136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[09:42]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér brýtur ríkisstjórnin samning við bændur um þann kjarasamning, framleiðslusamning, sem gerður var milli þessara aðila og staðfestur af þeim. Þarna á að krækja í 800 millj. af bændum. Hafa skal í huga að samtímis óskar ríkisstjórnin eftir fjármagni til að greiða kostnað við að yfirtaka matvælalöggjöf Evrópusambandsins, á annað hundrað millj. kr. hafa farið í það verkefni ef þetta ár verður tekið með. Þar er forgangsröðunin. Innleiðing matvælalöggjafar sem mun reynast bændum og matvælaiðnaði mjög hættuleg og stefna fæðuöryggi þjóðarinnar í hættu. Þetta er forgangsröðin, ESB gegn bændum. Ég segi nei.