136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[15:06]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Þau sjónarmið og þær spurningar sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson bar fram í ræðu sinni áðan eiga fullt erindi og nauðsynlegt er að þeim verði svarað skýrt og skilmerkilega. Ég deili ekki þeirri trú að öreindarafallinn muni gera eitthvert útslag í veraldarsögunni eða valda því að einhverjar skuldbindingar eða skilyrði samninga muni falla úr gildi. Ég reikna með að við verðum hér eftir sem hingað til að takast á við vandamál eins og við höfum gert og mættum gera af meiri ábyrgð, a.m.k. meiri ábyrgð en gert var í maíbyrjun árið 2006 þar sem um það var að ræða að kallað var eftir því af þingmönnum Frjálslynda flokksins að svipuðum ákvæðum yrði beitt varðandi breytingar á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks á þeim tíma miðað við þau ríki sem þá mundu fá óheftan aðgang. Það voru ríki eins og Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Slóvenía, Slóvakía, Tékkland, Ungverjaland sem höfðu þá nokkru áður gengið í Evrópusambandið. Þá var varað við því að ekki væri flutt frumvarp til laga til þess að nýta sér þá undanþágu sem þá væri fyrir hendi til að hægt væri að koma í veg fyrir að reglur Evrópusambandsins um frjálsa för mundu taka gildi.

Það var möguleiki á þeim tíma varðandi íbúa þessara landa að nýta sér frest fram til 2009 og síðan áfram til 2011 og jafnvel enn þá lengur. En það var ekki gert og það var heldur betur haft á orði að það að ætla sér að framlengja þann frest eða standa í slíku væri í fyrsta lagi atlaga að því að hingað gæti flutt fólk og unnið úr þeim brýnu verkefnum sem þyrfti að vinna úr sem allra fyrst. Það voru ein rökin.

Ýmis önnur rök komu fram og það var ekki síst frá flokki núverandi félagsmálaráðherra sem kom helst andstaða við því að um framlengingu undanþágunnar yrði að ræða á sínum tíma varðandi frjálsa för þessara íbúa á Evrópska efnahagssvæðinu sem þá var talað um að sett yrði viðbótarundanþága fyrir.

Á það var bent að við gætum gert ákveðnar ráðstafanir sjálfir, m.a. með vísun til 112. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og þeirrar bókunar sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vék að hér áðan og ég mun gera að umræðuefni nokkru síðar. Það var hins vegar alveg ljóst að til þess að taka af öll tvímæli um það hver vilji ríkisstjórnarinnar væri í þessu efni þurfti að samþykkja lög með svipuðum hætti og verið er að fara fram á að verði gert hér nú. Til að taka af öll tvímæli ætla ég að taka fram að ég styð það frumvarp sem hér ræðir um, ég tel nauðsynlegt að það verði samþykkt þannig að í stað orðanna „1. janúar 2009“ í ákvæði til bráðabirgða II í lögunum komi: 1. janúar 2012. Heimildir fyrir íbúa Rúmeníu og Búlgaríu til þess að koma hér eins og þeim hentar verði takmarkaðar svo sem frumvarpið kveður á um. Ég tel nauðsynlegt að setja það — og ég taldi á sínum tíma líka nauðsynlegt að slík undanþága væri sett varðandi aðkomu hinna nýju þjóða í Evrópusambandinu þannig að íslenskt atvinnulíf biði ekki verulegan og jafnvel varanlegan skaða af.

Þáverandi stjórnarflokkar og Samfylkingin, flokkur félagsmálaráðherra, töldu það hið versta mál að ætla að standa þannig að málum. Og hver voru rökin fyrir því? Jú, það m.a. var talað um að með því að heimila frjálsa för og óhefta erlends láglaunafólks frá Póllandi, Eistlandi, Lettlandi, Litháen og víðar mundi þjóðarframleiðslan aukast. Það voru birtar yfirlýsingar, rök og sjónarmið frá hagdeildum hinna föllnu banka um það efni að þjóðarframleiðslan mundi aukast og atvinnutekjur á hvern landsmann með því að hingað kæmi láglaunafólk að utan.

Hver er niðurstaðan þegar við skoðum þetta í baksýnisspeglinum? Niðurstaðan er sú að þetta var rangt, niðurstaðan er sú að þjóðarframleiðslan jókst ekki í samræmi eða nokkurri nánd við þann fjölda erlendra ríkisborgara sem hingað komu.

Það er líka reynsla annarra þjóða þar sem gerð hefur verið úttekt á svipuðum hlutum. Bandaríkin hafa mesta reynslu af því að taka við erlendu vinnuafli og þar hafa verið gerðar víðtækar þjóðfélagsrannsóknir á því hvernig það gengur fyrir sig. Niðurstaðan hefur verið sú að það hefur ekki áhrif til þess að auka þjóðarframleiðslu að fá mikinn fjölda af láglaunafólki að utan, en helstu áhrifin á vinnumarkaðinn eru þau að laun láglaunafólks og fólks með og undir meðaltekjum lækka. Það eru helstu áhrifin. Og það eru þau áhrif sem fyrrverandi ríkisstjórn og Samfylkingin bera ábyrgð á að urðu á íslenskum launamarkaði.

En það voru fleiri áhrif sem komu til greina. Afleiðingin af því að undanþáguákvæðið var ekki framlengt varðandi hin nýju ríki Evrópusambandsins í fyrrverandi Austur-Evrópu urðu til þess að hingað streymdi meira en tugur þúsunda erlendra starfsmanna. Í sjálfu sér margt gott úrvalsfólk til vinnu, en það ruglaði gjörsamlega ástandið á íslenskum vinnumarkaði. Það var það sem við frjálslyndir bentum á að gæti gerst, það mundi gjörsamlega rugla ástandið á íslenskum vinnumarkaði. Að sjálfsögðu hefur það þýðingu þegar um 20.000 manns flytja á stuttum tíma til annars ríkis, það kallar á gríðarlega miklar framkvæmdir í sambandi við íbúðarhúsnæði, það kallar á mikla uppbyggingu í sambandi við alls konar félagslega aðstöðu. Þar stóðum við alls ekki að hlutum með þeim hætti sem við hefðum átt að gera þannig að við gætum þá tekið á móti því fólki sem kom með eðlilegri reisn og látið það njóta í öllum tilvikum eðlilegra kjara og mannréttinda. Þar var virkilega pottur brotinn og það ber að taka sérstaklega fram að íslenska þjóðin, Ísland — við berum ábyrgð gagnvart öllu því fólki sem hingað kemur og er komið inn í landið, að það njóti þeirra lögkjara sem við höfum í lögum varðandi mannréttindi og eðlilegt atlæti. Á því varð nokkur skortur, því miður, vegna þess að innflutningur vinnuaflsins, hins erlenda vinnuafls, á of skömmum tíma varð til þess að ekki varð við neitt ráðið á ákveðnu tímabili.

Gróðaöflin í þjóðfélaginu, þeir sem vildu halda hinni fölsku þenslu og áframhaldandi skuldsetningu þjóðarinnar, hrópuðu í einum kór að þetta væri algjörlega nauðsynlegt. Afleiðingin er eitt með öðru sú mikla skuldsetning sem við stöndum frammi fyrir í dag, það hrun sem hefur orðið í íslensku efnahagslífi og það að þær framkvæmdir sem við frjálslynd bentum iðulega á að mætti fresta, ætti að taka fyrir á öðrum tíma þegar þenslan væri ekki sú sama og varð á fyrri árum. Þetta var ekki gert og þess vegna stöndum við núna frammi fyrir gríðarlegu atvinnuleysi og skuldsetningu sem er afleiðing af því að þeir stjórnmálamenn sem stóðu þannig að málum neituðu að horfast í augu við alvarleika þess samtíma sem um var að ræða á árinu 2006 og að taka eðlilegar ákvarðanir til að koma í veg fyrir að vandamál mundu skapast í framtíðinni.

Það er ekki lengra síðan en nokkrir mánuðir að ég stóð í þessum ræðustól og hélt því fram að mjög alvarleg kreppa væri að skríða yfir í íslenskum byggingariðnaði. Ég talaði um það nokkru eftir áramót 2008 að það yrði mjög alvarleg kreppa í íslenskum byggingariðnaði og á fasteignamarkaði þegar liði á árið. Á þeim tíma var því svarað til að þetta væri svartagallsraus, að það væri ekkert sem benti til þess og jafnvel nokkrir stjórnarliðar sem héldu því fram að það væri heldur betur eitthvað annað upp á teningnum.

Niðurstaðan er því miður sú að það sem ég taldi verða var miklu alvarlegra en ég hafði þó bent á, svo alvarlegt að nú horfum við fram á það að fasteignamarkaðurinn er hruninn og byggingarstarfsemin að verulegu leyti stöðvuð.

Það liggur fyrir að við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegu og miklu atvinnuleysi og afleiðingar af óráðsíustefnu Samfylkingarinnar og fyrrverandi ríkisstjórnar þýða líka að við höfum gríðarlegt atvinnuleysi og mikinn fjölda útlendinga sem hingað komu á þessum árum, uppsveifluárunum, sem við að sjálfsögðu verðum að gæta að njóti þess félagslega atlætis sem aðrir íbúar þessa lands njóta sem er töluvert mikill og aukinn kostnaður fyrir íslenskt þjóðfélag sem þýðir líka það að atvinnuleysistölur eru hærri en ella yrði. Á sínum tíma var því haldið fram að allir þeir útlendingar sem hingað kæmu í atvinnuleit mundu flytja af landi brott um leið og það harðnaði á dalnum og drægi úr atvinnu. Raunin hefur orðið sú að þessi sjónarmið hafa nokkuð til síns máls — en einungis nokkuð.

Enn situr eftir meginhluti þeirra sem hingað komu og það er staðreyndin í málinu. Það er m.a. sá hópur sem kemur til með að fylla bekki atvinnulausra á íslenskum vinnumarkaði nú og á næstu mánuðum. Það er m.a. sá hópur sem við, íslenska þjóðin, munum þurfa að borga atvinnuleysisbætur núna og á næstu mánuðum.

Það er þess vegna líka, horft í baksýnisspegilinn, gjörsamlega óskiljanlegt hvernig á því stóð að stjórnmálamenn á árinu 2006 neituðu að horfast í augu við raunveruleikann, neituðu að horfast í augu við það með hvaða hætti langtímaþróun íslenskra atvinnuvega og íslensks atvinnulífs gæti orðið, hvernig þeir dönsuðu með bönkunum og þeim sem vildu skuldsetja þjóðina í því að auka hér þrýsting á íslenska atvinnustarfsemi og auka skuldsetninguna þannig að við byggjum við skuldsetta uppbyggingu sem engin innstæða var fyrir.

Staðreyndin er nefnilega sú, virðulegi forseti, að það er ekki hægt að kenna einhverjum örfáum einstaklingum um hvernig komið er fyrir okkur í dag. Það er m.a. svona komið fyrir okkur vegna þess að íslenskir stjórnmálamenn á þessum árum neituðu að taka á málunum af festu með þeim hætti sem hefði verið til hagsbóta fyrir íslenska þjóð.

Við erum ekki nema 300.000 manns, við erum með viðkvæman vinnumarkað, við erum með fábreytta atvinnustarfsemi. Jafnvel þó að fjármálastarfsemi hafi unnið ákveðinn sess í ákveðinn tíma var alveg ljóst að á undirstöðunni, frumframleiðslunni sem allt þjóðfélagið byggðist á urðu ekki neinar stökkbreytingar. Á þeim svokölluðu uppsveiflutímum sem við fórum í gegnum var alveg ljóst að helstu atvinnuvegir þjóðarinnar framleiddu ekki meira og ekki var um verðmætaaukningu að ræða sem nokkru næmi hvað það varðar.

Hvað olli þá uppsveiflunni?

Jú, við fengum mikið innstreymi af erlendu vinnuafli, láglaunafólki. Við tókum gríðarlega mikil lán og ríkissjóður setti prentvélina í gang eða kannski fékk hann mikið af peningum vegna óraunhæfra hluta sem voru í gangi í hagkerfinu. Og það er það sem við horfum upp á og þegar einhverjum örfáum bankamönnum er kennt um það sem gerst hefur segi ég að menn skyldu líta sjálfum sér nær, þeir sem stóðu að því að leyfa þá þjóðfélagsþróun sem varð á umliðnum árum og þá er ég m.a. að vísa aftur til áranna 2005 og 2006.

Hlutir detta nefnilega aldrei skyndilega ofan á höfuðið á fólki, það hefur allt sinn aðdraganda. Það var ábyrgðar- og fyrirhyggjuleysi stjórnmálaaflanna í landinu, þáverandi ríkisstjórnar og Samfylkingarinnar, sem studdi þessi sjónarmið dyggilega og er því meðvöld að því ástandi sem við búum við.

En þau sjónarmið og rök sem komu fram, og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson rakti í ræðu sinni áðan, varðandi skilning á 112. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, hvað fælist í þeirri undanþágu er gild spurning. Það er gild spurning, ekki síst núna, vegna þess að við búum við alvarlegt atvinnuleysi, við horfum fram á vaxandi atvinnuleysi og þá er spurning: Eru þeir fyrirvarar sem getið er um í 112. gr. samningsins nægjanlegir til þess að við getum beitt þeim einhliða? Ég lít svo á að um það sé að ræða, en eins og rakið var í ræðu síðasta ræðumanns liggur fyrir að túlkun félagsmálaráðuneytisins virðist vera með öðrum hætti.

En þá er líka að skoða þá bókun sem var sett fram og sem þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, stóð fyrir og hafði með að gera þegar samið var um Evrópska efnahagssvæðið. Þar fengum við sérstakar undanþágur þar sem bætt var við ef yrði m.a. alvarlegt ójafnvægi á fasteignamarkaði, atriði sem ýmsir hafa haldið fram, m.a. lögspekingar í hópi samfylkingarmanna, að hefði enga sérstaka þýðingu. Það er í sjálfu sér nauðsynlegt að skoða þessi tvö ákvæði í samhengi og fá sjónarmið hæstv. félagsmálaráðherra á því hvaða þýðingu og hvaða gildi þetta hefur, ekki síst vegna þess að við búum nú við þær aðstæður sem kveðið er á um, annars vegar í 112. gr. og hins vegar í þeirri bókun sem þar ræðir um. Í umræðum sem fóru fram á Alþingi á þeim tíma, þegar rætt var um EES-samninginn, þá spurðu hv. þingmenn þess tíma, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon, ítrekað um gildi þessarar bókunar um undanþágu frá frjálsri för launafólks sem þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, hafði talað um og það var fullyrt af Jóni Baldvini Hannibalssyni, þáverandi utanríkisráðherra, að þetta hefði fullt gildi og við gætum hvenær sem er gripið til nauðsynlegra takmarkana til að stöðva flæði erlends vinnuafls ef á þyrfti að halda.

Það var niðurstaðan og það sem maður les út úr þeirri umræðu sem átti sér stað þegar um EES-samninginn var rætt á sínum tíma á Alþingi Íslendinga. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort það sé sami skilningur ráðuneytisins í dag, að okkur sé heimilt þegar röskun verður á atvinnumarkaðnum eða fasteignamarkaðnum, að grípa einhliða til aðgerða svo sem kveðið var á um í bókun Íslands við samningaviðræðurnar um Evrópska efnahagssvæðið og hvort félagsmálaráðuneytið telur að undanþáguákvæðið í 112. gr. samningsins, um það að þegar alvarlegir erfiðleikar komi upp á atvinnumarkaði geti ríkið gripið til viðeigandi ráðstafana, hvort sú staða sé komin upp í þjóðfélaginu að hægt sé að nýta þessi ákvæði og koma því svo fyrir að Ísland geti í raun lokað landamærunum.