136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[14:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég fagna því að hæstv. forseti hefur gert ráðstafanir til þess að kalla hér til leiks þá hv. þingmenn og ráðherra sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir óskaði eftir að væru við þessa umræðu. Rétt fyrir matarhlé þegar hv. þm. Birkir Jón Jónsson var hér í umræðum og óskaði eftir því að bera fram fyrirspurnir til tiltekinna forsvarsmanna þingnefnda gekk mjög erfiðlega að fá þá hingað í salinn. Reyndar var hér hv. formaður efnahags- og skattanefndar, og varaformaður heilbrigðisnefndar, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, kom hér einnig, en aðra má segja að hafi vantað í þessa umræðu. Þetta er mjög bagalegt fyrir þá sem vilja eiga orðastað við viðkomandi og fá svör við tilteknum atriðum en þetta er líka fullkomin vanvirðing við þingið. Hér erum við að ræða afskaplega stórt mál í þessu stóra, pólitíska efnahagslega samhengi, ráðstafanir í ríkisfjármálum, og það er eiginlega ekki boðlegt fyrir þingið sjálft og alls ekki fyrir forsetana að þessir (Forseti hringir.) einstaklingar skuli ekki láta sjá sig í þingsalnum.