136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[14:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni utanríkismálanefndar fyrir að hafa hér góð orð um það að þetta mál muni hljóta skjóta afgreiðslu í hv. utanríkismálanefnd. Ég tek sömuleiðis mjög sterklega undir þau orð hans um að við þurfum að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir litla þjóð eins og okkur að hann sé að fullu virtur af umheiminum.

Það er svo, af því að hv. þingmaður nefndi Ossetíu — hann átti væntanlega við Suður-Ossetíu. Suður-Ossetía er innan landamæra Georgíu sem er eitt af þeim löndum sem ásamt tveimur öðrum, Makedóníu og Úkraínu, bíður afstöðu bandalagsins varðandi aðildarumsókn. Þegar við tölum um Króatíu og Albaníu er um að ræða fullvalda, sjálfstæðar þjóðir sem sjálfar hafa óskað eftir því að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Það er töluvert annað, tel ég, sem gildir um það en endilega spurningin sem hv. þingmaður vekur hér upp um sjálfsákvörðunarrétt Suður-Ossetíu til að vera þjóð. Abkasía vill hið sama og báðar eru innan sama ríkis í reynd.

Svolítið þekki ég til þessara þjóða líka frá því að ég fór þarna um á sínum tíma. Fyrir litla þjóð eins og Ísland skiptir miklu máli að ýta undir sanngjarnar kröfur sem geta stuðlað að friði og öryggi á svæðum eins og t.d. í Kákasus þar sem er mikill þjóðapottur og ekki munar miklu stundum að upp úr sjóði og hefur gert á umliðnum árum.

Það er hins vegar óskylt þessu máli. Hér erum við að tala um að greiða för þessara tveggja sjálfstæðu fullvalda þjóða inn í Atlantshafsbandalagið. Það er gott að heyra það og ég ímynda mér að hér á hinu háa Alþingi efist enginn um rétt þessara þjóða til þess að taka sjálfar ákvörðun um þann hluta (Forseti hringir.) af sinni framtíð.