136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:49]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er dálítið sérstakt að hlusta á hæstv. viðskiptaráðherra sem leggur til í þessu frumvarpi að skipt verði um lið í Seðlabankanum þegar hann hefur sjálfur sagt í fjölmiðlum — og hægt er að fletta því upp — að vandamálið við Seðlabankann hafi verið að hugmyndafræðin hafi verið röng. Það hefur hæstv. viðskiptaráðherra margoft sagt í fjölmiðlum og það er hægt að fletta því upp.

Þá veltir maður því fyrir sér af hverju hann sem fulltrúi í ríkisstjórninni leggur ekki til þegar verið er að fjalla um málefni Seðlabankans að peningamálastefnan verði tekin til endurskoðunar. (MÁ: Það er verið að því.) Hvers vegna er það ekki gert? Það er ekkert í þessu frumvarpi sem mælir fyrir um endurskoðun peningamálastefnunnar. Af hverju leggur ríkisstjórnin ekki upp með að breyta hugmyndafræðinni eins og hæstv. viðskiptaráðherra hefur margoft lýst yfir að sé nauðsynlegt (Forseti hringir.) og sé kjarni þess vanda sem hann er að reyna að lýsa þegar hann er (Forseti hringir.) að fjalla um Seðlabanka Íslands?