136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

afstaða til Evrópusambandsaðildar.

[13:35]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason er — að minnsta kosti enn þá — andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það sem gerst hefur hins vegar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að undanförnu er merkilegt í þessum efnum því að þar hefur verið alvöruumræða á ferð með tillögum, í félaginu í Reykjavík og væntanlega víðar, sem við höfum fylgst með af áhuga. Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerði það í haust, sem var kannski forleikur að því að hún tæki ábyrgð í landsmálunum, að hún opnaði fyrir að þessum málum yrði ráðið meðal þjóðarinnar.

Hún opnaði fyrir að atkvæðagreiðsla yrði um ákveðinn þátt málsins sem skipti miklu máli, þ.e. um aðildarumsókn. Hvað sem um það má segja, forseti, er það ákaflega mikilvægt skref af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það sem þessi flokkur gerði síðan í stjórnarmyndunarviðræðunum var að hann opnaði fyrir að stjórnarskránni yrði breytt á þann hátt að ef meirihlutavilji væri fyrir því meðal þjóðarinnar eða samningar tækjust við Evrópusambandið um aðild, væri hægt að bera það undir þjóðina óháð því hvernig málum er skipað á Alþingi.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð, íhaldsflokkurinn mikli og þjóðernisbrjálæðingarnir sem standa í vegi fyrir öllum framförum, er mörgum skrefum, góður forseti, á undan Sjálfstæðisflokknum í þessu efni, sem hefur verið að velta vöngum, klóra sér í kollinum og rymja fram og aftur hver við annan í þessu máli í mörg ár meðan Róm brennur.