136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[21:30]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil eiginlega þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hafa áttað sig á þessu og getað leiðrétt mig í þessum efnum. Auðvitað hefði maður áhyggjur af því ef þessi norski hernaðarsérfræðingur hefði ekki fengið borgað fyrir það þegar hann kom hérna til landsins. Er hann ekki örugglega farinn? Er hann nokkuð enn þá að stilla mönnum upp í röð og ákveða í hvaða röð þeir eigi að labba inn á fréttamannafundi og þess háttar?

Það er alveg hárrétt, þarna stendur þetta eins og ráðherra gat réttilega um. Þetta eru 250 millj. kr., enda voru líka þessar 30 millj. kr. svo hlægilega lágar í þessu sambandi að það var ekki hægt að hugsa sér að hægt væri að fá norskan hernaðarsérfræðing fyrir þá upphæð. Þarna eru 250 millj. kr. vegna kostnaðar við erlenda og innlenda ráðgjöf og nauðsynlegar aðgerðir ríkisins vegna neyðarástands á fjármálamarkaði í framhaldi af falli þriggja stærstu banka landsins. Auk þess er gert ráð fyrir 100 millj. kr. ráðstöfunarfé til greiðslu þessa kostnaðar.

Um er að ræða kostnað ríkissjóðs við sérfræðiþjónustu og ráðgjöf vegna endurreisnar íslenska fjármálakerfisins — sem hefur reyndar ekki enn tekist — og alþjóðasamskipta auk almannatengsla. Það er alveg hárrétt hjá ráðherra að þetta kemur þarna inn í. Þá er forvitni minni um það mál í sjálfu sér svalað, það er fínt að fá þetta fram og hvort það sé ekki alveg öruggt að þessi hernaðarsérfræðingur og göngulagsskipuleggjari forsætisráðherra sé farinn úr landi.