136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. forsætisráðherra til hamingju með nýtt starf og vona að hún beiti kröftum sínum og afli í að bæta hag þjóðarinnar og treysti ekki eingöngu á heppni eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði í umræðu um stefnuræðuna. En mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra að einu. Hún sagði í ræðu 16. maí 2001, með leyfi herra forseta:

„Eins og hér hefur komið fram við þessa umræðu og 1. umr. málsins“ — þ.e. um Seðlabankann — „þá er vissulega verið að stíga veigamikið jákvætt skref í átt til sjálfstæðis Seðlabankans þó að okkar mati sé hvergi nægjanlega langt gengið í því efni.“

Ber það vott um sjálfstæði Seðlabankans að hæstv. forsætisráðherra skrifar bankastjórn bréf og biður þá að segja af sér? Er það sjálfstæði Seðlabankans? Því miður er hæstv. heilbrigðisráðherra, sem nú hefur tekið sér hvíld frá valdastóli sínum í BSRB, ekki viðstaddur umræðuna, en hvað segir hann um umræðuna um bréf hæstv. forsætisráðherra til bankastjóra Seðlabankans þar sem án þess að gefa upp nokkra ástæðu og engar ávirðingar eru nefndar heldur er þeim hótað með lagasetningu — að þeir skuli segja af sér ella verði sett lög?

Hvað segja menn um þetta? Getur einhver ráðherra sent einhverjum opinberum starfsmanni bréf og hótað honum með lögum? Ef þú segir ekki af þér vinurinn, skaltu fara af því mér líkar illa við þig. (MÁ: Illa farið með opinbera starfsmenn.) Geta menn vænst þess, t.d. forstöðumaður heilbrigðisstofnunar, að heilbrigðisráðherra sendi svona bréf viðstöðulaust sem formaður BSRB og segi: Segðu af þér eins og skot ella set ég á þig lög? (Gripið fram í.)