136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

krafa um kosningar.

[13:48]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. stjórnarandstaða bar fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina fyrir nokkrum vikum á Alþingi. Sú tillaga var felld. Það þýðir með öðrum orðum að þessi ríkisstjórn hefur meiri hluta þingsins á bak við sig eins og krafist er í þingræðisskipulagi eins og okkar. (KolH: En ekki þjóðina.) Þingið sagði sína skoðun í þeirri atkvæðagreiðslu sem þá fór fram.

Ríkisstjórnin er auðvitað önnum kafin við að greiða úr ýmsum þeim málum sem hv. þingmaður vék að þó að hann hafi nú grautað þeim öllum saman heldur óhönduglega. Upplýsingar um skuldir ríkisins og þjóðarinnar liggja fyrir. Það liggur líka fyrir að endanlegar tölur í þeim efnum eru ekki tilbúnar vegna þess að enn er ekki ljóst hve mikið fæst upp í þessar skuldir t.d. af eignum Landsbankans. Það er heldur ekki ljóst hversu mikið verður notað af þeim lánum sem við höfum tryggt okkur bæði frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hjá vinveittum þjóðum hér í nágrenninu.

Þess vegna er auðvitað mjög mikilvægt að ríkisstjórnin fái vinnufrið til þess að koma í veg fyrir að þurfa að draga á þessi lán, að við þurfum ekki að nota alla þessa peninga. Til þess að það sé hægt þarf auðvitað að gera hér ýmsar ráðstafanir innan lands og þær geta verið misjafnlega vinsælar.

Ég hélt satt að segja að við hv. þingmenn, Ögmundur Jónasson, ég og aðrir hér, hefðum það sameiginlega markmið að draga úr þörfinni fyrir þær lántökur sem við höfum samið um við aðrar þjóðir og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ætluðum ekki að nýta okkur þá peninga nema í harðbakkann slægi. En það er nauðsynlegt að hafa aðgang að þessu fjármagni.

Hefur hv. þingmaður ekki fylgst með því sem er að gerast í nálægum löndum? Hefur hann ekki heyrt flokksbræður sína í nálægum löndum t.d. í breska Verkamannaflokknum tala um hvernig ástandið er þar í landi? Var ekki hv. þingmaður á flokksþingi einhvers staðar hjá Verkamannaflokknum (Forseti hringir.) fyrir nokkrum vikum síðan? Ég held að hann ætti að kynna sér hvað þessir menn segja þar í landi um efnahagsmálin. (KolH: Heyrir forsætisráðherra ekki í þjóðinni?)