlægjandi á allan hátt fyrir Alþingi Íslendinga, fyrir stjórnkerfið og fyrir okkur öll sem þjóð, að þessum ósköpum skuli vera svona komið.

Hvað segir þetta okkur líka um annan þátt málsins, herra forseti? Þetta segir okkur að ríkisstjórn landsins hefur ekkert prógramm, ekki neitt, það er ekki til. Það eru tvö lítil minnisblöð, tólf spora minnisblaðið og eitt annað sem ekkert er í, ekki neitt þegar betur er að gáð. Er eitthvað í þessum fjárlagatillögum um það hvernig menn ætla að reyna að snúa einhvers staðar vörn í sókn, skapa einhvers staðar aukin verðmæti, setja einhvers staðar einhverja fjármuni, þótt litlir séu í okkar höndum samt, til að eygja einhvern tíma betri framtíð aðra en bara að skera og skera og skuldsetja og skuldsetja? Ég leitaði logandi ljósi og ég fann ekki neitt.

Það er verið að skera niður það sem menn á hátíðisdögum tala alltaf um sem það sem eigi að lyfta okkur, áherslu á menntun, rannsóknir, þróun. Þeim veikburða vísum sem af slíku tagi hafa verið að komast á fót úti á landsbyggðinni er slátrað. (Gripið fram í.) Jú, þeim er eiginlega slátrað að mestu leyti, því miður. Ég veit ekki hvað varaformaður fjárlaganefndar segir t.d. um rannsóknarsetur og þekkingarsetur háskólanna úti á landi eða slíka hluti. (Gripið fram í.) Já, það kemur kannski eitthvað við 3. umr., það er yfirleitt svarið. (Gripið fram í: Fjórðu?) Já, eða við 4. umr. eða 5. umr. kannski.

Það var einu sinni þannig á Alþingi að ríkisstjórn var í nokkrum vandræðum með að koma saman fjárlagafrumvarpi. Sérstaklega var það ónefndur fagráðherra sem fór með landbúnaðarmál, Jón Helgason frá Seglbúðum, sem var ósáttur með sína útkomu í fjárlagafrumvarpinu. Þá féllst hann á framlagningu fjárlagafrumvarpsins þannig að hann samþykkti tekjuhliðina en ekki gjaldahliðina. Þetta þótti dálítið athyglisvert en það má segja að hér sé að hluta til farið í þessu frægu fótspor. Það er svona önnur hliðin, þ.e. niðurskurðarhliðin, sem er hér svona að talsverðu leyti en hitt er bara skrifað í skýin og vísað í 3. umr. Ríkisstjórnin er að taka hér upp þetta verklag eða meiri hluti hennar.

Það vekur líka athygli að að því marki sem ríkisstjórnin hefur einhverja hugmynd um að kannski megi hlífast við einhverjum niðurskurði með því að reyna að afla einhverra tekna, þá velur hún þá leið að boða flata hækkun tekjuskatts og útsvars að óbreyttum skattleysismörkum miðað við það sem búið var að ákveða fyrir ári síðan. Það þýðir á mannamáli áframhald á þeirri lágtekjuskattpíningu sem hér var í gangi og menn vonuðust til að þeir væru kannski eitthvað að þokast í áttina burtu frá aftur með hækkun skattleysismarka umfram verðlag, sem dregur náttúrlega skammt núna eins og verðbólgan er, því miður.

Ég hef verið að velta því dálítið fyrir mér hvar ríkissjóður gæti verið staddur ef hinar glórulausu og ábyrgðarlausu skattalækkanir á síðasta kjörtímabili hefðu ekki allar gengið fram. Ef við tækjum hátekjuskattinn eins og hann var áður en farið var að þrepa hann niður og hann hefði verið lagður á að fullu öll árin, voru það ekki 2005, 2006 og 2007 og á yfirstandandi ári, eigum við þá ekki að slá á að við gætum átt eitthvað á milli 30 og 50 milljarða þar í handraðanum, sem sagt nokkurn veginn niðurskurðinn sem hér er verið að bæta í? Það er kannski ekki fjarri lagi.

Hvaða ár voru þetta? Jú, þetta voru ofurlaunaárin, þetta voru veltiárin þegar Íslendingar eignuðust launahæsta mann Norðurlanda. Hefði verið eitthvað að því að hann hefði borgað örfá prósent í viðbót af þessum ofurlaunum sínum? Leita engar efasemdir á sjálfstæðismenn um að þetta hefði verið réttmæt aðgerð og skynsamleg, að bæta aðeins í þensluna og verðbólguna á árunum 2005, 2006 og 2007 með því að lækka sérstaklega skatt á tekjuhæsta fólki landsins? Eða er það trúarsetningin og kenniboðið sem ríkir ofar veruleikanum?

Ég átta mig ekki á því, herra forseti, hvernig á að framkvæma þessi fjárlög. Ég held að þetta sé meira og minna allt saman sýndarmennska. Ég held að engum manni detti í hug að hægt sé að reka Landspítalann með því að skera af honum hátt í 2 milljarða kr. frá því sem hann þó hefur eða hvernig sem á að útleggja það.

Hvernig ætla menn að reka öldrunarstofnanir sem fyrir eru margar með mikinn skuldahala sem að minnstu fæst bættur, eins og kom fram í framsögu eins meirihlutamannanna í fjárlaganefnd? Hvernig ætla menn að reka heilbrigðisstofnanir eins og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Heilbrigðisstofnun Austurlands sem eru í bullandi vandræðum fyrir, dragandi þungan skuldahala og eigandi engan veginn fyrir rekstri í dag með verulegum niðurskurði á framlögum til þeirra? Það er ekki hægt, stærstur hlutinn er launakostnaður. Ég held að menn hljóti að verða að horfast í augu við að það er ekki hægt að gera þetta nema segja strax upp, bara 1. janúar, drjúgum hluta starfsmanna þessara stofnana. Það sparar ekki útgjöld fyrr en líður á árið vegna þess að menn eiga sinn uppsagnarfrest og það setur menn í enn meiri vanda nema það sé hitt, að menn séu að setja hér eitthvað á blað sem ekki er einu sinni ætlunin að reyna að standa við. Eitthvað hlýtur það að vera. Er ekki best að tala bara um þetta eins og þetta er og hvort er það, hv. þm. Gunnar Svavarsson? Hvort er ætlunin að framkvæma þetta og standa við það og segja þá upp fólki í stórum stíl, því að öðruvísi sé ég ekki hvernig á að ná þessum sparnaði fram, eða hvaða önnur brögð telja stjórnarliðar sig kunna í þessum efnum?

Það var athyglisvert að heyra þá fara yfir hallatölurnar, hv. formann og varaformann fjárlaganefndar. Annar sagði í morgun að hallinn yrði á bilinu 165–170 milljarðar, ég held ég að ég hafi örugglega tekið rétt eftir því að svona orðaði formaður fjárlaganefndar þetta. Um það bil tveim tímum síðar kom varaformaður fjárlaganefndar og talaði þá um 160–170 milljarða og er svo sem bitamunur en ekki fjár. En þetta segir okkur í öllu falli að þetta eru ekki alveg nákvæmnisvísindi enn þá hjá þeim fóstbræðrum þegar það hleypur á svona 5–10 milljörðum hver líklegur halli geti orðið út úr þessu.

Þá spyr ég á móti: Af hverju er talan 170 milljarðar svona heilög? Menn segja að annars hefði stefnt í 215 milljarða halla. Hvar eru útreikningarnir sem eiga að sýna okkur að það væri halli sem alls ekki gengi upp en hins vegar séu 160, 165, 170 milljarðar í lagi? Eru þeir útreikningar til? (Gripið fram í.) Það er það sem þið ætlið ykkur. (Gripið fram í.) Þið eruð að segja það. Þið væruð ekki að leggja þetta til annars. (Gripið fram í.) Ætlið þið ekki að bera ábyrgð á því sem þið leggið til? Ég gef mér það að þetta sé vegna þess að þið teljið að þetta gangi, þið væruð náttúrlega ekki að leggja fram fjárlagafrumvarp sem þið teljið að gangi ekki eða er það? Það er ekki venjan að menn flytji þingmál sem þeir eru á móti eða breytingartillögur.

Veruleikinn er auðvitað sá, eins og ég fór yfir í mínu máli, að þetta er ekkert í okkar höndum. Ramminn er settur í starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og menn eru að skrúfa þetta inn í hann. Með öðrum orðum, við erum ekki að reyna að meta hvernig við getum gert þetta sjálf, hvað við eigum að standa vörð um, hvort réttlætanlegt sé að fara inn í þennan tilfinnanlega niðurskurð, t.d. í heilbrigðisstofnunum þar sem er ekki mikill afgangur, þar sem gengur ekki allt of vel að láta hlutina ganga dag frá degi. Hvernig halda menn að Landspítalinn eigi að glíma við þetta með því gríðarlega vinnuálagi sem það er orðið á undirmönnuðum deildum sem hafa verið fjársveltar alveg hreint linnulaust undanfarin ár? Þetta er ekki hægt nema með þvílíkum sársauka að menn eiga mikið í vændum í þeim efnum.

Það væri líka áhugavert að fara yfir smáu liðina, af því að margur sársaukinn á eftir að birtast mönnum þar. Það eru ekki alltaf stórar tölur á ferð, það eru kannski höggnar af 4 eða 6 milljónir sem eru undirstaða tiltekinnar mikilvægrar starfsemi hjá velferðarsamtökum eða samtökum eins og Iðnnemasambandinu eða einhverjum slíkum aðilum. Menn eru að taka ákvarðanir um að slátra slíku í stórum stíl. Ætla menn svo að bera það fyrir þjóðina að þetta séu allt saman aukaatriði, það sem skipti máli sé að koma okkur inn í Evrópusambandið árið 2015 eða 2012 eða hvenær það verður og kannski að fara í einhver stólaskipti hérna um áramótin eða fara í einhverjar lýtaaðgerðir á ríkisstjórninni? (Gripið fram í.)

Eigum við ekki að tala um það sem hér er undir sem er íslenskt samfélag, verkefnið er hér og nú í höndunum á okkur og spurningin um það hvernig við ætlum að halda utan um þetta samfélag okkar næstu mánuðina og missirin. Það er það sem á að vera til umræðu, það skiptir máli en ekki hégóminn.

Því miður verð ég að segja alveg eins og er, herra forseti, að þessi málatilbúnaður (Forseti hringir.) vekur mér litla bjartsýni um að menn séu að rata á rétt spor, verandi mér þó vel meðvitaður um að erfiðleikarnir eru miklir.