136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

loðnuveiðar.

[15:24]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég spyr hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort hann sjái ekki ástæðu til þess að gefa út agnarlítinn kvóta af loðnu handa skipunum sem nú eru verkefnalaus og loðnan syndir hjá. Ég tel fulla ástæðu til þess og þó að bætt væri við kvóta upp á 50 þús. tonn mundi það ekki breyta neinu sem skiptir máli fyrir stofnstærð. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að bæta við kvóta upp á 50 þús. tonn á meðan verið er að rannsaka og mæla loðnustofninn betur.

Við vitum að það getur skipt nokkrum milljörðum sem við fáum í tekjur fyrir 50 þús. tonn af loðnu því að á þessum árstíma fer aflinn allur í vinnslu og er unninn til útflutnings á Japan á hæsta verði. Ég hvet ráðherra til þess að skoða þessi mál meira og betur en hann hefur gert vegna þess að aðeins er búið að gefa út leyfi á 15 þús. tonn af loðnu sem er nánast bara dropi í hafið. Ég held að lágmark sé að gefa út 50 þús. tonn til viðbótar á meðan er verið að rannsaka þessi mál betur. Ég vil forvitnast um það hjá hæstv. ráðherra hvort hann sjái sér ekki fært að gera það.