136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[19:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2008, 239. máli þingsins á þskj. 350. Með frumvarpinu er lögð fyrir Alþingi endurskoðuð áætlun um tekjur í samræmi við endurskoðaða þjóðhagsspá og tillögur um breytingar á fjárheimildum ýmissa fjárlagaliða ársins 2008. Frumvarpið byggir einnig á endurmati á helstu hagrænum forsendum fjárlaganna, áhrifum af lögbundnum útgjaldaliðum, samningum og ýmsum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um mál sem fram hafa komið eftir afgreiðslu fjárlaga.

Bæði á tekju- og gjaldahlið frumvarpsins gætir áhrifa af yfirstandandi erfiðleikum í efnahagslífinu sem leiða til samdráttar í tekjum á síðustu mánuðum ársins og aukningu í vissum útgjöldum. T.d. má nefna aukin framlög til starfsemi og verkefna sem greidd eru í erlendri mynt. Í frumvarpinu eru þó ekki sett fram áhrif af þeim sértæku ráðstöfunum sem ríkið þarf að grípa til vegna þeirra miklu áfalla sem orðið hafa í fjármálakerfi landsins í haust. Þar má einkum nefna stofnfjárframlög til þriggja nýrra viðskiptabanka og mögulegar lántökur vegna yfirtöku skuldbindinga. Einnig þarf að komast að niðurstöðu um það reikningshaldslega hvort þau áhrif eigi fremur að koma fram í þessu frumvarpi eða í fjárlögum fyrir næsta ár. Þessar ráðstafanir snúa einkum að sjóðstreymi ríkissjóðs. Unnið er að nánari áætlunum um þessi mál og er fyrirhugað að tillögur vegna þeirra verði lagðar fram í einu lagi fyrir 3. umræðu annars hvors eða beggja frumvarpanna eftir því hver niðurstaðan verður.

Í fjárlögum fyrir þetta ár var áætlað að tekjuafgangur ríkissjóðs yrði um 39 milljarðar kr. en nú er áætlað að afkoman versni um tæpa 44 milljarða kr. og að 4,7 milljarða kr. halli verði á ríkissjóði. Afkoma ríkisfjármála verður því mun lakari en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir og er það mikill viðsnúningur. Verri afkomu má bæði rekja til minni tekna og aukinna útgjalda sem að stórum hluta eru afleiðingar fjármálakreppunnar sem leiddi til falls íslensku bankanna. Horfur eru á að tekjur ríkissjóðs verði liðlega 12 milljörðum minni en áætlað var í fjárlögum eins og nánar verður komið að síðar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist um tæpa 32 milljarða kr.

Áætlað er að handbært fé frá rekstri, sem er það fé sem regluleg starfsemi ríkissjóðs skilar, verði 3 milljarðar kr. í stað 34 milljarða eins og áætlað var í fjárlögum. Lánsfjárjöfnuður versnar um tæpa 74 milljarða kr. og verður neikvæður um 32 milljarða en reiknað hafði verið með tæplega 42 milljarða kr. afgangi í fjárlögum. Ástæðurnar eru aðallega tvíþættar. Annars vegar lítur út fyrir að handbært fé frá rekstri verði 31 milljarði minna en áætlað var í fjárlögum, bæði vegna minni tekna og aukinna útgjalda, og hins vegar eru horfur á að útstreymi í gegnum fjármunahreyfingar verði næstum 43 milljörðum meira en áætlað var í fjárlögum. Munar þar mest um lánveitingu ríkissjóðs til Seðlabanka Íslands til að styrkja gjaldeyrisvarasjóð bankans.

Gert er ráð fyrir að heildartekjur í ár verði 461 milljarður kr. sem er 12,3 milljörðum minna en reiknað var með í fjárlögum ársins. Áætlað var í fjárlögum að tekjurnar drægjust saman að raungildi um 2,9% frá árinu 2007 en endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir að samdrátturinn verði 16,2%.

Samdráttur í tekjum skýrist fyrst og fremst af breytingum á þjóðhagslegum forsendum fjárlaganna, sérstaklega á síðustu mánuðum ársins. Í fjárlögum yfirstandandi árs var gert ráð fyrir að þjóðarútgjöld drægjust saman um 4,8% en samkvæmt endurskoðaðri áætlun dragast útgjöldin saman um 9,3% sem er nærri tvöfalt meira en hafði verið spáð. Mestu munar að einkaneysla dregst saman um 8,4% samanborið við 0,9% í forsendum fjárlaga. Einnig leiðir aukin verðbólga vegna mikillar lækkunar á gengi íslensku krónunnar til þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur rýrnað verulega.

Mestu munar að áætlun um tekjuskatt lögaðila er lækkuð um 11,5 milljarða kr. þar sem síðasti ársfjórðungur 2007 varð mörgum fyrirtækjum erfiður og afkoma þeirra varð lakari en vísbendingar sem árshlutauppgjör höfðu gefið. Þá er áætlað að tekjuskattar einstaklinga verði 5 milljörðum minni vegna samdráttar í efnahagslífinu á síðustu mánuðum ársins. Eignarskattar dragast saman um 4 milljarða frá áætlun, aðallega vegna minni veltu á fasteignamarkaði sem hefur leitt til minni tekna af stimpilgjöldum. Vegna minni einkaneyslu er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur dragist saman um 2 milljarða þrátt fyrir að gengis- og verðhækkanir hafi hækkað skattstofninn. Þá skilar eignasala 3 milljörðum minna en áætlað var. Á móti koma svo 14 milljarða kr. meiri vaxtatekjur sem að mestu leyti skýrast af sértækum aðgerðum ríkisstjórnarinnar síðastliðið vor til að styrkja innlendan fjármálamarkað og gjaldeyrisvaraforða með því að taka lán sem ávöxtuð eru í sjóðum og veittum lánum til Seðlabanka.

Nánari grein er gerð fyrir tekjuspánni og forsendum hennar í frumvarpinu.

Áætlað er að heildarútgjöld ársins verði tæplega 466 milljarðar, sem eru 32 milljörðum kr. hærri útgjöld en í fjárlögum. Mest munar um 11 milljarða kr. meiri vaxtagjöld vegna aukinnar útgáfu ríkisbréfa og erlendrar lántöku í tengslum við aðgerðir í efnahagsmálum eins og áður var getið. Þá er lagt til að launa- og verðlagsliður fjárlaganna hækki um tæplega 8 milljarða kr. Skýring á þeirri hækkun er annars vegar nærri 5 milljarðar til að mæta auknum útgjöldum sem greidd eru í erlendum gjaldmiðlum, t.d. rekstur sendiráða, þróunaraðstoð, framlög til alþjóðastofnana og greiðslur vegna nýs varðskips og flugvélar fyrir Landhelgisgæsluna. Hins vegar eru um 3 milljarðar kr. vegna meiri kostnaðar við kjarasamninga sem ríkið hefur gert á árinu en reiknað var með í fjárlögum.

Í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í febrúar síðastliðnum ákvað ríkisstjórnin að farið yrði í tilteknar aðgerðir sem leitt hafa til um 4 milljarða kr. útgjaldaaukningar. Mestu munar um 2,4 milljarða til bóta almannatrygginga þar sem bæturnar voru hækkaðar um 4% til viðbótar við 3,3% hækkun þeirra í ársbyrjun. Aðrar aðgerðir í tengslum við kjarasamningana skýra 1,5 milljarða kr. viðbótarútgjöld vegna hækkunar á atvinnuleysibótum og hækkunar á skerðingarmörkum vaxtabóta og barnabóta.

Þessu til viðbótar gerir endurskoðuð áætlun um Fæðingarorlofssjóð ráð fyrir 860 millj. kr. hærri útgjöldum en reiknað var með í fjárlögum.

Samningar um búvöruframleiðslu fylgja vísitölu neysluverðs og vaxa útgjöldin um 660 millj. kr. á árinu vegna verðbóta umfram það sem reiknað var með við afgreiðslu fjárlaga.

Á móti þessum hækkunum á kerfislægum og reiknuðum útgjaldaþáttum kemur að í frumvarpinu er reiknað með því að atvinnuleysi á þessu ári verði talsvert minna en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir og lækkar fjárveiting til Atvinnuleysistryggingasjóðs um 3 milljarða kr. vegna þess. Samkvæmt endurskoðuðum áætlunum um útgjöld almannatrygginga, m.a. miðað við greiðslur það sem af er árinu er einnig talið að þau hafi verið ofmetin um sem nemur 1 milljarði kr.

Samtals eru hækkanir vegna breyttra forsendna fyrir slíkum kerfislægum útgjöldum um 20,5 milljarðar kr. eða sem svarar til um 65% af útgjaldaaukningunni sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Af öðrum stærri málum má nefna að í frumvarpinu er farið fram á rúmlega 3 milljarða fjárheimild vegna uppsafnaðs halla heilbrigðis- og sjúkrastofnana. Þyngst vega um 1,5 milljarðar til Landspítalans. Auk þess er gert ráð fyrir tæplega 800 millj. kr. þurfi til að mæta halla sjúkratrygginga.

Farið er fram á tæplega 550 millj. kr. fjárheimild á liðnum fasteignagjöld af húseignum ríkisins vegna hærri álagningarprósentu en miðað var við í fjárlögum. Það skilar sveitarfélögunum mun meiri tekjum en samkomulag ríkisins við þau gerði ráð fyrir.

Sótt er um rúmlega 730 millj. kr. fjárveitingu vegna kostnaðar sem hlaust af jarðskjálftunum á Suðurlandi í vor. Þar er bæði um að ræða kostnað vegna viðbragða og úrvinnslu sem og tjóna sem hvorki viðlagatrygging né aðrar tryggingar bæta.

Frú forseti. Mun ég nú víkja nánar að lánsfjármálum ríkissjóðs á árinu 2008 samkvæmt 2. og 3. gr. frumvarpsins.

Í 3. gr. er farið fram á að lántökuheimildir ríkissjóðs verði 234 milljarðar kr. og hækki því um 203 milljarða frá því sem veitt var í fjárlögum. Undir lok vorþings heimilaði Alþingi fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, að taka á árinu lán fyrir allt að 500 milljörðum kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og endurlána Seðlabanka Íslands þann hluta sem tekinn væri að láni í erlendri mynt. Horfur eru á að heildarlántökur ríkissjóðs á þessu ári verði 234 milljarðar kr., annars vegar 160 milljarðar í íslenskum krónum og hins vegar 300 milljónir evra sem endurlánaðar voru Seðlabanka Íslands til að styrkja gjaldeyrisvaraforða bankans.

Í 3. gr. eru einnig lagðar til breytingar á ríkisábyrgðum sem veittar eru aðilum sem hafa heimild til lántöku samkvæmt sérlögum. Lántökuheimild Íbúðalánasjóðs hækkar um 5,6 milljarða kr. vegna breytinga á lánamörkuðum. Á móti kemur að heimild Landsvirkjunar lækkar um 5,5 milljarða kr. þar sem fyrirtækið hefur dregið úr og frestað lántökum í ljósi markaðsaðstæðna.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er gert ráð fyrir að handbært fé ríkissjóðs aukist um 100 milljarða kr. á árinu, eða 77 milljörðum meira en áætlað var í fjárlögum. Batnar staða ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands sem því nemur.

Frú forseti. Ég hef nú fjallað helstu efnisatriði frumvarpsins, sem lagt er fram óvenju seint vegna þeirra óvenjulegu aðstæðna sem ríkt hafa hér á landi að undanförnu. Legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins.