136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[14:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að mótmæla því að þingmenn hafi ekki flutt frumvarp um lífeyrisréttindi þingmanna. Ég flutti frumvarp ásamt hv. þingmönnum Árna M. Mathiesen, Einari Oddi Kristjánssyni, Guðmundi Hallvarðssyni, Hjálmari Jónssyni, Kristjáni Pálssyni og Vilhjálmi Egilssyni. Ég var 1. flutningsmaður og samdi frumvarpið árið 1995 þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Alþingismaður skal greiða í lífeyrissjóð sem starfar án ríkisábyrgðar.“

Þetta var 1995. Síðan hef ég flutt í tvígang frumvarp um þingfararkaup, að það sé ákveðið og þar með lífeyrisréttindi líka í þeim frumvörpum báðum þannig að ég hlýt að andmæla þessu.

Svo er A-deildin að sjálfsögðu forréttindadeild vegna þess að réttindin eru föst, þau eru tryggð með lögum og iðgjaldið er breytilegt, þ.e. iðgjald ríkisins ekki sjóðfélagans, þannig að þetta eru forréttindi og líka það að menn greiða 5% iðgjald á meðan venjulegt fólk borgar 4%. Rétt er að við fáum meiri réttindi í þessu nýja frumvarpi en ríkið borgar þá líka 20% meira en hjá venjulegu fólki í A-deildinni þannig að það eru á ýmsan hátt forréttindi. En aðalatriðið er að þegar Lífeyrissjóður verslunarmanna og hugsanlega aðrir lífeyrissjóði verða skertir, sem vonandi verður ekki, eftir áfallið þá munu þessir forréttindasjóðir sitja pikkfastir og verða ekki skertir.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann ræddi ekkert þetta frumvarp, sem í reynd er nokkurs konar aðild að A-deild, hvort hann gefi mér færi á því að komast út úr þessu forréttindakerfi, hvort hann muni ekki styðja breytingartillögu mína og leyfa mér að skreppa út úr því þótt allir aðrir vilji sitja inni í því.