136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

verslun með áfengi og tóbak.

209. mál
[15:09]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil segja strax í upphafi að ég styð þetta frumvarp og mun greiða því atkvæði sem þar er lagt til. Mig langar til að færa aðeins rök fyrir sjónarmiðum mínum í þessu máli, einkum í ljósi þess sem kemur fram í nefndarálitinu og áliti sumra umsagnaraðila að um geti verið að ræða hækkun á útsöluverði áfengis sem leiði til þeirra áhrifa að neysluverðsvísitala hækki og þar af leiðandi sé málið af hinu vonda fyrir hinn almenna landsmann.

Í síðustu viku var með nokkuð snöggum hætti afgreidd hækkun á áfengisgjaldinu um 12,5% sem hefur síðan verið dálítið í umræðunni á þeim forsendum að það skaðaði almenning í landinu. Ég er ekki sammála því sjónarmiði og vil nota þetta tækifæri til að koma sjónarmiðum mínum um verðlagningu á áfengi á framfæri.

Ég vil geta þess, virðulegi forseti, varðandi áfengisverð að fyrir liggja nokkur gögn um þróun þess allt frá því að áfengisgjald var tekið upp árið 1995. Samkvæmt þeim gögnum liggur nokkuð ljóst fyrir að verð á áfengi, og þá sérstaklega þáttur ríkissjóðs í því, hefur þróast þannig að það hefur hækkað mun minna en vísitala neysluverðs á þessu 13 ára tímabili. Fyrir liggja svör hér í þinginu frá 2002 og 2005 um þetta efni og þar kemur fram, svo að ég vitni í síðara svarið sem er svar við fyrirspurn hv. þm. Birgis Ármannssonar, að áfengisgjald hafi lækkað að raungildi um 14,4%. Áfengisgjald á léttum vínum hafði lækkað um 36,2% og áfengisgjald á bjór hafði lækkað um 29% frá 1995 til 2005.

Áfengi er einn af þeim þáttum sem mynda neysluverðsgrunninn eða útgjöld heimilanna og þróun verðlags á áfengi hefur þar af leiðandi áhrif á heildarkostnað heimilanna miðað við þessa skiptingu. Það sem liggur fyrir í raun er að verðlag á áfengi, sérstaklega það sem ríkið tekur til sín, hefur lækkað að raungildi mjög mikið og tölurnar liggja fyrir árið 2005 um þróunina á þessum tíu árum. Síðan þá hefur áfengisgjaldið ekki hækkað fyrr en núna um 12,5% þannig að öll hækkun neysluverðsvísitölu frá 2005 til 2008 hefur leitt til lækkunar á raunvirði áfengisgjaldsins.

Mér sýnist fljótt á litið að lækkunin á áfengisgjaldi frá 2005 — ég hef aðeins fyrirvara á þeim tölum af því að ég vann þetta svolítið á handahlaupum — til dagsins í dag sé um 45% á sterku áfengi (Gripið fram í.) og lækkunin á léttvíni, áfengisgjaldi, sé um 65% og lækkunin áfengisgjaldi af bjór sé um 50%. Þetta hefur lækkað neysluverðsvísitölu öll árin fá 1995. Hvert einasta ár frá 1995 til 2008 hefur ríkið hagað verðlagningu sinni á áfengi þannig að verð á áfengi hefur lækkað að raungildi. Það hefur leitt til lækkunar á neysluverðsvísitölu. Þeir sem nú hrópa um það að hækkunin upp á 12,5% sé ósanngjörn af því að hún hækki vísitölugrunninn og þar af leiðandi skuldbindingar sem eru tengdar henni, verða auðvitað að hafa í huga allt tímabilið en ekki bara einn dag.

Hvað er lækkunin mikil á skuldbindingunum í dag? Hversu miklar væru skuldbindingarnar í dag ef verðlag á áfengi hefði hækkað í takt við neysluverðsvísitölu? Menn eiga að svara því. Það eru ekki bara nokkrir milljarðar eins og hér er verið að tala um, það væru nokkrir tugir milljarða miðað við þessar forsendur sem menn gefa sér núna. Þessu vildi ég koma á framfæri vegna þess að ég er algjörlega ósammála því að hækkunin á áfengisgjaldinu núna leiði þjóðina í einhvern skuldaklafa sem hefði verið hægur vandi að komast hjá, það er bara ekki þannig. Þetta er fyrsti punkturinn, virðulegur forseti.

Til dæmis má nefna áður en ég lýk þessu með bjórinn að miðað við þær upplýsingar sem ég hef í höndunum — ég trúi þeim varla þannig að ég vil hafa smáfyrirvara á þeim — hefur áfengisgjald á bjór ekki hækkað í krónutölu frá 1995. Hvar finna menn vöru á íslenskum markaði þar sem ríkið hefur ekki hækkað hlut sinn um einseyring á 13 árum? Þeir sem hafa keypt þessa vöru á þessum 13 árum hafa fengið ómældar kjarabætur í því formi að gjaldið hefur lækkað að raungildi og lækkað sífellt. Menn skulu hafa þetta í huga, virðulegi forseti, við mat á málinu í heild.

Í öðru lagi, og það er atriði sem skiptir ekki síður máli, hefur verðlagning á áfengi áhrif á neyslu. Það liggja fyrir margar athuganir sem staðfesta það, lægra verð á áfengi þýðir meiri neyslu. Ég greip með mér dæmi frá Finnlandi. Árið 2004 voru Finnar í þeirri stöðu að Eystrasaltslöndin, sem eru nágrannalönd Finnlands, gátu farið að selja áfengi mjög ódýrt og það leiddi til þess að Finnar fóru yfir til Eistlands til að kaupa áfengi þar og spara sér mikinn pening. Finnar gripu til þess ráðs að lækka áfengisgjald ríkisins svo mikið að það lækkaði um 33%, sem er minni lækkun, nota bene, en orðið hefur á áfengisgjaldi hér á landi frá 1995. Þeir lækkuðu áfengisgjaldið um 33% samkvæmt fréttum í febrúar 2004.

Í júlí 2004, fimm mánuðum síðar, birtust fréttir í Morgunblaðinu um að Finnar íhuguðu að hækka aftur áfengisgjaldið um þriðjung til þess að sporna við aukinni áfengisneyslu í landinu. Í frétt Morgunblaðsins var jafnframt greint frá því, með leyfi forseta, að áfengisneysla á hvern mann í Finnlandi hafi aukist úr 9 lítrum í 12. Þetta er aukning um 1/3 eða 33% og skoði menn nú hlutföllin á aukningunni. Það er sama aukningin og lækkunin var á áfengisgjaldinu, 33%.

Þá er spurningin þessi: Hver hefur þróunin verið í neyslu hér á landi á þeim tíma þar sem áfengisgjaldið hefur lækkað svona mikið? Munum eftir því að árið 2000 setti Alþingi sér og þjóðinni heilbrigðisstefnu. Samkvæmt henni var áformað að minnka áfengisneyslu úr 5,5 lítra á mann niður í 5 lítra árið 2010. Sett var sem markmið að minnka neysluna um 10%. Það sem hefur gerst hins vegar er að allar götur síðan hefur neyslan vaxið. Á síðasta ári var hún ekki 5 lítrar, ekki 5,5 lítrar eins og hún var á árinu 2000 heldur 7,56 lítrar. Aukningin frá því að Alþingi samþykkti heilbrigðisstefnuna er um 40%. Skyldi það nú vera nálægt því sem lækkunin á áfengisgjaldinu er að meðaltali hér á landi? Það mundi ég halda, virðulegi forseti, en hef aðeins fyrirvara á því þar til búið er að reikna það nákvæmlega út. En mér sýnist að við höfum hér tvö dæmi um mjög skýrt samband á milli verðs og neyslu.

Þá er það loks þriðji þátturinn sem skiptir máli í þessu sambandi. Það er kostnaðurinn vegna þess að áfengisnotkunin kostar peninga fyrir þjóðfélagið. Áfengisnotkun er ekki bara skemmtileg eða getur verið það — hún getur auðvitað líka verið leiðinleg — en hún kostar peninga. Í bréfi sem þingmenn fengu sent fyrir ári síðan frá Félagi áfengis- og vímuefnaráðgjafa er einmitt vakin athygli á þessum kostnaði.

Í bréfinu segir, með leyfi forseta:

„Kostnaður samfélagsins af áfengisneyslu er verulegur. Í gögnum frá Lýðheilsustöð kemur fram að áætlaður heildarkostnaður þjóða af völdum áfengisneyslu sé á bilinu 1–3% af þjóðarframleiðslu. Ætla má að þessi kostnaður sé ekki undir 30 milljörðum kr. á Íslandi.“

Gögn Lýðheilsustöðvar segja sem sé að kostnaður sé ekki undir 30 milljörðum kr.

Ég innti hæstv. heilbrigðisráðherra eftir þessu í fyrirspurn sem ég lagði fram á Alþingi í desember á síðasta ári. Í svari hans 5. desember á síðasta ári segir hann að áætlaður kostnaður í Evrópu — hann hefur ekki mat á þessu héðan, a.m.k. kemur það ekki fram í svari hans — en hann vitnar til Evrópu og segir, með leyfi forseta:

„Ég get hins vegar upplýst hv. þingmann um það að í Evrópu, þar sem meðalneysla var árið 2006 11 áfengislítrar, er beinn kostnaður að hámarki metinn um 1,3% af vergri landsframleiðslu. Óbeinn kostnaður er hins vegar metinn á 1,9% af vergri landsframleiðslu.“

Það er í samræmi við gögn Lýðheilsustöðvar sem telja kostnaðinn á bilinu 1–3%.

Neyslan kostar peninga. Í fyrra var álitið að kostnaðurinn gæti verið um 30 milljarðar og vaxandi neysla kostar meiri peninga. Hún kostar meiri peninga fyrir fyrirtæki landsins sem fá ekki tekjur eða vinnuframlag frá sínum starfsmanni í samræmi við það sem annars hefði verið. Hún kostar peninga fyrir skattgreiðendur landsins sem þurfa að borga heilbrigðiskerfið og höfum það í huga að á síðasta ári var kostnaður við heilbrigðiskerfið 9% af landsframleiðslu. En heilbrigðisráðherra mat það svo fyrir ári síðan að kostnaðurinn væri um 3% þannig að kostnaðurinn af áfengisneyslu væri um 1/3 af öllum kostnaði við heilbrigðiskerfið á Íslandi. Þá berum við annars vegar saman kostnað við heilbrigðiskerfið og hins vegar heildarkostnað við áfengisneyslu, þ.e. heildarkostnað ríkisins, atvinnufyrirtækja og einstaklinga og annarra, höfum það í huga. Svo er það heildarkostnaðurinn við heilbrigðiskerfið. Kostnaðurinn við áfengisneyslu er 3% og 9% af heildarkostnaði við alla heilbrigðisþjónustu við alla Íslendinga á einu ári.

Þetta er ekkert lítið mál, virðulegur forseti, og sú stefna sem menn hafa fylgt á undanförnum 13 árum, að lækka áfengisgjaldið svona ótrúlega mikið eins og raun ber vitni, kostar peninga. Ég fullyrði hún kostar meiri peninga en ríkið fær inn í tekjur af aukinni sölu. Ríkið skapar sér útgjöld með því að lækka verðið og skapar auk þess öðrum útgjöld með því að lækka verðið. Það er því skynsamlegra að halda áfengisgjaldinu háu því að það dregur úr kostnaði þjóðfélagsins, ríkisins.

Skyldi það nú ekki vera betri niðurstaða að standa í þeim sporum en við stöndum í núna eftir þessa miklu lækkun á áfengisverði undanfarin 13 ár? Ég held að það hafi verið óheillaspor. Varað er við þessari stefnu af öllum þeim sem láta sig þessi mál varða, bæði innlendum og erlendum. Ég get vitnað til skýrslu frá Bandaríkjunum um mat þarlendrar opinberrar stofnunar á kostnaði við áfengisneyslu. Þar er um að ræða alveg gríðarlegar fjárhæðir. Menn þurfa því að hafa þessa hluti í huga þegar rætt er um verð á áfengi og tengsl þess við vísitölu neysluverðs.

Virðulegi forseti. Þegar menn meta málið í heild er ég alveg sannfærður um að hver sanngjarn maður kemst að þeirri niðurstöðu að við gerum ekki rétt með því að lækka verðið heldur þegar við hækkum verðið.