136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[20:18]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Laun skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu eru ákveðin af kjararáði líkt og laun alþingismanna þannig að fyrst að ríkisstjórnin telur sér skylt að flytja ítrekað lagafrumvarp til að breyta launakjörum alþingismanna eru hæg heimatökin að taka aðrar stéttir með. Það er tímanna tákn að það sem þykir óhóflegt þegar þingmenn eiga í hlut er talið of lítið þegar aðrir eiga í hlut.

Það er það sem mér finnst vera gagnrýnivert, virðulegi forseti, tvískinnungurinn sem fram kemur hjá ráðherrum í afstöðu sinni gagnvart stöðu og kjörum alþingismanna.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að með því að afnema þessi sérstöku lög frá 2003 muni frumvarpið leiða til þess að skuldbindingar lækki hjá alþingismönnum og ráðherrum um 700 millj. kr. að fjórum árum liðnum, þ.e. um 40%.

Á sínum tíma, í desember 2003, voru lagðir fram útreikningar á áætluðum kostnaði vegna breytinganna og kostnaðurinn var í versta falli talinn auka útgjöld hjá alþingismönnum, ráðherrum, hæstaréttardómurum og embætti forseta Íslands um 400 millj. kr. en í besta falli lækka útgjöldin um 7 millj. kr. Það var óverulegur kostnaðarauki á skuldbindingum ríkissjóðs hjá öllum þessum hópum samtals að mati Talnakönnunar. Og Ríkisendurskoðun mat þetta 650 millj. kr.

Hér kemur ráðherrann og segir að þetta geti þurrkað út 700 millj. kr. á stuttum tíma og 1.700 millj. kr. hjá hópnum í heild. Ég undrast það og mér finnst ótrúverðugt að þessar tölur geti verið réttar miðað við hinar áætlanirnar sem fram hafa verið lagðar.